Hagnýt ráð
1Sonur minn, hafir þú gengið í ábyrgð fyrir náunga þinn,
hafir þú átt handsal við framandi mann,
2þá hefurðu bundið þig eigin orðum,
látið fangast af orðum munns þíns.
3Gerðu þá þetta, sonur minn, til að losa þig
því að þú ert kominn á vald náunga þíns:
Farðu í flýti og leggðu að náunga þínum.
4Láttu þér hvorki koma dúr á auga né blundur á brá.
5Losaðu þig eins og dádýr úr höndum hans,
eins og fugl úr höndum fuglarans.
6Farðu til maursins, letingi.
Skoðaðu háttu hans og lærðu hyggindi.
7Þótt hann hafi engan höfðingja,
engan yfirboðara eða valdsherra,
8þá aflar hann sér samt vista á sumrin
og dregur saman fæðuna um uppskerutímann.
9Hve lengi ætlar þú að hvílast, letingi?
Hvenær ætlar þú að rísa af svefni?
10Sofa ögn enn, blunda ögn enn,
leggja saman hendur til að hvílast ögn enn.
11Þá kemur fátæktin yfir þig eins og ræningi,
skorturinn eins og vopnaður maður.
12Varmennið, illmennið, talar tveimur tungum,
13deplar augunum, gefur merki með fótunum
og bendir fingrunum,
14bruggar vélráð í hjarta sínu,
áformar ódæði, kveikir illdeilur.
15Því mun ógæfan steypast yfir hann,
á augabragði kemur hrun hans
og ekkert er til bjargar.
16Sex hluti hatar Drottinn
og sjö eru sálu hans andstyggð:
17hrokafullt augnaráð, lygin tunga
og hendur sem úthella saklausu blóði,
18hjarta sem bruggar fjörráð,
fætur sem fráir eru til illverka,
19ljúgvottur sem sver meinsæri
og sá sem kveikir illdeilur meðal bræðra.
20Varðveittu, sonur minn, fyrirmæli föður þíns
og hafnaðu ekki viðvörun móður þinnar.
21Festu þau á hjarta þitt,
bittu þau um háls þinn.
22 Þau leiða þig hvar sem þú ferð,
þegar þú hvílist vaka þau yfir þér
og þegar þú vaknar, þá tala þau til þín.
23 Því að fyrirmæli eru lampi og viðvörun ljós,
og hvatning og handleiðsla leið til lífsins
24 því að þær varðveita þig fyrir vondri konu,
fyrir hálli tungu framandi konu.
25 Girnstu ekki fegurð hennar í hjarta þínu
og láttu hana ekki ginna þig með augnaráði sínu.
26 Því að skækja fæst fyrir einn brauðhleif
en ótrú kona náunga þíns sækist eftir lífi þínu.
27 Getur nokkur borið glóð í klæðafaldi
án þess að föt hans sviðni?
28 Getur nokkur gengið á glóðum
án þess að svíða iljar sínar?
29 Svo fer þeim sem hefur mök við konu náunga síns,
sá hlýtur refsingu sem hana snertir.
30 Enginn fyrirlítur þjófinn
þegar hann stelur til að seðja hungur sitt.
31 Náist hann verður hann þó að greiða sjöfalt
og láta frá sér allar eigur sínar.
32 Sá sem drýgir hór með giftri konu
er vitstola, hann steypir sjálfum sér í glötun.
33 Högg og smán mun hann hljóta
og vansæmd hans verður aldrei afmáð.
34 Eiginmaðurinn verður hamstola af reiði
og hefnd hans verður vægðarlaus,
35 hann lítur ekki við neinum bótum
og hafnar gjöfum þínum hversu ríkulegar sem þær eru.