Stríð við Ísrael
1 Á þrítugasta og sjötta stjórnarári Asa hélt Basa Ísraelskonungur í herför gegn Júda. Hann víggirti Rama til þess að hindra Asa Júdakonung í því að fara út í stríðið og komast heim aftur. 2 Þá tók Asa silfur og gull úr fjárhirslum húss Drottins og konungshallarinnar. Hann sendi það til Benhadads Aramskonungs sem sat í hásætinu í Damaskus og lét flytja honum þessi boð: 3 „Sáttmáli er milli mín og þín eins og var milli föður míns og föður þíns. Ég sendi þér hér með silfur og gull. Rjúfðu sáttmála þinn við Basa Ísraelskonung svo að hann verði að hörfa frá mér.“
4 Benhadad varð við tilmælum Asa konungs. Hann sendi hershöfðingja sína í herför gegn borgum Ísraels og sigraði Ijón, Dan og AbelMaím, auk þess allar birgðageymslur í borgum Naftalí. 5 Þegar Basa frétti þetta hætti hann að víggirða Rama. 6 En Asa konungur kvaddi saman alla Júdamenn og lét þá flytja burt steinana og timbrið sem Basa hafði notað við að víggirða Rama. Hann víggirti síðan Geba og Mitspa með byggingarefninu.
7 Þá kom sjáandinn Hananí til Asa Júdakonungs og sagði við hann: „Þar sem þú hefur stutt þig við konung Aramea en ekki við Drottin, Guð þinn, þá hefur her Ísraelskonungs[ gengið þér úr greipum. 8 Höfðu Kússítar og Líbíumenn ekki gífurlega öflugan her ásamt mörgum vögnum og fjölmennum vagnliðum? Eigi að síður seldi Drottinn þá í hendur þér vegna þess að þú studdist við hann. 9 Því að augu Drottins skima um alla jörðina til þess að geta komið þeim til hjálpar sem eru heils hugar við hann. Þú hefur breytt heimskulega í þessu máli, þess vegna muntu eiga í ófriði héðan í frá.“
10 Asa reiddist sjáandanum og lét setja hann í fangelsi af því að hann var honum reiður. Asa tók að beita ýmsa þegna sína harðræði um þessar mundir.
Asa deyr
11 Það sem ósagt er af sögu Asa, frá upphafi til enda, er skráð í bók konunga Júda og Ísraels.
12 Á þrítugasta og níunda stjórnarári sínu veiktist Asa í fótum. Veikindi hans urðu mjög þungbær en samt leitaði hann ekki til Drottins í veikindum sínum heldur til lækna. 13 Asa var lagður til hvíldar hjá feðrum sínum. Hann dó á fertugasta og fyrsta stjórnarári sínu. Hann var grafinn í mikilli grafhvelfingu sem hann hafði látið höggva út handa sér í borg Davíðs. Hann var lagður á legstað sem hafði verið þakinn með ilmjurtum og alls kyns listilega tilreiddum smyrslum. Mikið bál var kveikt honum til heiðurs.