Dauði Ísbósets
1 Þegar sonur Sáls frétti að Abner væri látinn í Hebron féllust honum hendur og allur Ísrael varð skelfingu lostinn.
2 Sonur Sáls hafði tvo menn í þjónustu sinni og voru þeir foringjar ránsflokka. Hét annar Baana en hinn Rekab. Þeir voru synir Rimmóns frá Beerót af ættbálki Benjamíns, því að Beerót var einnig talið til Benjamíns 3 vegna þess að íbúarnir í Beerót höfðu flúið til Gittaím. Allt til þessa dags hafa þeir búið þar aðkomumenn.
4 Jónatan, sonur Sáls, átti son sem var lamaður á báðum fótum. Hann var fimm ára þegar fréttin um fall Sáls og Jónatans barst frá Jesreel. Fóstra hans tók hann og flýði en í óðagotinu á flóttanum missti hún hann og við það lamaðist hann. Hann hét Mefíbóset.
5 Einhverju sinni héldu þeir Rekab og Baana, synir Rimmóns frá Beerót, að heiman og komu til húss Ísbósets þegar heitast var dags og hann lá fyrir um hádegið. 6 Konan sem gætti dyranna hafði verið að hreinsa hveiti. Henni hafði runnið í brjóst og var hún sofandi. 7 Rekab og Baana, bróðir hans, gátu því laumast inn í húsið. Ísbóset lá í rúmi sínu í svefnherberginu. Þeir veittu honum banasár, hjuggu af honum höfuðið og tóku það með sér. Síðan gengu þeir eftir Jórdanardalnum alla nóttina, 8 færðu Davíð höfuðið í Hebron og sögðu við konung: „Hér færðu höfuð Ísbósets fjandmanns þíns, sonar Sáls, sem sóttist eftir lífi þínu. Drottinn hefur í dag veitt herra mínum, konunginum, hefnd á Sál og afkomendum hans.“
9 Davíð svaraði Rekab og Baana, bróður hans, sonum Rimmóns frá Beerót, og sagði við þá: „Svo sannarlega sem Drottinn lifir, sá sem hefur bjargað mér úr hverri neyð, 10 þá lét ég grípa þann mann og vega í Siklag sem færði mér fregnina um að Sál væri fallinn og hélt að hann færði mér gleðitíðindi. Það voru honum hæfileg sögulaun. 11 Hversu miklu frekar ætti ég þá ekki nú, þegar lögbrjótar hafa myrt réttlátan mann á heimili hans í eigin rúmi, að krefjast blóðs hans af ykkur og afmá ykkur af jörðinni?“ 12 Davíð gaf mönnum sínum því næst skipun um að vega þá og þeir hjuggu af þeim hendur og fætur og festu upp við tjörnina í Hebron. En höfuð Ísbósets tóku þeir og lögðu í gröf Abners í Hebron.