Sáttmálsörkin
1 Besalel gerði örk úr akasíuviði. Hún var hálf þriðja alin á lengd, hálf önnur á breidd og hálf önnur á hæð. 2 Hann lagði hana skíru gulli bæði að innan og utan og hann gerði brún úr gulli umhverfis hana. 3 Hann steypti fjóra hringi úr gulli og festi á fjóra fætur hennar, tvo hringi á aðra hlið hennar og tvo á hina. 4 Hann gerði stengur úr akasíuviði, lagði þær gulli 5 og smeygði stöngunum í hringina á hliðum arkarinnar svo að hægt væri að bera örkina.
6 Hann gerði lok úr skíru gulli. Það var hálf þriðja alin á lengd og hálf önnur á breidd. 7 Hann gerði tvo kerúba úr drifnu gulli, einn fyrir hvorn enda loksins. 8 Annar kerúbinn var á öðrum endanum og hinn á hinum. 9 Kerúbarnir breiddu út vængina upp á við svo að þeir huldu lokið með vængjum sínum og sneru hvor að öðrum. Ásjónur kerúbanna sneru að lokinu.
Borðið
10 Hann gerði borð úr akasíuviði, tvær álnir á lengd, eina alin á breidd og hálfa aðra á hæð. 11 Hann lagði það skíru gulli og gerði gullkant umhverfis það. 12 Hann setti þverhandarbreiðan lista á allar hliðar þess og brún úr gulli á listann. 13 Hann steypti fjóra hringi úr gulli og kom þeim fyrir á fjórum hornum borðsins þar sem fjórir fætur þess eru. 14 Hringirnir voru þétt við listann svo að hægt væri að smeygja í þá stöngunum til að bera borðið. 15 Hann gerði stengur úr akasíuviði til að bera borðið og lagði þær gulli. 16 Hann gerði áhöldin, sem áttu að standa á borðinu, ker, krukkur, könnur og skálar fyrir dreypifórnir, úr skíru gulli.
Ljósastikan
17 Hann gerði ljósastikuna úr skíru gulli. Hann gerði ljósastikuna með drifnu smíði, bæði stétt hennar og fót. Blómbikarar hennar, knappar og blóm, voru samföst henni. 18 Sex armar gengu út frá hliðum hennar, þrír armar frá annarri hlið ljósastikunnar og þrír frá hinni hlið hennar. 19 Þrír bikarar í lögun eins og möndlublóm, hver með knappi og blómi, voru á fyrsta arminum, á næsta armi þrír bikarar í lögun eins og möndlublóm með knappi og blómi og eins var á öllum sex örmunum sem gengu út frá ljósastikunni. 20 Á sjálfri ljósastikunni voru fjórir bikarar í lögun eins og möndlublóm með knöppum og blómum. 21 Einn knappur var undir tveimur neðstu örmum hennar, samfastur ljósastikunni, einn knappur undir næstu tveimur örmum, samfastur ljósastikunni, og einn knappur undir tveimur efstu örmunum, samfastur ljósastikunni. Þeir voru undir sex örmum ljósastikunnar og gengu út frá henni. 22 Knappar hennar og armar voru samfastir fætinum, allt drifin smíð úr skíru gulli. 23 Hann gerði sjö lampa úr skíru gulli fyrir ljósastikuna, einnig ljósasöx og skarpönnur úr skíru gulli. 24 Hann gerði hana og öll áhöld, sem heyrðu henni til, úr einni talentu skíragulls.
Reykelsisaltarið og smurningarolían
25 Hann gerði reykelsisaltarið úr akasíuviði. Það var álnarlangt og álnarbreitt, ferhyrnt og tveggja álna hátt. Horn þess voru áföst við það. 26 Hann lagði það skíru gulli, bæði að ofan og á hliðum, og horn þess. Hann gerði brún úr gulli umhverfis það. 27 Hann gerði tvo hringi úr gulli og kom þeim fyrir undir brúninni á báðum hliðum þess til að smeygja í stöngum til að bera það. 28 Hann gerði stengurnar úr akasíuviði og lagði þær gulli.
29 Hann gerði hina heilögu smurningarolíu og hið hreina ilmandi reykelsi að hætti smyrslagerðarmanna.