Jósef ræður drauma í fangelsinu
1 Nokkru síðar brutu byrlari Egyptalandskonungs og bakarinn gegn herra sínum, konunginum. 2 Faraó reiddist báðum hirðmönnum sínum, yfirbyrlaranum og yfirbakaranum, 3 og lét hneppa þá í varðhald í húsi lífvarðarforingjans, í fangelsið þar sem Jósef var í haldi. 4 Lífvarðarforinginn fól Jósef að þjóna þeim.
Er þeir höfðu verið um hríð í varðhaldi 5 dreymdi þá báða draum, byrlara og bakara Egyptalandskonungs, sem sátu í fangelsinu, sinn drauminn hvorn sömu nóttina, og hafði hvor draumurinn sína merkingu. 6 Þegar Jósef kom inn til þeirra um morguninn sá hann að þeir voru daufir í dálkinn. 7 „Hvers vegna eruð þið svo daprir í bragði í dag?“ spurði hann þá hirðmenn faraós sem sátu með honum í varðhaldi í húsi húsbónda hans. 8 Þeir svöruðu: „Okkur hefur dreymt draum og hér er enginn sem getur ráðið hann.“ Þá sagði Jósef: „Er það ekki Guðs að ráða drauma? Segið mér þó drauminn.“
9 Þá sagði yfirbyrlarinn Jósef draum sinn: „Mig dreymdi vínvið fyrir framan mig,“ sagði hann. 10 „Á vínviðinum voru þrjár greinar og jafnskjótt sem hann skaut frjóöngum spruttu blóm hans út og klasar hans urðu þroskuð vínber. 11 Ég hélt á bikar faraós í hendinni, tók vínberin og kreisti safann úr þeim í bikarinn og rétti faraó síðan bikarinn.“
12 Þá sagði Jósef við hann: „Ráðning draumsins er þessi: Vínviðargreinarnar þrjár merkja þrjá daga. 13 Að þrem dögum liðnum mun faraó hefja höfuð þitt og veita þér aftur fyrra embætti þitt. Þá munt þú aftur bera faraó bikarinn eins og þú varst vanur að gera þegar þú varst byrlari hans. 14 En minnstu mín þegar hagur þinn vænkast. Sýndu mér þann vináttuvott að nefna mig við faraó og hjálpa mér þannig úr þessu húsi. 15 Mér var rænt úr landi Hebrea og hér hef ég ekki heldur neitt það til saka unnið að ég yrði settur í þessa dýflissu.“
16 Þegar yfirbakarinn heyrði hversu góð ráðning hans var sagði hann við Jósef: „Mig dreymdi líka að ég bæri á höfðinu þrjár körfur með hveitibrauði. 17 Í efstu körfunni var alls konar brauð handa faraó en fuglarnir átu það úr körfunni á höfði mér.“ 18 Þá sagði Jósef: „Ráðning draumsins er þessi: Körfurnar þrjár merkja þrjá daga. 19 Að þrem dögum liðnum mun faraó hefja höfuð þitt af þér, [ festa þig á gálga og fuglarnir munu éta hold þitt.“
20 Á þriðja degi, á afmælisdegi sínum, hélt faraó öllum þjónum sínum veislu. Þá leysti hann yfirbyrlarann og yfirbakarann úr haldi [ í viðurvist þjóna sinna. 21 Hann veitti yfirbyrlaranum fyrra embætti hans þannig að hann fékk aftur að bera faraó bikarinn 22 en yfirbakarann lét hann hengja eins og Jósef hafði ráðið drauminn fyrir þá. 23 En yfirbyrlarinn mundi ekki eftir Jósef heldur gleymdi honum.