Siðbót Asa
1 Andi Guðs kom yfir Asarja Ódeðsson. 2 Hann gekk þá fyrir Asa og sagði: „Hlustið á mig, Asa og allir íbúar í Júda og Benjamín. Drottinn er með ykkur á meðan þið eruð með honum. Ef þið leitið til hans lætur hann ykkur finna sig en ef þið yfirgefið hann yfirgefur hann ykkur. 3 Ísraelsmenn voru lengi án hins sanna Guðs, án presta sem kenndu og án lögmáls. 4 Í neyð sinni sneru þeir sér til Drottins, Guðs Ísraels. Þeir leituðu hans og hann lét þá finna sig. 5 Um þær mundir gat enginn, sem fór eða kom, verið öruggur af því að óöld ríkti meðal íbúa landanna. 6 Þjóð réðst á þjóð og borg á borg af því að Guð olli uppnámi meðal þeirra með hvers konar nauðum. 7 En verið hughraustir. Látið ykkur ekki fallast hendur því að ykkur verður umbunað fyrir verk ykkar.“
8 Þegar Asa hafði hlýtt á þessi orð og boðskap Asarja spámanns Ódeðssonar herti hann upp hugann og fjarlægði öll skurðgoð úr landi Júda og Benjamíns og borgunum sem hann hafði tekið á Efraímsfjöllum. Hann endurnýjaði einnig altarið sem stóð fyrir framan forsal Drottins. 9 Því næst stefndi hann saman öllum ættbálkum Júda og Benjamíns og þeim af ættbálkum Efraíms, Manasse og Símeons sem höfðu leitað hælis hjá þeim. En margir frá Ísrael höfðu flust til hans þegar þeim varð ljóst að Drottinn, Guð hans, var með honum.
10 Þeir söfnuðust saman í Jerúsalem í þriðja mánuði fimmtánda árs konungdóms Asa. 11 Á þeim degi fórnuðu þeir Drottni sjö hundruð nautum og sjö þúsund sauðum. Þeir færðu þessar fórnir af herfanginu. 12 Þá skuldbundu þeir sig til að leita Drottins, Guðs feðra sinna, af öllu hjarta og allri sálu sinni. 13 En hver sá sem ekki leitaði Drottins, Guðs Ísraels, skyldi tekinn af lífi, hvort heldur hann var stór eða lítill, karl eða kona. 14 Þetta sóru þeir Drottni hárri röddu og með fagnaðarópi og blæstri í lúðra og hafurshorn. 15 Allir Júdamenn glöddust vegna þessa eiðs af því að þeir höfðu svarið af öllu hjarta. Þeir leituðu Drottins heils hugar og hann lét þá finna sig. Drottinn veitti þeim frið allt um kring.
16 Asa svipti jafnvel Maöku, móður sína, tign sinni sem konungsmóður af því að hún hafði látið gera viðurstyggilega mynd af Aséru. Asa hjó mynd hennar í sundur, muldi hana niður og brenndi í Kedrondal. 17 Að vísu hurfu fórnarhæðirnar ekki úr Ísrael en samt var Asa heils hugar í afstöðu sinni alla ævi. 18 Hann flutti einnig helgigjafir föður síns og eigin helgigjafir í hús Guðs, bæði silfur og gull og ýmis áhöld.
19 Ekkert stríð varð allt til þrítugasta og fimmta stjórnarárs Asa.