Júdít heldur til herbúða Hólofernesar
1 Þegar Júdít hafði lokið ákalli sínu til Guðs Ísraels 2 stóð hún á fætur, kallaði á þernu sína og gekk niður í húsið sem hún dvaldist í á hvíldardögum og hátíðum. 3 Lagði hún af sér hærusekkinn og afklæddist ekkjubúningnum, þvoði sér hátt og lágt og smurði sig dýrindis ilmsmyrslum. Þá greiddi hún hár sitt, faldaði höfuðið og fór í veislubúning þann sem hún hafði klæðst meðan Manasse maður hennar var á lífi. 4 Hún setti ilskó á fæturna, lét á sig armbönd og ökklahringi, hringa, eyrnalokka og allt sitt skart. Hún bjó sig svo fagurlega til þess að ganga í augun á hverjum þeim manni sem sæi hana. 5 Síðan fékk hún þernu sinni skinnbelg með víni og olíukrús og fyllti mal af ristuðu korni, fíkjukökum og hreinu brauði, bjó síðan vel um mataráhöld sín og lét þernuna bera þau.
6 Síðan gengu þær út að hliði Betúlúuborgar og hittu Ússía og borgaröldungana Kabrís og Karmís sem þar stóðu. 7 Er þeir sáu hana og hve yfirbragð hennar var orðið breytt og klæðnaður annar en áður, undruðust þeir fegurð hennar og sögðu við hana: 8 „Guð feðra okkar gefi þér náð til að ljúka ætlunarverki þínu Ísraelsmönnum til vegsemdar og Jerúsalem til dýrðar.“ Og þeir féllu á kné og báðu til Guðs, 9 en hún sagði við þá: „Látið opna borgarhliðið fyrir mér. Þá mun ég ganga út til þess að framkvæma það sem þið voruð að tala um.“ Þeir buðu ungu mönnunum að opna fyrir henni eins og hún hafði beðið um. 10 Það var gert og Júdít gekk út ásamt þernu sinni. Borgarbúar fylgdu henni eftir með augunum þar sem hún gekk ofan fjallið þar til hún var komin ofan í dalinn og hvarf þeim úr augsýn.
11 Þar sem þær gengu rakleiðis fram dalinn mætti assýrísk framvarðarsveit þeim. 12 Gripu hermennirnir Júdít og spurðu: „Hverra manna ertu, hvaðan kemurðu? Og hvert ætlarðu?“ Hún svaraði: „Ég er hebresk kona og er á flótta frá löndum mínum af því að þeir munu gefnir ykkur að bráð. 13 Ég er á leið til Hólofernesar, yfirhershöfðingja ykkar, til þess að gefa honum áreiðanlegar upplýsingar. Ég ætla að vísa honum á veg sem hann getur farið og náð öllu fjalllendinu á sitt vald án þess að nokkur lifandi maður af liði hans falli.“
14 Þegar mennirnir heyrðu það sem Júdít sagði og virtu hana fyrir sér hrifust þeir af fegurð hennar og sögðu: 15 „Þú hefur bjargað lífi þínu með því að hraða þér hingað ofan til húsbónda okkar. Haltu áfram til tjalds hans. Nokkrir okkar munu fylgja þér og skila þér í hendur hans. 16 Þegar þú gengur fyrir hann skalt þú ekki óttast. Segðu honum það sama og þú varst að segja og hann mun gera vel við þig.“ 17 Þeir völdu síðan hundrað menn úr liðinu til að fara með Júdít og þernu hennar. Fylgdu þeir konunum að tjaldi Hólofernesar. 18 En menn þustu úr öllum herbúðunum af því að fréttin um komu Júdítar hafði borist um tjöldin. Slógu þeir hring um Júdít þar sem hún stóð fyrir utan tjald Hólofernesar á meðan honum var skýrt frá komu hennar. 19 Dáðust þeir að fegurð hennar og að Ísraelsmönnum sakir hennar og sögðu hver við annan: „Hver getur fyrirlitið þá þjóð sem á slíkar konur sín á meðal? Ekki væri ráðlegt að þyrma einum einasta manni af slíkri þjóð. Komist þeir undan geta þeir heillað allan heiminn.“
20 Lífverðir Hólofernesar og allir þjónar hans aðrir komu nú út og leiddu Júdít inn í tjaldið. 21 Hólofernes lá í hvílu sinni undir flugnaneti sem var ofið úr purpura og gullþræði og voru saumaðir í það smaragðar og eðalsteinar. 22 Hann gekk fram í fortjaldið er honum var sagt frá komu Júdítar og voru silfurlampar bornir fyrir honum. 23 Þegar hann og þjónar hans sáu Júdít undruðust þeir allir fegurð hennar. Hún féll fram á ásjónu sína og laut honum en þjónar Hólofernesar reistu hana á fætur.