Lofgjörð Tóbíts
1 Þá bað Tóbít:
Lofaður sé lifandi Guð að eilífu,
lofað sé ríki hans.
2 Hann agar en miskunnar einnig,
leiðir til heljar niður í jarðardjúp
en hrífur einnig úr gereyðingunni.
Enginn fær umflúið hönd hans.
3 Þakkið honum, Ísraelsmenn, í augsýn heiðingjanna.
Meðal þeirra dreifði hann yður.
4 Þar sýndi hann mátt sinn.
Vegsamið hann frammi fyrir öllum lifendum
því að hann er Drottinn vor,
Guð vor og faðir vor.
Hann er Guð um aldir alda.
5 Hann mun hirta yður vegna ranglætis yðar,
en hann mun einnig miskunna yður
og leiða yður aftur frá þjóðunum öllum
sem yður var dreift á meðal.
6 Þegar þér snúið yður til hans
af öllu hjarta og allri sálu
og gerið rétt fyrir augliti hans
mun hann snúa sér að yður
og ekki framar hylja ásjónu sína fyrir yður.
Sjáið hvað hann hefur gert fyrir yður
og þakkið honum hástöfum.
Lofið Drottin réttlætisins,
vegsamið konung eilífðarinnar.
Ég þakka honum í landi útlegðar minnar,
kunngjöri syndugri þjóð mátt hans og mikilleik.
Snúið við, syndarar, lifið réttlátlega fyrir augliti hans.
Þá kann að vera að hann auðsýni yður náð og miskunn.
7 Ég lofa Guð minn
og sál mín lofsyngur konung himinsins
og fagnar yfir mikilleik hans.
8 Allir skulu tala um stórvirki hans
og syngja honum lof í Jerúsalem.
9 Jerúsalem, borgin helga,
þig mun hann hirta fyrir syndir sona þinna
en réttlátum mun hann miskunna.
10 Þakka þú Drottni því að hann er góður,
lofa konung eilífðarinnar.
Þá mun tjaldbúð þín
endurreist verða með miklum fögnuði.
Drottinn gleðji alla útlaga þína, Jerúsalem,
og auðsýni öllum þínum umkomulausu kærleika
frá kyni til kyns og um aldir alda.
11 Skært ljós mun skína til endimarka jarðar
og margar þjóðir munu koma langt að til þín,
lýðir frá ystu endimörkum jarðar
til að nálgast þitt heilaga nafn.
Þeir munu færa konungi himinsins gjafir.
Ein kynslóð af annarri mun syngja gleðisöng í þér
og nafn hinnar útvöldu borgar mun vara
frá kyni til kyns um aldir alda.
12 Bölvaðir séu allir sem lasta þig,
bölvaðir allir sem eyða þig
og rífa niður múra þína,
fella turna þína og leggja eld að húsum þínum.
En blessaðir séu þeir um eilífð sem auðsýna þér lotningu.
13 Kom þá og fagna yfir sonum réttlátra
því að allir munu safnast saman
og lofa Drottin eilífðarinnar.
14 Sælir eru þeir sem elska þig,
sælir eru þeir sem gleðjast yfir velgengni þinni.
Sælir eru allir þeir sem hryggjast
yfir þeim þjáningum öllum
sem á þér dundu
því að þeir munu gleðjast yfir þér
og sjá öll fagnaðarefni þín um eilífð.
15 Lofa þú Drottin, sála mín, konunginn mikla.
16 Því að Jerúsalem mun endurreist
sem hús Drottins um aldir alda.
Ég mun sæll ef nokkrir niðjar minna lifa
og fá að líta dýrð þína
og lofa konung himinsins.
Hlið Jerúsalem munu gerð úr safír og smaragði,
allir múrar þínir af eðalsteinum.
Turnar Jerúsalem munu gerðir af gulli,
varðturnarnir af skíragulli.
17 Stræti Jerúsalem munu lögð steinflögumyndum
og eðalsteinum frá Ófír.
18 Frá hliðum Jerúsalem munu gleðisöngvar óma
og frá hverju húsi mun hljóma:
Hallelúja, lofaður sé Ísraels Guð!
Hinir blessuðu munu lofa nafn Hins heilaga nú og að eilífu.