Andóf Kóra, Datans og Abírams
1 Kóra Jíseharsson, Kahatssonar Levísonar, ásamt Datan og Abíram, sonum Elíabs Pallúsonar, sem voru niðjar Rúbens, 2 gengu fyrir Móse. Með þeim voru tvö hundruð og fimmtíu Ísraelsmenn, þeir voru höfðingjar safnaðarins, mikils metnir og þekktir menn. 3 Þeir söfnuðust saman gegn Móse og Aroni og sögðu við þá: „Þið ætlið ykkur um of því að allur söfnuðurinn er heilagur og Drottinn er mitt á meðal hans. Hvers vegna hefjið þið sjálfa ykkur yfir söfnuð Drottins?“
4 Þegar Móse heyrði þetta féll hann fram á ásjónu sína 5 og sagði við Kóra og allan söfnuð hans: „Í fyrramálið mun Drottinn kunngjöra hver hans er, hver sé heilagur og hver megi nálgast hann. Hann mun leyfa þeim sem hann velur að nálgast sig. 6 Gerið þetta: Á morgun skuluð þið taka eldpönnur, Kóra og allur söfnuður hans, 7 setja í þær eld og leggja á reykelsi frammi fyrir augliti Drottins. Sá sem Drottinn velur er heilagur. Þið ætlið ykkur um of, Levítar.“
8 Móse sagði við Kóra: „Hlýðið á, Levítar. 9 Nægir það ykkur ekki að Guð Ísraels greindi ykkur frá söfnuði Ísraels til að láta ykkur nálgast sig þar sem þið gegnið þjónustu í bústað Drottins og standið frammi fyrir söfnuðinum til að þjóna honum? 10 Hann hefur leyft þér og öllum bræðrum þínum, Levítunum, að nálgast sig og nú ásælist þið prestsembættið. 11 Þess vegna hefur þú og allur söfnuður þinn gert samsæri gegn Drottni. Hver er Aron? Hvað eruð þið að mögla gegn honum?“
12 Síðan sendi Móse eftir Datan og Abíram Elíabssonum en þeir sögðu: „Við komum ekki. 13 Nægir það ekki að þú hafir leitt okkur frá landi, sem flýtur í mjólk og hunangi, til þess að deyða okkur í eyðimörkinni? Ætlarðu líka að látast vera konungur yfir okkur? 14 Þú hefur svo sannarlega ekki leitt okkur inn í land sem flýtur í mjólk og hunangi og hvorki gefið okkur akra né víngarða. Heldurðu að þér hafi tekist að blinda augu þessara manna? Við förum hvergi.“
15 Þá reiddist Móse mjög og sagði við Drottin: „Líttu ekki við fórnum þeirra. Ég hef ekki tekið svo mikið sem einn asna frá þeim né gert nokkrum þeirra mein.“ 16 Því næst sagði Móse við Kóra: „Á morgun skalt þú og allur söfnuður þinn koma fyrir auglit Drottins ásamt Aroni. 17 Hver og einn skal taka sína eldpönnu og leggja á hana reykelsi. Síðan skuluð þið bera þær fram fyrir auglit Drottins, hver sína eldpönnu. Það verða alls tvö hundruð og fimmtíu eldpönnur. Þið Aron skuluð einnig koma hvor með sína eldpönnu.“
18 Hver tók sína eldpönnu, lét eld í, lagði reykelsi ofan á og tók sér stöðu við inngang samfundatjaldsins ásamt Móse og Aroni. 19 En Kóra stefndi öllum söfnuðinum saman gegnt þeim. Þá birtist dýrð Drottins öllum söfnuðinum.
20 Drottinn talaði til Móse og Arons og sagði:
21 „Yfirgefið þennan söfnuð. Ég ætla að eyða honum á augabragði!“ 22 Þá féllu þeir fram á ásjónur sínar og sögðu: „Guð, Guð sem gæðir allt hold lífi. Ætlar þú að reiðast öllum söfnuðinum vegna þess að einn braut af sér?“
23 Þá sagði Drottinn við Móse:
24 „Ávarpaðu söfnuðinn og segðu: Yfirgefið svæðið umhverfis bústað Kóra, Datans og Abírams.“ 25 Móse reis þá á fætur og gekk til Datans og Abírams en öldungar Ísraels fylgdu honum. 26 Hann ávarpaði söfnuðinn og sagði: „Farið nú frá tjöldum þessara guðlausu manna og snertið ekkert af því sem þeir eiga svo að ykkur verði ekki tortímt vegna allra synda þeirra.“ 27 Þá fóru þeir burt frá svæðinu umhverfis bústað Kóra, Datans og Abírams. Datan og Abíram höfðu gengið út og stóðu við dyr tjalda sinna ásamt konum sínum og börnum, stórum og smáum. 28 Þá sagði Móse: „Af þessu má ykkur vera ljóst að Drottinn hefur sent mig til að vinna öll þessi verk en ég hef ekki unnið þau að eigin geðþótta. 29 Ef þetta fólk deyr á sama hátt og allir aðrir menn og fyrir því fer eins og öðrum mönnum, þá var það ekki Drottinn sem sendi mig. 30 En birti Drottinn sköpunarmátt sinn og jörðin opni gin sitt og gleypi þá og allt sem þeir eiga svo að þeir fari lifandi niður til heljar, þá munuð þið skilja að þessir menn hafa smánað Drottin.“
31 Um leið og hann lauk máli sínu klofnaði akurinn undir fótum þeirra 32 og jörðin opnaði gin sitt og gleypti þá, hús þeirra og alla þá sem heyrðu Kóra til ásamt öllum eigum þeirra. 33 Þeir og allt þeirra fólk fór lifandi niður til heljar. Þegar jörðin huldi þá hafði þeim verið tortímt úr söfnuðinum. 34 Allur Ísrael, sem var umhverfis þá, flýði burt við óp þeirra því að þeir hugsuðu: „Vonandi gleypir jörðin okkur ekki.“
35 Eldur hafði gengið út frá Drottni og gleypt þá tvö hundruð og fimmtíu menn sem höfðu fært fram reykelsi. [