Fyrsta ræða Elífasar
1 Elífas frá Teman svaraði og sagði:
2Mislíkar þér að reynt sé að tala við þig?
Hver fær samt orða bundist?
3Þú hefur leiðbeint mörgum,
magnþrota hendur hefur þú styrkt.
4Orð þín reistu á fætur þann sem hrasaði,
þú studdir þau hné sem létu undan.
5Nú hendir það þig og þú missir móðinn,
það snertir þig og þú kiknar.
6Áttu ekki athvarf í guðhræðslunni,
er flekklaus vegur þinn ekki von þín?
7Hugleiddu hvort saklausum hafi verið grandað,
hvar réttlátum hafi verið eytt.
8Það hef ég séð.
Þeir sem plægðu illsku og sáðu böli
hafa uppskorið samkvæmt því,
9þeir hurfu fyrir andgusti Guðs,
fyrir reiðiblæstri hans urðu þeir að engu.
10Ljónið öskrar og hvolpur þess urrar
en ljónstennurnar verða brotnar.
11Ljónið deyr ef það skortir bráð
og hvolpar ljónynjunnar tvístrast.
12En til mín laumaðist orð,
eyra mitt heyrði hvíslað,
13í hugrenningum út frá draumsýn um nótt
þegar svefnhöfgi leggst á menn.
14Skelfing greip mig og skjálfti
svo að öll bein mín nötruðu
15og vindgustur straukst um andlit mitt,
hárin risu á líkama mínum.
16Einhver stóð þarna, ég greindi ekki útlit hans,
einhver vera var fyrir augum mér
og ég heyrði hvíslandi rödd:
17„Hefur dauðlegur maður rétt fyrir sér gagnvart Guði,
er nokkur hreinn frammi fyrir þeim sem skapaði hann?
18Sjá, hann getur ekki treyst þjónum sínum
og finnur afglöp hjá englum sínum,
19hvað þá hjá þeim sem búa í leirhúsum
sem grundvölluð eru á sandi.
Þeir verða marðir sundur sem mölur,
20slegnir frá morgni til kvölds,
þeir munu hverfa um aldur og ævi
og enginn tekur eftir því.
21Verður tjaldstagi þeirra ekki kippt upp?
Þeir munu deyja skilningsvana.“