1Þess vegna skelfur hjarta mitt
og berst í brjósti mér.
2Hlustið, heyrið þrumuraust hans,
drununa úr munni hans.
3Hann þeytir henni um himin allan
og sendir leiftur sitt til endimarka jarðar.
4Því næst drynur þruma,
hann þrumar tignarlegri raust
og heldur ekki aftur af eldingunum
þegar rödd hans heyrist.
5Með þrumuraust sinni gerir Guð kraftaverk
og vinnur stórvirki sem vér skiljum ekki.
6Hann segir við snjóinn: „Þú skalt falla á jörðina,“
og við regnið: „Þú skalt falla í stríðum straumum.“
7Hann innsiglar hendur sérhvers manns
svo að öllum sé ljóst að þetta eru verk hans.
8Villidýr leita skjóls
og bæla sig í holum sínum.
9Stormurinn kemur úr forðabúrinu
og kuldinn fylgir norðanvindinum.
10Ísinn verður til fyrir andgust Guðs
og hin víðu vötn leggur.
11Skýin hleður hann vætu,
dreifir bólstrum með eldingu sinni.
12Skýin rekur í allar áttir,
þau veltast um undir stjórn hans
til að gera það sem hann skipar
um alla hina byggðu jörð.
13Hann beinir þeim ýmist sem refsivendi
eða í þágu lands síns,
eða til að auðsýna náð.
14Hlýddu á þetta, Job,
stattu nú kyrr og gefðu gaum að máttarverkum Guðs.
15Skilurðu hvernig Guð gefur þeim fyrirmæli,
hvernig elding leiftrar í skýjum hans,
16skilurðu hvernig skýin svífa um,
það er kraftaverk Hins alvitra,
17þú sem stiknar af hita, alklæddur,
í logni og breiskju á jörðinni?
18Hleður þú með honum skýjabólstra
sem eru fastmótaðir og líkjast steyptum spegli?
19Segðu oss hvað við eigum að segja við hann.
Vegna myrkurs höfum við ekkert fram að færa.
20Þarf að segja honum að ég ætli að tala
eða þarf einhver að skýra honum frá svo að hann fái fréttir?
21Nú sjá menn ekki ljós ljóma á bak við ský
en vindgustur blæs og sópar þeim burt.
22 Úr norðri kemur gullinn bjarmi,
ógnvekjandi ljómi umhverfis Guð.
23 Vér náum ekki til Hins almáttka
sem er upphafinn og mikill að mætti og réttlæti,
réttlæti hans er mikið, hann kúgar engan,
24 þess vegna óttast menn hann,
hann lítur ekki við þeim sem hafa viturt hjarta.
Jobsbók 37. kafliHið íslenska biblíufélag2024-06-27T02:38:44+00:00
Jobsbók 37. kafli
Hægt er að nálgast texta þessa kafla í öðrum íslenskum þýðingum með því að smella á nafn þýðingarinnar hér fyrir neðan. Þýðingin opnast í nýjum glugga.