Um Ísrael og Júda
Gegn Samaríu
1Vei hinum drembilega blómsveig drykkjurútanna í Efraím,
hinu bliknaða blómi, hinni dýrlegu prýði hans
á hæðarkollinum í hinum frjósama dal
þar sem vínið lagði þá að velli.
2Hetja Drottins, sterk og voldug,
kemur sem haglskúr, mannskaðaveður,
beljandi skýfall
og varpar honum til jarðar af afli.
3Hinn drembilegi blómsveigur drykkjurútanna í Efraím
verður fótum troðinn.
4Fara mun fyrir hinu bliknaða blómi,
hinni dýrlegu prýði hans
á hæðarkollinum í frjósama dalnum,
eins og fíkju sem þroskaðist fyrir uppskerutímann.
Sá sem kemur auga á hana
gleypir hana um leið og hún kemur í lófa hans.
5Á þeim degi verður Drottinn allsherjar dýrlegur blómsveigur
og fagurt höfuðdjásn þeirra sem eftir verða af þjóð hans.
6Hann verður þeim réttlætisandi sem situr í dómarasæti,
og hetjumóður þeim sem hrekja árásarlið út um borgarhliðið.
7Þessir menn slaga einnig af víndrykkju,
skjögra af áfengum drykkjum,
prestar og spámenn slaga af sterkum drykkjum,
ruglaðir af víni,
skjögrandi af drykkju,
slaga er þeir sjá sýnir,
riða er þeir kveða upp dóma.
8Öll borð eru þakin spýju,
enginn blettur laus við saur.
9„Hverjum ætlar hann að veita þekkingu,
fyrir hverjum útskýra opinberanir?
Fyrir börnum, sem eru nývanin af mjólk,
þeim sem eru nýtekin af brjósti?“
10Því að hann segir:
Boð á boð ofan, skipun á skipun ofan, nú þetta, þá hitt.
11Með stamandi vörum á annarlegri tungu
mun hann tala til þessa fólks,
12hann sem sagði við þá:
„Þetta er hvíldarstaðurinn,
ljáið þreyttum hvíld,
hér er endurnæring,“
en þeir vildu ekki hlusta.
13Því mun orð Drottins koma til þeirra:
Boð á boð ofan, skipun á skipun ofan, nú þetta, þá hitt
svo að þeir fari og falli aftur á bak,
beinbrotni, flækist í snörunni og verði teknir til fanga.
Hornsteinn á Síon
14Heyrið því orð Drottins, skrumarar,
sem drottnið yfir fólkinu sem býr í Jerúsalem.
15Þér segið að sönnu:
„Vér höfum gert sáttmála við Dauðann
og samning við Hel.
Þegar flóðbylgjan dynur yfir
nær hún ekki til vor
því að vér höfum gert lygi að hæli voru
og falið oss í skjóli svika.“
16Þess vegna segir Drottinn Guð:
Sjá, ég legg undirstöðustein á Síon,
traustan stein, valinn hornstein.
Sá sem trúir flýr ekki.
17Ég geri réttinn að mælivað
og réttlætið að mælilóði.
Þá mun hagl sópa burt hæli lyginnar
og vatnsflóð skola burt skjólinu.
18Sáttmáli yðar við dauðann verður rofinn
og samningur yðar við helju fær ekki staðist.
Þegar flóðbylgjan dynur yfir eins og svipa
molar hún yður sundur.
19Í hvert sinn sem hún hvolfist yfir
þrífur hún yður með sér,
hvern morgun ríður hún yfir, nótt sem dag
og skelfilegt verður að skýra boðskapinn.
20Rúmið er of stutt til að rétta megi úr sér,
ábreiðan of mjó til að vefja henni um sig.
21Því að Drottinn mun rísa upp eins og á Perasímfjalli,
hann mun fyllast heift eins og í dalnum við Gíbeon.
Hann mun vinna verk sitt, hið undarlega verk sitt,
og inna af hendi starf sitt, hið annarlega starf sitt.
22 Látið nú af skruminu svo að fjötrar yðar herðist ekki
því að ég hef heyrt um eyðinguna
sem Drottinn, Guð allsherjar, hefur ákveðið um allt landið.
Líking um visku Guðs
23 Hlustið og hlýðið á mál mitt,
takið eftir og heyrið ræðu mína.
24 Plægir bóndinn allan daginn til að sá,
ristir hann í sífellu akur sinn og herfar?
25 Nei, þegar hann hefur sléttað akurinn
sáir hann sólselju og dreifir kúmeni,
hann sáir hveiti og byggi
og setur speldi í jaðar akursins.
26 Guð hans segir honum vel til verka
og leiðbeinir honum.
27 Sólselja er ekki þreskt með þreskisleða
né vagnhjóli velt yfir kúmen
heldur er sólseljufræ slegið úr með staf
og kúmen með stöng.
28 Er brauðkorn mulið í duft?
Nei, ekki er það þreskt án afláts,
vagnhjól og hestar fara ekki yfir það,
það er ekki mulið í duft.
29 Einnig þetta kemur frá Drottni allsherjar,
hann er undursamlegur í ráðum
og mikill að visku.