Skrá yfir presta og Levíta
1 Þetta eru prestarnir og Levítarnir sem komu heim með Serúbabel Sealtíelssyni og Jósúa:
Seraja, Jeremía, Esra, 2 Amarja, Mallúk, Hattús, 3 Sekanja, Rehúm, Meremót, 4 Iddó, Ginntóí, Abía, 5 Míjamín, Maadja, Bílga, 6 Semaja, Jójaríb, Jedaja, 7 Sallú, Amók, Hilkía og Jedaja.
Þetta voru foringjar prestanna og starfsbræðra þeirra á dögum Jósúa.
8 Levítarnir voru: Jósúa, Binnúí, Kadmíel, Serebja, Júda og Mattanja en hann og starfsbræður hans stjórnuðu lofsöngnum. 9 Bakbúkja og Únní og starfsbræður þeirra stóðu gegnt þeim eftir þjónustuflokkum sínum.
10 Jósúa gat Jójakím, Jójakím gat Eljasíb og Eljasíb Jójada. 11 Jójada gat Jónatan og Jónatan gat Jaddúa.
Skrá yfir presta og Levíta frá tíma Jójakíms æðsta prests
12 Á dögum Jójakíms voru þessir prestar höfðingjar prestaættanna: Meraja í Seraja ætt, Hananja í Jeremía ætt, 13 Mesúllam í Esra ætt, Jóhanan í Amarja ætt, 14 Jónatan í Mallúkí ætt, Jósef í Sebanja ætt, 15 Adna í Harím ætt, Helkaí í Merajót ætt, 16 Sakaría í Iddó ætt, Mesúllam í Ginnetón ætt, 17 Sikrí í Abía ætt, …[ í Minjamín ætt, Piltaí í Módaja ætt, 18 Sammúa í Bílga ætt, Jónatan í Semaja ætt, 19 Matnaí í Jójaríb ætt, Ússí í Jedaja ætt, 20 Kallaí í Sallaí ætt, Eber í Amók ætt, 21 Hasabja í Hilkía ætt, Netaneel í Jedaja ætt.
22 Á dögum Eljasíbs, Jójada, Jóhanans og Jaddúa og allt til ríkisstjórnar Daríusar hins persneska voru þeir prestar, sem einnig voru ættarhöfðingjar, skráðir. 23 Þeir niðjar Leví, sem voru ættarhöfðingjar, voru skráðir í annálabókunum allt fram á daga Jóhanans Eljasíbssonar.
24 Þetta voru foringjar Levítanna:
Hasbaja, Serebja, Jósúa, Baní, Kadmíel og ættbræður þeirra sem stóðu gegnt þeim þegar lofgjörðar- og þakkarsálmarnir voru fluttir samkvæmt fyrirmælum guðsmannsins Davíðs. Söngflokkarnir stóðu hvor gegnt öðrum: 25 Mattanja, Bakbúkja, Óbadía, Mesúllam, Talmón og Akkúb stóðu vörð sem hliðverðir við geymsluherbergin í hliðunum.
26 Þessir menn voru uppi á dögum Jójakíms Jósúasonar, Jósadakssonar, og Nehemía landstjóra og Esra, prests og fræðimanns.
Vígsla borgarmúranna
27 Þegar borgarmúrar Jerúsalem voru vígðir voru Levítarnir sóttir til þeirra staða þar sem þeir bjuggu og fluttir til Jerúsalem. Þeir áttu að annast vígsluna með fögnuði, lofsöngvum og sálmum, bumbuslætti og hörpuleik og sítaraspili. 28 Söngvarar Levíta söfnuðust saman bæði frá héraðinu í næsta nágrenni við Jerúsalem og frá þorpum Netófatíta, 29 frá Bet Gilgal og frá sléttunum við Geba og Asmavet því að þeir höfðu reist sér bæi í grennd við Jerúsalem.
30 Prestarnir og Levítarnir hreinsuðu nú sjálfa sig og því næst fólkið, hliðin og múrana.
31 Því næst lét ég höfðingja Júda stíga upp á múrinn, lét og tvo stóra kóra, sem flytja áttu þakkarsálminn, taka sér stöðu. Annar gekk til hægri uppi á borgarmúrnum í átt til Öskuhliðsins. 32 Á eftir honum kom Hósaja og helmingurinn af höfðingjum Júda. 33 Þá komu Asarja, Esra, Mesúllam, 34 Júda, Benjamín, Semaja og Jeremía. 35 Eftirtaldir prestar þeyttu lúðra: Sakaría Jónatansson, Semajasonar, Mattanjasonar, Míkajasonar, Sakkúrssonar, Sasafssonar 36 og starfsbræður hans, Semaja, Asareel, Mílalaí, Gílalaí, Maaí, Netaneel, Júda og Hananí og komu með hljóðfæri guðsmannsins Davíðs. Esra fræðimaður gekk á undan þeim. 37 Þeir gengu fram hjá Lindarhliðinu og beint upp þrepin upp í borg Davíðs. Þá gengu þeir tröppurnar upp á múrinn, fram hjá húsi Davíðs og austur að Vatnshliðinu.
38 Hinn kórinn gekk til vinstri og ég á eftir honum með hinum helmingi fólksins. Við gengum uppi á múrnum, fram hjá Ofnturninum til breiða múrsins, 39 fram hjá Efraímshliði, Jesanahliði, Fiskhliði, Hananelturni og Hundraðmannaturni og að Sauðahliði og staðnæmdumst við Fangelsishliðið.
40 Nú tóku báðir kórarnir sér stöðu við hús Guðs sem og ég og helmingur embættismannanna sem með mér var. 41 Eins gerðu prestarnir Eljakím, Maaseja, Minjamín, Míkaja, Eljóenaí, Sakaría og Hananja, sem voru með lúðrana, 42 og Maaseja, Semaja, Eleasar, Ússí, Jóhanan, Malkía, Elam og Eser. Þá létu söngvararnir í sér heyra undir stjórn Jisrahja.
43 Þennan dag voru færðar miklar sláturfórnir og allir glöddust því að Guð hafði veitt þeim mikla gleði. Konur og börn tóku einnig þátt í gleðinni og gleðiglaumurinn frá Jerúsalem heyrðist langt að.
Framlög til guðsþjónustunnar í musterinu
44 Um þessar mundir voru menn settir yfir geymsluherbergin sem ætluð voru fyrir afgjöld, framlög af frumgróða og tíundir. Framlögum til presta og Levíta af ökrum borganna, sem þeim voru ætluð samkvæmt lögmálinu, var safnað í þessi geymsluherbergi því að Júdamenn glöddust yfir prestunum og Levítunum sem gegndu guðsþjónustunni. 45 Þeir gegndu þjónustunni við Guð sinn og önnuðust hreinsunarathafnirnar. Söngvararnir og hliðverðirnir störfuðu einnig samkvæmt fyrirmælum Davíðs og Salómons, sonar hans, 46 því að áður fyrr, á dögum Davíðs og Asafs, höfðu söngvararnir stjórnendur þegar Guði voru fluttir lofgjörðar- og þakkarsálmar.
47 Á dögum Serúbabels og eins á dögum Nehemía greiddu allir Ísraelsmenn daglega framlög til söngvara og hliðvarða eftir því sem þörf var á. Þeir helguðu Levítunum einnig ákveðið framlag og Levítarnir helguðu niðjum Arons hluta þeirra.