Lögbókin
1 Þetta eru þau lög og ákvæði sem þið skuluð fylgja af kostgæfni svo lengi sem þið lifið í landinu sem Drottinn, Guð forfeðra þinna, hefur fengið þér. Þið skuluð fylgja þeim svo lengi sem þið lifið í landinu.
Guðsdýrkun á einum stað
2 Þið skuluð gereyða öllum helgistöðunum þar sem þjóðirnar, sem þið eigið að ryðja úr vegi, þjónuðu guðum sínum á háum fjöllum, hólum og undir hverju grænu tré. 3 Þið skuluð rífa niður ölturu þeirra, brjóta merkisteina þeirra, brenna Asérustólpa þeirra í eldi og höggva skurðgoð þeirra niður og afmá nafn þeirra af staðnum.
4 Þið skuluð ekki dýrka Drottin, Guð ykkar, á sama hátt og þessar þjóðir 5 heldur skuluð þið leita til þess staðar sem Drottinn, Guð ykkar, mun velja úr öllum löndum ættbálka ykkar með því að setja nafn sitt á hann svo að það búi þar. Þangað skalt þú fara 6 og þangað skuluð þið færa brennifórnir ykkar og sláturfórnir, tíundir og afgjöld, heitfórnir og sjálfviljafórnir og frumburði nautgripa ykkar og fénaðar. 7 Þar skuluð þið halda fórnarmáltíð frammi fyrir Drottni, Guði ykkar, og gleðjast ásamt fjölskyldum ykkar yfir öllu sem þið hafið aflað með höndum ykkar og Drottinn, Guð þinn, hefur blessað þig með.
8 Þið skuluð ekki hegða ykkur þá eins og við gerum hér í dag þegar hver gerir það sem honum gott þykir 9 því að þið eruð ekki enn komin á hvíldarstaðinn og inn í erfðalandið sem Drottinn, Guð þinn, gefur þér.
10 Þegar þið eruð komin yfir Jórdan og eruð sest að í landinu sem Drottinn, Guð ykkar, skiptir á milli ykkar í erfðalönd veitir hann ykkur frið fyrir öllum fjandmönnum ykkar umhverfis. Þegar þið búið þar óhult 11 skuluð þið koma með allt sem ég býð ykkur á staðinn sem Drottinn, Guð ykkar, velur sér til að láta nafn sitt búa á, brennifórnir og sláturfórnir, tíundir og afgjöld og allar dýrmætu gjafirnar sem þið heitið Drottni. 12 Þá skuluð þið gleðjast frammi fyrir Drottni, Guði ykkar, þið sjálf, synir ykkar og dætur, þrælar ykkar og ambáttir og Levítarnir sem búa í borgum ykkar því að þeir hafa hvorki fengið jarðnæði né erfðaland eins og þið. 13 En gæt þess vel að færa ekki brennifórnir þínar á hvaða stað sem þér sýnist 14 heldur á staðnum sem Drottinn velur í landi eins af ættbálkum þínum. Þar skaltu færa brennifórnir þínar og gera allt sem ég býð þér.
15 Hins vegar máttu slátra og neyta kjöts eins oft og þig lystir, í hvaða borg þinni sem vera skal í þeim mæli sem blessun Drottins, Guðs þíns, veitir þér. Jafnt óhreinir menn sem hreinir mega eta það eins og skógargeita- og hjartakjöt. 16 En blóðsins megið þið ekki neyta heldur eigið þið að hella því á jörðina eins og vatni.
17 Þú skalt ekki neyta tíundar af korni þínu, víni eða olíu í borgum þínum né heldur frumburða nautgripa þinna og sauðfjár og ekki neinna þeirra gjafa, sem þú hefur heitið að færa Drottni, eða sjálfviljagjafa og afgjalda. 18 Þessa skalt þú neyta frammi fyrir Drottni, Guði þínum, á staðnum sem Drottinn, Guð þinn, velur sér. Þú skalt neyta þess með sonum þínum og dætrum, þrælum þínum og ambáttum og Levítunum sem búa í borg þinni. Þá skaltu gleðjast frammi fyrir Drottni, Guði þínum, yfir öllu sem þú hefur aflað. 19 En gæt þess vel að setja Levítana aldrei hjá svo lengi sem þú lifir í landi þínu.
20 Þegar Drottinn, Guð þinn, stækkar land þitt eins og hann hefur heitið þér og þú segir: „Ég ætla að fá mér kjöt,“ af því að þig langar í kjöt, þá máttu eta eins mikið kjöt og þig lystir. 21 Ef staðurinn, sem Drottinn, Guð þinn, velur með því að setja nafn sitt á hann, er mjög fjarri þér skaltu slátra nautpeningi og sauðfé sem Drottinn hefur gefið þér eins og ég hef boðið og eta eins mikið og þig lystir í heimaborg þinni. 22 Þú mátt neyta þess eins og þegar skógargeitar eða hjartar er neytt, það mega bæði óhreinir menn og hreinir eta saman. 23 En varastu að neyta nokkurs af blóðinu því að blóðið er lífið sjálft og þú mátt ekki neyta lífsins ásamt kjötinu. 24 Þú mátt ekki neyta þess heldur skaltu hella því á jörðina eins og vatni. 25 Þú mátt ekki neyta þess svo að þér og niðjum þínum vegni vel af því að þú gerir það sem er rétt í augum Drottins.
26 En hin heilögu afgjöld, sem þér ber að greiða, og áheit, sem þú hefur lofað Drottni, skaltu hafa með þér til þess staðar sem Drottinn velur. 27 Brennifórn þína, bæði kjötið og blóðið, skaltu færa á altari Drottins, Guðs þíns. Blóði sláturfórna þinna skal hellt á altari Drottins, Guðs þíns, en kjötið skalt þú eta.
28 Gæt þess að halda öll þessi boð, sem ég hef sett þér, svo að þér og niðjum þínum vegni ævinlega vel af því að þú gerir það sem gott er og rétt í augum Drottins, Guðs þíns.
Varað við kanverskri guðsdýrkun
29 Þegar Drottinn, Guð þinn, hefur rutt þjóðunum úr vegi í landinu, sem þú ferð inn í til að vinna, og þú ert sestur að, 30 gæt þín þá. Ánetjast ekki háttum þeirra eftir að þeim hefur verið rutt úr vegi þínum og þú skalt ekki spyrja um guði þeirra og segja: „Hvernig þjónuðu þessar þjóðir guðum sínum? Ég ætla að fara að eins og þær.“ 31 Þannig skaltu ekki breyta við Drottin, Guð þinn, því að þegar þessar þjóðir þjónuðu guðum sínum gerðu þær allt sem Drottni, Guði þínum, er viðurstyggð og hann hatar. Jafnvel syni sína og dætur brenndu þær í eldi fyrir guði sína.