1Þannig breytir sá sem óttast Drottin,
sá sem þekkir lögmálið mun spekina hljóta.
2 Hún kemur til móts við hann eins og móðir,
fagnar honum líkt og ung brúður.
3 Hún fær honum brauð skilnings að eta,
veitir honum af vatni spekinnar.
4 Hann styðst við hana og hrasar eigi,
treystir henni og verður ei til skammar.
5 Spekin hefur hann upp yfir lagsmenn hans,
leggur honum orð á varir á mannfundum.
6 Hamingju hlýtur hann og fögnuð
og orðstír sem aldrei deyr.
7 Óskynsamir hljóta spekina aldrei,
syndugir menn munu eigi líta hana.
8 Hún heldur sig fjarri hrokafullum
og kemur lygurum aldrei í hug.
9 Lofsöngur sæmir eigi vörum syndara
því að hann er ekki af Drottni sendur.
10 Lofgjörð skal sá flytja sem spekina á,
Drottinn mun gæða hana krafti.
Um frjálsan vilja
11Segðu ekki: „Drottinn lét mig falla frá.“
Eigi veldur Drottinn því sem hann hatar. [
12 Segðu ekki: „Það er hann sem leiddi mig afvega.“
Drottinn hefur enga þörf fyrir syndara.
13 Hann hatar alla viðurstyggð,
enginn sem óttast hann ann henni.
14 Hann skapaði manninn í upphafi
og veitti honum frelsi til að velja.
15 Ef þú vilt þá getur þú haldið boðorðin,
verið trúfastur ef þér þóknast.
16 Eld og vatn lagði hann fyrir þig,
teygðu fram hönd og tak hvort sem þú vilt.
17 Andspænis mönnum er líf og dauði,
hvort sem þeir kjósa hlotnast þeim.
18 Speki Drottins er mikil,
máttugur er hann og sér allt.
19 Augu hans vaka yfir þeim er óttast hann
og öll mannanna verk eru honum kunn.
20 Hann bauð engum að lifa guðlausu lífi
né heimilaði neinum að syndga.