1Hallelúja.
Þakkið Drottni því að hann er góður,
því að miskunn hans varir að eilífu.
2Hver getur sagt frá máttarverkum Drottins,
kunngjört allan lofstír hans?
3Sælir eru þeir sem gæta réttarins,
sem iðka réttlæti alla tíma.
4Minnstu mín, Drottinn,
er þú miskunnar lýð þínum,
vitja mín með hjálpræði þínu.
5Lát mig sjá heill þinna útvöldu,
gleðjast með þjóð þinni
og fagna með eignarlýð þínum.
6Vér höfum syndgað eins og feður vorir,
höfum breytt illa og óguðlega.
7Feður vorir í Egyptalandi gáfu ekki gaum að undrum þínum,
minntust ekki mikillar miskunnar þinnar
en risu gegn Hinum hæsta við Sefhafið.
8Hann bjargaði þeim vegna nafns síns
til að kunngjöra mátt sinn.
9Hann hastaði á Sefhafið og það þornaði,
leiddi þá yfir djúpin eins og um eyðimörk.
10Hann bjargaði þeim úr greipum hatursmanna þeirra,
leysti þá úr óvinahöndum.
11Vötnin huldu ofsækjendur þeirra,
enginn þeirra komst undan.
12Þá treystu þeir orðum hans
og sungu honum lof.
13En þeir gleymdu fljótt verkum hans,
biðu ekki ráða hans.
14Þeir fylltust græðgi í eyðimörkinni
og freistuðu Guðs í auðninni.
15Hann uppfyllti ósk þeirra
en sendi þeim tærandi sjúkdóm.
16Þá öfunduðu þeir Móse í herbúðunum
og Aron, hinn heilaga Drottins.
17Jörðin opnaðist og gleypti Datan
og huldi flokk Abírams.
18Eldur kviknaði í flokki þeirra,
logi gleypti hina óguðlegu.
19Þeir gerðu kálf við Hóreb
og féllu fram fyrir steyptu líkneski,
20létu vegsemd sína í skiptum
fyrir mynd af nauti sem bítur gras.
21Þeir gleymdu Guði, frelsara sínum,
sem vann máttarverk í Egyptalandi,
22 gerði undur í landi Kams,
ógnvekjandi dáðir við Sefhafið.
23 Hann hugðist tortíma þeim
en Móse, sem hann hafði útvalið,
gekk á milli og bægði frá tortímandi reiði hans.
24 Þeir fyrirlitu hið unaðslega land
og treystu ekki orðum hans,
25 mögluðu í tjöldum sínum
og hlýddu ekki á boð Drottins.
26 Þá hóf hann hönd sína gegn þeim
til að fella þá í eyðimörkinni,
27 fella niðja þeirra meðal framandi þjóða
og dreifa þeim um löndin.
28 Þeir gengu Baal Peór á hönd
og neyttu þess sem dauðum goðum var fórnað.
29 Þeir egndu hann til reiði með athæfi sínu
og því braust út plága meðal þeirra.
30 Þá gekk Pínehas fram og kvað upp dóm
og létti þá plágunni.
31 Þetta var reiknað honum til réttlætis,
frá kyni til kyns, ævinlega.
32 Þeir reittu hann til reiði við Meríbavötn
og Móse varð fyrir mótlæti þeirra vegna
33 því að þeir risu gegn vilja hans
og honum hrutu vanhugsuð orð af vörum.
34 Þeir eyddu eigi þjóðunum
eins og Drottinn hafði boðið þeim
35 heldur lögðu lag sitt við aðrar þjóðir
og tóku upp hætti þeirra.
36 Þeir dýrkuðu skurðgoð þeirra
og þau urðu þeim að fótakefli.
37 Þeir færðu illum vættum syni sína og dætur að fórn,
38 úthelltu saklausu blóði,
blóði sona sinna og dætra
sem þeir fórnuðu goðum Kanaans
svo að landið vanhelgaðist af blóðinu.
39 Þeir saurguðust af verkum sínum
og frömdu tryggðarof með athæfi sínu.
40 Þá blossaði reiði Drottins upp gegn lýð sínum
og hann fékk andstyggð á arfleifð sinni.
41 Hann seldi þá öðrum þjóðum í hendur,
hatursmenn þeirra drottnuðu yfir þeim,
42 fjandmenn þeirra kúguðu þá
og þeir urðu að beygja sig undir vald þeirra.
43 Hvað eftir annað bjargaði hann þeim
en þeir þrjóskuðust gegn ráðum hans
og sukku dýpra í synd sína.
44 Hann leit til þeirra í neyðinni
þegar hann heyrði kvein þeirra.
45 Hann minntist sáttmála síns við þá,
aumkaðist yfir þá vegna mikillar miskunnar sinnar
46 og lét þá finna miskunn
hjá öllum þeim sem höfðu flutt þá í útlegð.
47 Hjálpa þú oss, Drottinn, Guð vor,
og safna oss saman frá þjóðunum,
svo að vér getum lofað þitt heilaga nafn
og fagnandi sungið þér lof.
48 Lofaður sé Drottinn, Ísraels Guð,
frá eilífð til eilífðar.
Allur lýðurinn segi: Amen.
Hallelúja.
Sálmarnir 106. kafliHið íslenska biblíufélag2020-05-30T18:12:22+00:00
Sálmarnir 106. kafli
- 1
- 2
- 3
- 4
- 5
- 6
- 7
- 8
- 9
- 10
- 11
- 12
- 13
- 14
- 15
- 16
- 17
- 18
- 19
- 20
- 21
- 22
- 23
- 24
- 25
- 26
- 27
- 28
- 29
- 30
- 31
- 32
- 33
- 34
- 35
- 36
- 37
- 38
- 39
- 40
- 41
- 42
- 43
- 44
- 45
- 46
- 47
- 48
- 49
- 50
- 51
- 52
- 53
- 54
- 55
- 56
- 57
- 58
- 59
- 60
- 61
- 62
- 63
- 64
- 65
- 66
- 67
- 68
- 69
- 70
- 71
- 72
- 73
- 74
- 75
- 76
- 77
- 78
- 79
- 80
- 81
- 82
- 83
- 84
- 85
- 86
- 87
- 88
- 89
- 90
- 91
- 92
- 93
- 94
- 95
- 96
- 97
- 98
- 99
- 100
- 101
- 102
- 103
- 104
- 105
- 106
- 107
- 108
- 109
- 110
- 111
- 112
- 113
- 114
- 115
- 116
- 117
- 118
- 119
- 120
- 121
- 122
- 123
- 124
- 125
- 126
- 127
- 128
- 129
- 130
- 131
- 132
- 133
- 134
- 135
- 136
- 137
- 138
- 139
- 140
- 141
- 142
- 143
- 144
- 145
- 146
- 147
- 148
- 149
- 150
Hægt er að nálgast texta þessa kafla í öðrum íslenskum þýðingum með því að smella á nafn þýðingarinnar hér fyrir neðan. Þýðingin opnast í nýjum glugga.