1Sendið hrútlamb til landstjórans,
frá Sela [ í eyðimörkinni
til fjalls dótturinnar Síonar.
2Eins og flöktandi fuglar,
eins og ungar fældir úr hreiðri
verða Móabsdætur
við vöðin á Arnon.
3„Gefðu ráð, taktu ákvörðun,
varpaðu náttsvörtum skugga
um hábjartan dag.
4Lát þá sem hröktust frá Móab hljóta vernd hjá þér,
vertu þeim skjól gegn eyðandanum.“
Þegar áþjáninni lýkur,
eyðingunni linnir
og kúgararnir eru horfnir úr landinu
5verður hásæti reist í trúfesti í tjaldi Davíðs
og í því mun jafnan sitja stjórnandi
sem leitar réttar og ástundar réttlæti.
6Vér höfum heyrt um hroka Móabs
sem er mikill,
stolt hans, yfirlæti og ofmetnað
og marklaus gífuryrði.
7Þess vegna kveina Móabítar,
þeir kveina allir yfir Móab.
Þeir stynja niðurbrotnir af hryggð
yfir rúsínukökunum frá Kír Hareset
8því að víngarðarnir í Hesbon
og vínviðurinn í Síbma hafa skrælnað.
Höfðingjar þjóðanna tróðu gæðavínber þeirra niður, [
vínviðarteinungarnir teygðust til Jaser,
skriðu inn í eyðimörkina,
greinarnar breiddu úr sér
og héngu út yfir hafið.
9Þess vegna græt ég með Jaser
sem grætur yfir vínviðnum í Síbma.
Ég vil vökva þig tárum mínum,
Hesbon og Eleale,
því að fagnaðarópin yfir uppskeru þinni
og aldintekju hafa þagnað.
10Úr aldingörðunum heyrast hvorki fagnaðaróp né hlátrasköll.
Enginn treður vín í vínpressunni,
gleðihrópin eru þögnuð.
11Þess vegna titrar hjarta mitt sem hörpustrengur vegna Móabs
og hugur minn örvæntir sökum Kír Hares.
12Þegar Móab birtist og lýist á fórnarhæðinni,
heldur til helgidóma sinna til bæna,
kemur hann engu til leiðar.
13 Þetta er boðskapurinn sem Drottinn flutti Móab fyrir löngu. 14 En nú segir Drottinn: Eftir þrjú ár, talin sem ár vistráðinna, verður öll vegsemd Móabs og öll mannmergð hans fyrirlitin. Aðeins örfáir og umkomulausir verða eftir.
Jesaja 16. kafliHið íslenska biblíufélag2024-05-06T22:28:25+00:00
Jesaja 16. kafli
Hægt er að nálgast texta þessa kafla í öðrum íslenskum þýðingum með því að smella á nafn þýðingarinnar hér fyrir neðan. Þýðingin opnast í nýjum glugga.