Sál smurður til konungs
1 Því næst tók Samúel olíukrús sína og hellti yfir höfuð hans, kyssti hann og sagði: „Drottinn smyr þig nú til höfðingja yfir arfleifð sína. 2 Eftir að þú ert farinn frá mér muntu mæta tveimur mönnum við gröf Rakelar í Selsa í landi Benjamíns. Þeir munu segja við þig: Ösnurnar, sem þú fórst að leita að, eru fundnar og faðir þinn því hættur að hugsa um þær en hann hefur áhyggjur af ykkur og spyr: Hvernig get ég fundið son minn? 3 Þegar þú heldur áfram þaðan og kemur að Taboreikinni muntu mæta þremur mönnum sem eru á leið til Betel að þjóna Guði. Einn þeirra ber þrjá kiðlinga, annar þrjú brauð og sá þriðji vínbelg. 4 Þeir heilsa þér og gefa þér tvö brauð sem þú skalt þiggja. 5 Því næst kemurðu til Gíbeu Guðs þar sem landstjóri Filistea býr. Þegar þú kemur inn í borgina muntu mæta hópi spámanna sem eru að koma niður af fórnarhæðinni. Fyrir þeim fara hljóðfæraleikarar sem leika á hörpu, trumbu, flautu og sítar en spámennirnir eru í guðmóði. 6 Þá mun andi Guðs koma skyndilega yfir þig svo að þú munt komast í spámannlegan guðmóð ásamt þeim og verða allur annar maður. 7 Þegar þú verður var við þessi tákn skaltu gera það sem þér kemur fyrst í hug því að Guð er með þér. 8 Síðan skaltu fara á undan mér til Gilgal. Ég kem þangað á eftir þér til að færa brennifórn og slátra heillafórninni. Þú skalt bíða í sjö daga þar til ég kem til þín. Þá skal ég segja þér hvað þú átt að gera.“
9 Þegar Sál sneri við og yfirgaf Samúel breytti Guð hugarfari hans. Öll þessi tákn komu fram þennan dag.
10 Þegar Sál og vinnumaður hans komu til Gíbeu kom hópur spámanna skyndilega á móti honum. Andi Guðs hreif hann og á hann rann spámannlegur guðmóður mitt á meðal þeirra. 11 Þegar þeir sem þekktu hann sáu að hann var í guðmóði í spámannahópnum undruðust þeir og sögðu: „Hvað hefur komið fyrir son Kíss? Er Sál einnig meðal spámannanna?“ 12 Og maður nokkur þaðan úr borginni spurði: „Hver er faðir þeirra?“ Þannig varð máltækið til: „Er Sál einnig meðal spámannanna?“ 13 Þegar guðmóðurinn rann af honum fór hann heim til sín.
14 Föðurbróðir Sáls spurði hann og vinnumann hans hvar þeir hefðu verið og Sál svaraði: „Við fórum að leita að ösnunum. En þegar við fundum þær hvergi fórum við til Samúels.“ 15 Þá sagði föðurbróðir Sáls: „Segðu mér hvað Samúel sagði við ykkur.“ 16 Sál svaraði föðurbróður sínum: „Hann sagði okkur að ösnurnar væru fundnar.“ En hann sagði honum ekki frá því sem Samúel hafði sagt um konungdæmið.
Konungskjörið í Mispa
17 Samúel stefndi þjóðinni saman til Drottins í Mispa 18 og sagði við Ísraelsmenn: „Svo segir Drottinn, Guð Ísraels: Það er ég sem leiddi Ísrael frá Egyptalandi. Ég frelsaði ykkur úr höndum Egypta og allra þeirra konungsríkja sem hafa kúgað ykkur. 19 En í dag hafið þið hafnað Guði ykkar, honum sem hefur frelsað ykkur frá sérhverju böli og úr öllum þrengingum ykkar. Nú segið þið við hann: Þú skalt setja konung yfir okkur. Gangið nú fram fyrir auglit Drottins eftir ættbálkum ykkar og ættum.“
20 Síðan lét Samúel alla ættbálka Ísraels ganga fram og kom þá upp hlutur ættbálks Benjamíns. 21 Því næst lét hann ættbálk Benjamíns ganga fram, ætt fyrir ætt, og kom þá upp hlutur Matrís ættar og loks Sáls Kíssonar. Hans var þá leitað en hann fannst ekki. 22 Þá spurðu þeir Drottin aftur: „Er maðurinn hér?“ Drottinn svaraði: „Já, en hann hefur falið sig hjá farangrinum.“ 23 Þá hlupu þeir til og sóttu Sál og þegar hann stóð mitt á meðal fólksins reyndist hann vera höfðinu hærri en allir aðrir. 24 Samúel sagði þá við fólkið: „Sjáið þann sem Drottinn hefur valið sér. Hann á sér engan líka meðal þjóðarinnar.“ Allt fólkið hyllti hann og hrópaði: „Lifi konungurinn!“
25 Síðan kunngjörði Samúel konungslögin og skráði þau í bók sem hann lagði fram fyrir auglit Drottins. Því næst lét Samúel fólkið fara til síns heima. 26 Sál fór einnig heim til Gíbeu og fylgdu honum nokkrir kappar. Guð hafði snortið hjarta þeirra. 27 En nokkrir ónytjungar sögðu: „Hvað ætli hann geti hjálpað okkur?“ Og þeir sýndu honum fyrirlitningu með því að færa honum ekki gjafir en hann lét sem ekkert væri.