Musterið reist
1 Á fjögur hundruð og áttugasta ári eftir brottför Ísraelsmanna frá Egyptalandi, á fjórða árinu sem Salómon konungur ríkti yfir Ísrael, í mánuðinum sív, það er að segja í öðrum mánuðinum, hóf hann að reisa Drottni hús.
2 Húsið, sem Salómon konungur reisti Drottni, var sextíu álnir á lengd, tuttugu álnir á breidd og þrjátíu álnir á hæð. 3 Forsalurinn fyrir framan musterissalinn var jafn húsinu að breidd, það er tuttugu álnir, en tíu álna langur. 4 Hann setti glugga á húsið og fyrir þá þétta rimla í römmum. 5 Hann reisti viðbyggingu með herbergjum með fram veggjum hússins, allt umhverfis bæði musterissalinn og innsta hluta hússins. 6 Neðsta hæð viðbyggingarinnar var fimm álnir á breidd, miðhæðin sex álnir á breidd og þriðja hæðin sjö. Hann hafði reist ytri vegg hússins í stöllum, til þess að skaða hann ekki með viðbyggingunni.
7 Þegar húsið var reist var það byggt úr steinum sem höfðu verið höggnir til í grjótnáminu. Þess vegna heyrðist hvorki hávaði frá hömrum, meitlum né öðrum járnverkfærum meðan á byggingunni stóð.
8 Dyrnar að neðstu hæð viðbyggingarinnar voru á suðurhlið hússins. Var gengið um hringstiga upp á miðhæðina og þaðan upp á þriðju hæðina.
9 Þegar hann hafði lokið við að reisa húsið setti hann á það þak úr sedrusviði. 10 Hann reisti fimm álna háa viðbyggingu umhverfis allt húsið og þiljaði það með sedrusviði.
11 Orð Drottins kom til Salómons:
12 „Þetta skaltu vita um húsið sem þú ert að reisa: Ef þú breytir eftir boðum mínum, ferð að lögum mínum, hlýðir öllum skipunum mínum og lifir samkvæmt þeim mun ég efna við þig heitið sem ég vann Davíð, föður þínum, 13 og búa meðal Ísraelsmanna. Ég mun þá ekki yfirgefa þjóð mína, Ísrael.“
14 Salómon reisti húsið og lauk við það. 15 Hann þiljaði veggi hússins að innan með sedrusborðum, þiljaði það viði frá gólfi og upp að þakbjálkum, og lagði gólfið kýprusborðum. 16 Tuttugu álnum innan við bakvegg hússins reisti hann vegg úr sedrusborðum sem náði frá gólfi upp að þakbjálkum. Innan við hann var innsta herbergið, það er hið allra helgasta. 17 Musterissalurinn fyrir framan það var fjörutíu álnir á lengd. 18 Sedrusþilin inni í húsinu voru útskorin með blómhnöppum og útsprungnum blómum. Allt var úr sedrusviði og sá hvergi í stein. 19 Innst í húsinu gerði hann herbergi til þess að koma þar fyrir sáttmálsörk Drottins. 20 Það var tuttugu álna langt, tuttugu álna breitt og tuttugu álna hátt. Hann þakti það skíru gulli og gerði altari úr sedrusviði. 21 Salómon klæddi húsið að innan með skíru gulli og setti gullfestar fyrir framan innsta herbergið sem hann hafði þakið gulli. 22 Hann lagði allt húsið gulli í hólf og gólf og altarið í innsta herberginu þakti hann gulli.
23 Í innsta herberginu gerði hann tvo kerúba úr olíuviði. Var hvor um sig tíu álnir á hæð. 24 Vængir annars kerúbsins voru fimm álnir og vænghafið því tíu álnir. 25 Hinn kerúbinn var einnig tíu álnir. Báðir kerúbarnir voru jafnstórir og litu eins út. 26 Annar kerúbinn var tíu álnir á hæð og hinn var jafnhár. 27 Hann kom kerúbunum þannig fyrir í miðju herberginu að þeir þöndu út vængi sína. Vængur annars snerti annan vegginn en vængur hins snerti hinn vegginn. Vængirnir, sem sneru að miðju herberginu, snertu hvor annan. 28 Kerúbana lagði hann gulli.
29 Veggi hússins skreytti hann með útskurði allt umhverfis, kerúbum, pálmum og útsprungnum blómum, bæði innra herbergið og það ytra. 30 Gólf hússins lagði hann gulli, bæði í innra herberginu og hinu ytra.
31 Fyrir innsta herbergið gerði hann vængjahurð úr olíuviði. Umgjörð dyranna myndaði fimmhyrning. 32 Á báða hurðarvængina, sem voru úr kýprusviði, skar hann út kerúba, pálma og útsprungin blóm og lagði gulli. Hann lét gullið ná yfir kerúbana og pálmana. 33 Á sama hátt gerði hann dyrastafi úr olíuviði við dyr musterissalarins og mynduðu þeir ferning. 34 Báðir hurðarvængirnir voru úr kýprusviði og var hvor þeirra úr tveimur hlutum sem léku á hjörum. 35 Hann skar á þá kerúba, pálma og útsprungin blóm og þakti útskurðinn jafnt með gulli.
36 Hann gerði vegginn umhverfis innri forgarðinn úr þremur lögum af höggnu grjóti og einu af sedrusbjálkum.
37 Á fjórða árinu, í sívmánuði, hafði grunnurinn að húsi Drottins verið lagður 38 og á ellefta árinu, í mánuðinum búl, það er í áttunda mánuðinum, var húsið fullgert að öllu leyti í samræmi við það sem ákveðið hafði verið. Hann reisti það á sjö árum.