Fjórða ræða Elíhú
1 Elíhú tók enn til máls og sagði:
2Andartak, ég ætla að segja þér dálítið,
enn er margt ósagt um Guð.
3Þekkingu mína ætla ég að draga langt að
og sýna fram á réttlæti skapara míns.
4Orð mín eru sannarlega engin lygi,
hjá þér er sá sem býr yfir fullkominni þekkingu.
5Guð er voldugur en fyrirlítur engan,
hann er voldugur að mætti og speki.
6Hann gefur ekki óguðlegum líf
en lætur umkomulausa ná rétti sínum.
7Hann hefur ekki augun af réttlátum
en setur þá í hásæti með konungum, ævinlega,
og þeir verða mikils metnir.
8En hafi þeir verið lagðir í hlekki,
reyrðir í reipi þjáningarinnar,
9setur hann þeim verk þeirra fyrir sjónir
og misgjörðir því að þeir hreyktu sér.
10Hann opnar eyru þeirra og vandar um við þá,
hvetur þá til að hverfa frá vonsku sinni.
11Ef þeir hlýða og þjóna honum
lýkur ævidögum þeirra í velsæld
og árum þeirra í unaði.
12En hlýði þeir ekki fara þeir yfir fljótið til undirheima
og deyja í vanþekkingu.
13Guðlausir í hjarta ala á heift,
þeir hrópa ekki á hjálp þegar hann fjötrar þá.
14Ævi þeirra lýkur í æskublóma
og lífi þeirra lýkur meðal hórsveina.
15Guð bjargar hinum þjáða með þjáningum hans,
opnar eyra hans með áþján.
16Þig dró hann einnig úr gini þjáninga,
út á víðlendi þar sem engin þrenging er.
Borð þitt er hlaðið feitmeti
17en þú færð fylli þína af sama dómi og guðlausir,
dómur og réttlæti halda þér í skefjum.
18En gættu þín, láttu ekki ginnast af allsnægtum
og ekki tælast af mútum.
19Mun auður þinn leysa þig úr nauðum
eða afl þitt reynt til fulls?
20Þráðu ekki nóttina
þegar þjóðir verða að halda frá byggðum sínum.
21Gættu þín, snúðu þér ekki að illu
því að þess vegna varstu reyndur með þjáningu.
22 Guð er upphafinn í mætti sínum,
hver getur kennt eins og hann?
23 Hver getur vísað honum til vegar?
Og hver getur sagt við hann: „Þú hefur breytt rangt.“
24 Mundu að tigna verk hans
sem menn syngja lof.
25 Allir menn horfa fagnandi á það,
hinn dauðlegi sér það úr fjarska.
26 Guð er meiri en vér getum skilið,
óteljandi eru ár hans.
27 Hann safnar saman vatnsdropum,
þeir hreinsast og verða regn
28 sem streymir úr skýjunum
og fellur yfir mannfjöldann.
29 Hver skilur rek skýjanna
og þrumugnýinn frá bústað hans?
30 Hann breiðir um sig birtu sína
og hylur botn hafsins.
31 Því að þannig dæmir hann þjóðirnar,
gefur þeim gnægð matar.
32 Leiftrandi elding hylur lófa hans
og skipun hans beinir henni í mark.
33 Þruma hennar segir frá honum
og búféð boðar komu hans.