1 Drottinn talaði við Móse og sagði:
2 „Segðu við Ísraelsmenn: Sérhver Ísraelsmaður eða aðkomumaður á meðal ykkar, sem gefur Mólok barn sitt, skal deyja. Fólkið, sem býr í landinu, skal grýta hann. 3 Ég mun snúa augliti mínu gegn þeim manni sem gerir slíkt og uppræta hann úr þjóð sinni: Fyrst hann hefur gefið Mólok barn sitt hefur helgidómur minn saurgast og mitt heilaga nafn vanhelgast. 4 Líti fólkið í landinu undan þegar einhver gefur eitthvert barna sinna Mólok og það tekur hann ekki af lífi 5 mun ég snúa augliti mínu gegn þessum manni og ætt hans. Ég mun uppræta hann úr þjóð sinni ásamt öllum sem hórast eins og hann með Mólok.
6 Ég beini augliti mínu gegn hverjum þeim manni sem snýr sér til miðla og þeirra sem flytja spámæli frá öndum og ég mun uppræta hann úr þjóð sinni.
7 Helgið ykkur og verið heilagir því að ég er Drottinn, Guð ykkar.
8 Haldið lög mín og farið að þeim. Ég er Drottinn sem helgar ykkur.
9 Sérhver, sem bölvar föður sínum og móður, skal líflátinn. Vegna þess að hann hefur bölvað föður sínum og móður skal blóðsök hans koma yfir hann.
10 Sá maður, sem fremur hór með eiginkonu náunga síns, skal líflátinn, bæði hórkarlinn og hórkonan. 11 Leggist maður með eiginkonu föður síns berar hann blygðun föður síns. Þau skulu bæði líflátin. Blóðsök þeirra skal koma yfir þau. 12 Leggist maður með tengdadóttur sinni skulu bæði líflátin: Þau hafa framið blóðskömm og blóðsök þeirra skal koma yfir þau. 13 Leggist karlmaður með karlmanni eins og þegar lagst er með konu fremja þeir báðir viðurstyggilegt athæfi. Þeir skulu báðir líflátnir. Blóðsök þeirra skal koma yfir þá. 14 Taki maður konu og móður hennar sér fyrir eiginkonur er það blóðskömm. Hann skal brenndur í eldi ásamt konunum: Blóðskömm skal ekki eiga sér stað á meðal ykkar. 15 Hafi karlmaður samræði við skepnu skal hann tekinn af lífi. Þið skuluð einnig farga skepnunni. 16 Nálgist kona skepnu til þess að eiga við hana samræði skaltu lífláta konuna og skepnuna. Þau skulu líflátin. Blóðsök þeirra skal koma yfir þau.
17 Taki einhver maður systur sína, hvort sem hún er dóttir föður hans eða móður, og sér blygðun hennar og hún sér blygðun hans, er það hneisa. Þau skulu upprætt í augsýn landa sinna. Vegna þess að hann hefur berað blygðun systur sinnar skal hann taka á sig sekt sína. 18 Leggist maður með konu með tíðir og berar blygðun hennar hefur hann berað uppsprettu hennar og hún hefur sjálf berað uppsprettu blóðs síns. Þau skulu bæði upprætt úr þjóð sinni. 19 Þú skalt ekki bera blygðun móðursystur þinnar eða föðursystur því að hver sem það gerir hefur berað eigið hold. Hann skal taka á sig sekt sína. 20 Liggi maður með eiginkonu föðurbróður síns berar hann blygðun hans. Þau skulu taka á sig synd sína og deyja barnlaus. 21 Taki maður konu bróður síns er það saurgun: Hann hefur berað blygðun bróður síns. Þau skulu verða barnlaus.
22 Þið skuluð halda lög mín og reglur og fara eftir þeim svo að landið, sem ég leiði ykkur inn í til þess að setjast þar að, spýi ykkur ekki. 23 Þið skuluð ekki fylgja siðum þjóðanna sem ég hrek í burtu fyrir augum ykkar. Þær frömdu þetta allt svo að mér bauð við þeim. 24 Þess vegna sagði ég við ykkur: Þið skuluð taka land þeirra til eignar. Ég mun sjálfur fá ykkur það svo að þið getið tekið það til eignar, þetta land sem flýtur í mjólk og hunangi.
25 Þið skuluð því gera greinarmun á hreinum dýrum og óhreinum og óhreinum fuglum og hreinum. Þið skuluð ekki gera ykkur sjálfa viðurstyggilega með því að snerta eitthvert þessara dýra, fugla eða kvikinda sem skríða á jörðinni og ég hef ykkar vegna aðgreint sem óhrein.
26 Verið mér heilagir því að ég, Drottinn, er heilagur. Ég hef aðgreint ykkur frá þjóðunum til þess að þið séuð mín eign.
27 Þegar andi einhvers dauðs manns eða spásagnarandi er í einhverjum, hvort heldur það er karl eða kona, skulu þau tekin af lífi. Þau skulu grýtt; blóðsök þeirra skal koma yfir þau.
Þriðja Mósebók 20. kafliHið íslenska biblíufélag2024-05-06T22:30:21+00:00
Þriðja Mósebók 20. kafli
Hægt er að nálgast texta þessa kafla í öðrum íslenskum þýðingum með því að smella á nafn þýðingarinnar hér fyrir neðan. Þýðingin opnast í nýjum glugga.