Jóahas konungur Júda
1 Fólkið í landinu tók nú Jóahas Jósíason til konungs í Jerúsalem eftir föður hans. 2 Jóahas var tuttugu og þriggja ára þegar hann varð konungur og hann ríkti þrjá mánuði í Jerúsalem. 3 Konungur Egyptalands setti hann þá frá völdum í Jerúsalem. Hann lagði einnig refsiskatt á landið, hundrað talentur silfurs og einnig talentu gulls. 4 Konungur Egyptalands gerði Eljakím, bróður hans, að konungi yfir Júda og Jerúsalem og breytti nafni hans í Jójakím. En Nekó tók Jóahas, bróður hans, til fanga og flutti til Egyptalands.
Jójakím konungur Júda
5 Jójakím var tuttugu og fimm ára þegar hann varð konungur og ríkti ellefu ár í Jerúsalem. Hann gerði það sem illt var í augum Drottins, Guðs síns. 6 Nebúkadnesar, konungur í Babýlon, hélt gegn honum, lét setja hann í hlekki og flutti til Babýlonar. 7 Nebúkadnesar flutti einnig hluta áhaldanna úr húsi Drottins til Babýlonar og kom þeim fyrir í höll sinni þar. 8 Það sem ósagt er af sögu Jójakíms og þeim andstyggilegu verkum sem hann vann og því sem henti hann er skráð í bók Ísraels- og Júdakonunga. Jójakín, sonur hans, varð konungur eftir hann.
Jójakín konungur Júda
9 Jójakín var átján ára þegar hann varð konungur og ríkti þrjá mánuði og tíu daga í Jerúsalem. Hann gerði það sem illt var í augum Drottins. 10 Um áramótin sendi Nebúkadnesar konungur menn og lét flytja hann til Babýlonar ásamt dýrmætum áhöldum úr húsi Drottins. Hann gerði Sedekía, bróður hans, að konungi yfir Júda og Jerúsalem.
Sedekía konungur Júda
11 Sedekía var tuttugu og eins árs þegar hann varð konungur og ríkti í Jerúsalem ellefu ár. 12 Hann gerði það sem illt var í augum Drottins, Guðs síns. Hann lét ekki undan Jeremía spámanni sem talaði fyrir munn Drottins. 13 Hann gerði meira að segja uppreisn gegn Nebúkadnesari konungi sem hafði látið hann sverja sér trúnað við Guð. Hann var harðsvíraður og herti hjarta sitt svo að hann sneri sér ekki til Drottins, Guðs Ísraels. 14 Allir leiðtogar Júda, prestarnir og almenningur, urðu sífellt svikulli. Þeir líktu eftir viðbjóðslegum siðum annarra þjóða og saurguðu hús Drottins sem Drottinn hafði helgað í Jerúsalem. 15 Samt sendi Drottinn, Guð feðra þeirra, sífellt boðskap til þeirra af munni sendiboða sinna því að hann vildi hlífa lýð sínum og bústað sínum. 16 En þeir hlógu að sendiboðum Guðs, fyrirlitu boðskap hans og hæddu spámenn hans þar til heift Drottins gegn lýð sínum varð svo mikil að ekkert varð til bjargar.
Fall Júdaríkis
17 Nú lét Drottinn konung Kaldea halda gegn þeim. Hann felldi æskumenn þeirra með sverði í húsi helgidóms þeirra. Hann hlífði hvorki ungum körlum né konum, kornabörnum né öldungum, Drottinn seldi alla í hendur hans. 18 Nebúkadnesar flutti öll áhöld úr húsi Guðs, bæði stór og smá, til Babýlonar. Einnig flutti hann þangað alla fjársjóði húss Drottins, konungsins og embættismanna hans. 19 Kaldear brenndu hús Guðs, rifu niður múra Jerúsalem, kveiktu í öllum höllum borgarinnar og skemmdu allt verðmætt. 20 Nebúkadnesar flutti alla sem sluppu undan sverðinu í útlegð til Babýlonar. Þeir urðu þrælar hans og sona hans þar til Persar náðu yfirráðum. 21 Þar með rættist orð Drottins sem flutt var af munni Jeremía. Landið hvíldist allan tímann sem það var í eyði, þar til sjötíu ár voru liðin og það hafði endurheimt sín vanræktu hvíldarár.
Heimfararleyfi Kýrusar
22 Á fyrsta stjórnarári Kýrusar Persakonungs rættist orð Drottins sem flutt hafði verið af munni Jeremía. Drottinn blés Kýrusi Persakonungi því í brjóst að tilkynna eftirfarandi bæði munnlega og skriflega: 23 „Svo segir Kýrus Persakonungur: Drottinn, Guð himinsins, hefur gefið mér öll konungsríki veraldar. Hann hefur sjálfur falið mér að reisa sér hús í Jerúsalem sem er í Júda. Sérhver ykkar á meðal, sem er af lýð hans, skal fara þangað upp eftir og sé Drottinn, Guð hans, með honum.“