Áheit, helgigjafir og afgjöld
1 Drottinn talaði við Móse og sagði:
2 „Ávarpaðu Ísraelsmenn og segðu: Hyggist einhver efna heit sitt við Drottin um að gefa honum ígildi manns skal miða við þetta mat: 3 Sé það karlmaður, tuttugu til sextíu ára að aldri, skal mat þitt vera fimmtíu siklar silfurs samkvæmt sikli helgidómsins 4 en sé það kona skal mat þitt vera þrjátíu siklar. 5 Sé það ungmenni, fimm ára til tvítugs, skal mat þitt vera tuttugu siklar silfurs fyrir pilt en tíu siklar fyrir stúlku. 6 Sé það barn, eins mánaðar til fimm ára, skal mat þitt vera fimm siklar silfurs fyrir dreng en þrír fyrir stúlku. 7 Sé það öldungur, sextíu ára eða eldri, skal mat þitt vera fimmtán siklar silfurs fyrir karl en tíu fyrir konu.
8 En ef sá sem vann heitið er í kröggum og getur ekki greitt matsverðið skal hann leiða fyrir prest þann sem heitið var. Skal presturinn ákveða matsverðið eftir efnum þess sem heitið vann.
9 Ef heitið er skepnu sem færa má Drottni að fórn verður hver sú skepna, sem gefin er Drottni, heilög. 10 Ekki má skipta á því sem gefið var og öðru. Hvorki má skipta á rýru dýri og vænu né vænu og rýru. Nú eru skipti höfð á skepnum og skulu þá vera heilagar bæði sú er látin er í skiptum og sú sem kemur í staðinn.
11 Sé heitið óhreinu dýri, sem ekki má færa Drottni að fórn, skal leiða dýrið fyrir prest. 12 Presturinn skal þá meta það eftir því hvort það er vænt eða rýrt. Skal mat hans gilda. 13 Ef sá sem gefur gjöfina vill sjálfur leysa dýrið skal hann bæta fimmta hluta matsverðsins við það.
14 Þegar einhver helgar hús sitt Drottni skal prestur meta það eftir því hvort það er gott eða lélegt. Skal mat prestsins gilda. 15 Ef sá sem helgar hús sitt vill sjálfur leysa hús sitt skal hann bæta fimmta hluta matsverðsins við það.
16 Ætli einhver að helga Drottni hluta af eignarlandi sínu skal matsverðið fara eftir því hversu miklu er hægt að sá í það. Einn kómer af byggi samsvarar fimmtíu siklum silfurs. 17 Helgi hann jörð sína á fagnaðarárinu skal matsverðið vera óbreytt. 18 Helgi hann jörð sína eftir fagnaðarárið skal prestur reikna út verðið miðað við fjölda þeirra ára sem eftir eru til næsta fagnaðarárs og draga það frá matsverðinu. 19 Vilji sá sem helgar jörð sína leysa hana sjálfur skal bæta fimmta hluta matsverðsins við verðið og hún verður eign hans. 20 Leysi hann jörðina ekki heldur selur hana öðrum má ekki innleysa hana. 21 Þegar hún verður leyst á næsta fagnaðarári verður jörðin helguð Drottni eins og bannfært land: Eignarjörð hans verður eign prestsins.
22 Helgi einhver Drottni land, sem hann hefur keypt og ekki er hluti eignarlands hans, 23 skal prestur reikna út fyrir hann matsverðið sem miðast við næsta fagnaðarár. Sama dag skal maðurinn greiða matsverðið. Það er helgigjöf til Drottins. 24 Á fagnaðarárinu skal jörðin aftur verða eign þess manns sem hann keypti hana af og átti jarðeignina áður. 25 Allt matsverð skal ákveðið eftir vog helgidómsins: Einn sikill skal vera tuttugu gerur.
26 Enginn má helga frumburði búfjár sem heyrir Drottni til því að þeir eru frumburðir. Hvort heldur um er að ræða frumburði nauta eða sauðfjár eru þeir eign Drottins. 27 En séu það frumburðir óhreinna dýra má kaupa þá lausa fyrir matsverð og skal þá bæta fimmtungi þess við. Ef þeir verða ekki leystir skal selja þá fyrir matsverðinu. 28 Ekkert, sem bannhelgi hvílir á, ekkert af eigum þess manns sem helgar þær Drottni með banni, hvorki mann, búfé né jarðeign, má selja eða leysa: Allt sem bann hvílir á er háheilagt. Það er eign Drottins. 29 Ekki má leysa mann, sem bann hvílir á, heldur skal hann tekinn af lífi.
30 Öll tíund af landinu, hvort sem það er tíund af korni landsins eða ávöxtum trjánna, er eign Drottins: hún er helguð Drottni. 31 Ef einhver maður vill leysa hluta af tíund sinni skal bæta fimmta hluta hennar við hana.
32 Öll tíund af stórgripum og sauðfé skal helguð Drottni, það er að segja tíunda hvert dýr sem gengur undir hirðisstafinn. 33 Ekki skal gera neinn mun á vænu dýri og rýru og ekki skipta á neinu. Sé það gert verður bæði það sem skipt er á og það sem sett er í þess stað heilagt: Það má ekki leysa.“
34 Þetta eru fyrirmælin sem Drottinn bauð Móse að flytja Ísraelsmönnum á Sínaífjalli.