Jósafat konungur Júda
1 Jósafat, sonur Asa, varð konungur eftir hann og gerðist voldugur í Ísrael. 2 Hann flutti herlið til allra víggirtra borga í Júda og kom fyrir setuliði í Júda og borgum Efraíms sem Asa, faðir hans, hafði tekið.
3 Drottinn var með Jósafat af því að hann fylgdi fordæmi Davíðs, forföður síns. Hann leitaði ekki til Baalanna 4 heldur til Guðs, föður síns. Hann fylgdi boðum hans og hegðaði sér ekki eins og Ísraelsmenn. 5 Þess vegna efldi Drottinn konungdóminn í hendi hans. Allir Júdamenn færðu Jósafat gjafir svo að hann hlaut mikil auðæfi og mikla vegsemd. 6 Hann var kappsamur í þjónustu sinni við Drottin og fjarlægði einnig fórnarhæðirnar og Asérustólpana frá Júda.
7 Á þriðja stjórnarári sínu sendi hann Benhaíl, Óbadía, Sakaría, Netaneel og Míkaja, embættismenn sína, til að kenna í borgum Júda. 8 Með þeim sendi hann Levítana Semaja, Netanja, Sebadja, Asahel, Semíramót, Jónatan, Adónía, Tobía og Tob Adónía ásamt prestunum Elísama og Jóram. 9 Þegar þeir kenndu í Júda höfðu þeir með sér lögmálsbók Drottins og fóru um allar borgir Júda og kenndu fólkinu.
10 Drottinn lét skelfingu koma yfir öll konungsríkin umhverfis Júda svo að þau þorðu ekki að ráðast á Jósafat. 11 Filistear færðu Jósafat mikið silfur í skatt. Arabar færðu honum einnig fénað, sjö þúsund og sjö hundruð hrúta og sjö þúsund og sjö hundruð geithafra.
12 Þannig varð Jósafat æ voldugri. Hann reisti virki og vistaborgir í Júda 13 og átti miklar vistir þar.
Jósafat hafði hrausta hermenn í Jerúsalem 14 og gegndu þeir þjónustu eftir ætterni. Adna yfirforingi stjórnaði foringjum þúsund manna liða frá Júda. Undir stjórn hans voru þrjú hundruð þúsund hraustir hermenn. 15 Næstur honum var foringinn Jóhanan. Undir stjórn hans voru tvö hundruð og áttatíu þúsund hermenn. 16 Næstur honum var Amasja Síkríson sem hafði gengið til liðs við Drottin að eigin frumkvæði. Undir hans stjórn voru tvö hundruð þúsund hraustir hermenn. 17 Frá Benjamín kom Eljada, hraustur hermaður. Undir stjórn hans voru tvö hundruð þúsund hermenn, vopnaðir bogum og skjöldum. 18 Næstur honum var Jósabad. Undir stjórn hans voru hundrað og áttatíu þúsund menn, búnir til herþjónustu.
19 Þetta voru þeir sem þjónuðu konungi auk þeirra sem hann hafði komið fyrir í víggirtu borgunum hvarvetna í Júda.