1 Asafsmaskíl.
Hlýð þú, þjóð mín, á kenningu mína,
legg eyrun að ræðu munns míns.
2Ég vil opna munn minn með líkingu
og túlka liðna tíð.
3Það sem vér höfum heyrt og þekkjum
og feður vorir sögðu oss frá
4ætlum vér ekki að dylja fyrir börnum þeirra
heldur segja komandi kynslóð
frá dáðum Drottins og mætti hans
og máttarverkunum sem hann vann.
5Hann setti Jakobi reglur
og lögmál í Ísrael
sem hann bauð feðrum vorum
að kenna börnum sínum
6svo að komandi kynslóð nemi
og börn, sem síðar fæðast,
gangi fram og segi sínum börnum.
7Þau setji traust sitt á Guð,
gleymi ekki stórvirkjum Guðs
og varðveiti boðorð hans
8en verði ekki eins og feður þeirra,
þrjósk og ódæl kynslóð,
reikul í ráði
með anda ótrúan Guði.
9Niðjar Efraíms, vopnaðir boga,
flýðu á orrustudeginum.
10Þeir héldu ekki sáttmála Guðs
og vildu ekki fylgja lögum hans,
11gleymdu stórvirkjum Drottins
og máttarverkunum sem hann lét þá sjá.
12Hann drýgði dáðir í augsýn feðra þeirra
í Egyptalandi, á Sóanvöllum.
13Hann klauf hafið og leiddi þá yfir
og lét vatnið standa sem vegg.
14Hann leiddi þá með skýi um daga
og um nætur með lýsandi eldi.
15Hann klauf kletta í auðninni
og gaf þeim gnægð vatns eins og úr frumdjúpinu.
16Hann lét læki spretta úr kletti,
vatnið streyma niður sem fljót.
17Þó héldu þeir áfram að syndga gegn honum,
rísa í eyðimörkinni gegn Hinum hæsta.
18Þeir freistuðu Guðs af ásetningi
með því að heimta mat að vild sinni.
19Þeir mæltu gegn Guði og sögðu:
„Getur Guð búið borð í eyðimörkinni?
20Víst laust hann klett svo að vatn flæddi út
og lækir spruttu fram
en getur hann einnig gefið oss brauð
og séð lýð sínum fyrir kjöti?“
21Drottinn heyrði þetta og reiddist,
eldur blossaði upp gegn Jakobi
og reiði brann gegn Ísrael
22 því að þeir trúðu ekki Guði
eða treystu hjálp hans.
23 Þá bauð hann skýjunum í hæðum
og opnaði dyr himins,
24 lét manna rigna yfir þá til matar
og gaf þeim himnakorn,
25 englabrauð fengu menn að eta,
hann sendi þeim fæðu og þeir urðu mettir.
26 Hann lét austanvindinn blása af himnum
og knúði sunnanvindinn með mætti sínum.
27 Hann lét kjöti rigna yfir þá sem dufti
og mergð fugla eins og sandi á sjávarströnd.
28 Hann lét þá falla niður í búðir sínar
umhverfis bústað sinn.
29 Þeir átu og urðu vel saddir,
hann sendi þeim það sem þeir girntust.
30 Áður en græðgin hvarf þeim,
meðan maturinn var enn í munni þeirra,
31 reis heift Guðs gegn þeim
og hann deyddi valdamenn þeirra,
felldi æskumenn Ísraels.
32 Þrátt fyrir allt þetta héldu þeir áfram að syndga gegn honum
og trúðu ekki á máttarverk hans.
33 Hann lét því daga þeirra hverfa eins og andgust,
ár þeirra enda í skelfingu.
34 Þegar hann laust þá leituðu þeir hans,
iðruðust og sneru sér til Guðs,
35 minntust þess að Guð var klettur þeirra
og Hinn hæsti Guð frelsari þeirra.
36 Í munni þeirra var hræsni,
með tungu sinni lugu þeir að honum.
37 Hjarta þeirra var ekki stöðugt gagnvart honum
og þeir reyndust ótrúir sáttmála hans.
38 En hann er miskunnsamur, fyrirgefur misgjörðir
og eyðir þeim ekki.
Oft stillir hann reiði sína,
heldur aftur af bræði sinni.
39 Hann minntist þess að þeir voru hold,
andgustur sem líður burt og snýr ekki aftur.
40 Hve oft risu þeir ekki gegn honum í auðninni,
styggðu hann í eyðimörkinni.
41 Þeir reyndu Guð hvað eftir annað
og vanvirtu Hinn heilaga í Ísrael.
42 Þeir minntust ekki handar hans,
dagsins sem hann frelsaði þá frá óvininum,
43 þegar hann gerði tákn sín í Egyptalandi
og undur sín á Sóanvöllum.
44 Hann breytti fljótum þeirra í blóð
og þeir gátu ekki drukkið vatn úr lækjum sínum.
45 Hann sendi flugur gegn þeim sem átu þá
og froska sem eyddu þeim.
46 Hann gaf átvargi afurðir þeirra
og engisprettum uppskeru þeirra.
47 Hann eyddi vínvið þeirra með hagli
og mórberjatré þeirra með frosti.
48 Hann ofurseldi fé þeirra drepsótt
og hjarðir þeirra sjúkdómum.
49 Hann sendi logandi heift sína gegn þeim,
harm, bræði og nauðir,
sveitir illra sendiboða.
50 Hann gaf reiðinni lausan taum,
þyrmdi ekki lífi þeirra
heldur ofurseldi þá drepsótt.
51 Hann laust alla frumburði í Egyptalandi,
frumgróða karlmennskunnar í tjöldum Kams.
52 Því næst hélt hann af stað með þjóð sína eins og fjársafn,
leiddi hana eins og hjörð um eyðimörkina.
53 Hann leiddi þá óhulta og óttalausa
en óvini þeirra huldi hafið.
54 Síðan fór hann með þá til síns heilaga lands,
til fjalllendisins sem hægri hönd hans hafði unnið,
55 stökkti þjóðum undan þeim,
skipti landi þeirra í erfðalönd með hlutkesti,
lét ættbálka Ísraels setjast að í tjöldum þeirra.
56 En þeir freistuðu Hins hæsta Guðs, risu gegn honum
og héldu ekki lög hans,
57 sviku hann í tryggðum eins og feður þeirra,
brugðust eins og svikull bogi.
58 Þeir reittu hann til reiði með fórnarhæðum sínum,
vöktu afbrýði hans með skurðgoðum sínum.
59 Guð heyrði það og reiddist
og hafnaði Ísrael að fullu.
60 Hann yfirgaf bústaðinn í Síló,
tjaldið sem hann bjó í meðal manna.
61 Hann lét herleiða mátt sinn,
seldi dýrð sína í hendur fjandmanna.
62 Hann ofurseldi lýð sinn sverðseggjum,
reiddist arfleifð sinni.
63 Æskumenn hans gleypti eldurinn,
meyjar hans urðu af brúðkaupssöngvum,
64 prestar hans féllu fyrir sverði
og ekkjur hans fengu ekki harmljóð flutt.
65 Þá vaknaði Drottinn eins og af svefni,
eins og bardagamaður sem vaknar af ölvímu.
66 Hann rak fjandmenn sína á flótta,
gerði þeim ævarandi háðung.
67 Hann hafnaði tjaldi Jósefs,
kaus sér eigi ættbálk Efraíms
68 en valdi sér Júda ætt,
Síonarfjall sem hann elskaði.
69 Hann reisti helgidóm sinn sem himinhæðir,
grundvallaði hann að eilífu eins og jörðina.
70 Síðan útvaldi hann þjón sinn, Davíð,
sótti hann í fjárbyrgin.
71 Hann tók hann frá lambánum
til þess að vera hirðir fyrir Jakob, lýð sinn,
og arfleifð sína, Ísrael.
72 Davíð var hirðir þeirra af heilum hug,
leiddi þá með hygginni hendi.
Sálmarnir 78. kafliHið íslenska biblíufélag2020-05-30T18:12:48+00:00
Sálmarnir 78. kafli
- 1
- 2
- 3
- 4
- 5
- 6
- 7
- 8
- 9
- 10
- 11
- 12
- 13
- 14
- 15
- 16
- 17
- 18
- 19
- 20
- 21
- 22
- 23
- 24
- 25
- 26
- 27
- 28
- 29
- 30
- 31
- 32
- 33
- 34
- 35
- 36
- 37
- 38
- 39
- 40
- 41
- 42
- 43
- 44
- 45
- 46
- 47
- 48
- 49
- 50
- 51
- 52
- 53
- 54
- 55
- 56
- 57
- 58
- 59
- 60
- 61
- 62
- 63
- 64
- 65
- 66
- 67
- 68
- 69
- 70
- 71
- 72
- 73
- 74
- 75
- 76
- 77
- 78
- 79
- 80
- 81
- 82
- 83
- 84
- 85
- 86
- 87
- 88
- 89
- 90
- 91
- 92
- 93
- 94
- 95
- 96
- 97
- 98
- 99
- 100
- 101
- 102
- 103
- 104
- 105
- 106
- 107
- 108
- 109
- 110
- 111
- 112
- 113
- 114
- 115
- 116
- 117
- 118
- 119
- 120
- 121
- 122
- 123
- 124
- 125
- 126
- 127
- 128
- 129
- 130
- 131
- 132
- 133
- 134
- 135
- 136
- 137
- 138
- 139
- 140
- 141
- 142
- 143
- 144
- 145
- 146
- 147
- 148
- 149
- 150
Hægt er að nálgast texta þessa kafla í öðrum íslenskum þýðingum með því að smella á nafn þýðingarinnar hér fyrir neðan. Þýðingin opnast í nýjum glugga.