Egyptar þjást af þorsta – Ísraelsmenn fá vatn
1 Spekin veitti athöfnum þeirra brautargengi undir handleiðslu heilags spámanns. 2 Þeir fóru um óbyggða eyðimörk og slógu tjöldum á öræfum. 3 Þeir vörðust óvinum og hrundu af sér fjandmönnum. 4 Þeir ákölluðu þig, þegar þá þyrsti, og fengu vatn úr þverhníptu bjargi og svölun við þorsta úr hörðum kletti. 5 Það sem óvinum þeirra var refsað með varð þeim sjálfum til gagns er þeir voru nauðstaddir. 6 Þegar óvinum þeirra var refsað 7 fyrir boðið um að myrða börnin, með því að flaumur lindarvatnsins mengaðist óhreinu blóði, gafst þú hinum réttlátu gnægð vatns þegar þess var síst von. 8 Þú lést þorstann fyrst auðsýna þeim hvernig þú refsaðir andstæðingum þeirra. 9 Þótt þú agaðir þá mildilega sýndi sú reynsla þeim hvernig óguðlegir þjást þegar refsandi reiði kemur yfir þá. 10 Réttláta hefur þú reynt og áminnt sem faðir en hina rannsakaðir þú og sakfelldir eins og strangur konungur. 11 Þeir kvöldust á sama hátt, bæði nær og fjær, 12 enda kom tvöfaldur harmur yfir þá, kveinstafir sem ýfðu minningu hins liðna. 13 Því að þeir skynjuðu að Drottinn var að verki þegar þeir heyrðu að refsingarnar, sem þeir hlutu, urðu hinum til blessunar. 14 Þann sem þeir höfðu forðum borið út, hrakið frá sér og hæðst að, urðu þeir að dásama að leikslokum. Þorsti þeirra var af öðrum toga en hinna réttlátu.
Egyptum refsað fyrir syndir
15 Í ranglæti sínu höfðu hugsanir þeirra verið fávíslegar og leitt í þá villu að dýrka skynlaus skriðdýr og auvirðilegar pöddur. Þess vegna sendir þú þeim mergð skynlausra kvikinda til þess að refsa þeim 16 og kenna þeim að það sem þeir nota til að syndga verður þeim til refsingar. 17 Almætti þitt, sem skópst heiminn af ómynduðu efni, hefði megnað að stefna gegn þeim flokki bjarndýra eða öskrandi ljóna. 18 Það hefði einnig getað skapað ný og óþekkt villidýr sem ýmist spúðu eldi, fnæstu þrumandi mekki eða væru með augu sem skutu ægilegum gneistum. 19 Ekki hefði þurft árás slíkra dýra til að eyða ranglátum heldur hefði það eitt að sjá þau tortímt þeim, svo skelfileg væri sú sjón. 20 Þú hefðir líka getað látið þá falla án þessara dýra fyrir einum andgusti. Þú hefðir getað hrakið þá með refsidómi þínum og tvístrað þeim með voldugum anda þínum. En þú hefur skipað öllu eftir mæli, tölu og vog. 21 Þér er ætíð fært að beita voldugum mætti þínum. Hver fær staðist máttugan arm þinn? 22 Allur heimurinn er sem fis á vog fyrir þér, líkur daggardropa er fellur á jörðu að morgni. 23 En þú miskunnar öllum því að þú megnar allt og umberð syndir manna svo að þeir sjái að sér. 24 Þú elskar allt, sem er til, og hefur ekki ímugust á neinu, sem þú hefur gert, né skapaðir þú neitt er þú gætir haft óbeit á. 25 Hvernig fengi nokkuð staðist gegn vilja þínum eða varðveist ef þú hefðir ekki gefið því líf? 26 Þú hlífir öllu af því að það er þitt, ó, Drottinn, sem elskar allt sem lifir, því að óforgengilegur andi þinn er í öllu.