Ræður Elíhú
Elíhú kynntur
1 Nú hættu þessir þrír menn að svara Job því að hann var réttlátur í eigin augum. 2 En reiði blossaði upp í Elíhú Barakelssyni frá Bús af Rams ætt. 3 Reiði hans brann einnig gegn þessum þremur vinum hans vegna þess að þeir fundu engin svör til að sanna sekt Jobs. 4 Elíhú hafði hikað við að tala til Jobs því að vinir hans voru eldri en hann. 5 En þegar Elíhú sá að þessir þrír menn áttu engin önnur svör blossaði reiði hans upp.
Fyrsta ræða
6 Þá tók Elíhú Barakelsson Búsíti til máls og sagði:
Enn er ég ungur að árum
en þér eruð gamlir,
þess vegna hikaði ég og óttaðist
að miðla yður af þekkingu minni.
7Ég hugsaði: „Aldurinn tali,
árafjöldinn kunngjöri speki.“
8En það er andinn í mönnunum,
innblástur frá Hinum almáttka, sem veitir þeim skilning.
9Aldraðir þurfa ekki að vera vitrir,
öldungar skilja ekki alltaf hvað rétt er.
10Því segi ég: Hlustið á mig,
nú ætla ég að miðla yður þekkingu minni.
11Ég beið eftir ræðum yðar,
lagði hlustir við röksemdum yðar
þangað til þér funduð viðeigandi orð.
12Ég fylgdist með yður af athygli
en enginn yðar gat andmælt Job,
enginn yðar gat svarað orðum hans.
13Segið ekki: „Vér höfum fundið spekina.
Guð einn fær sigrað hann, ekki maðurinn.“
14Orðum hans var ekki beint gegn mér
og ég svara honum ekki með yðar orðum.
15Þeir hafa gefist upp, svara engu,
þeim er orða vant.
16Á ég þá að bíða meðan þeir þegja
því að þeir standa þarna og geta engu svarað?
17Ég ætla að svara fyrir mig,
ég ætla einnig að miðla þekkingu minni
18því að ég er fullur af orðum,
andinn í brjósti mér knýr mig.
19Já, brjóst mitt er sem vín í þéttum belg,
það gæti brostið eins og nýir vínbelgir.
20Ég verð að tala svo að mér létti,
opna varir mínar og svara.
21Hvorki dreg ég taum nokkurs manns
né skjalla neinn
22 því að ég kann ekki að smjaðra,
annars mundi skapari minn svipta mér burt innan skamms.