Tækifæri til afturhvarfs
1 Þess vegna hirtir þú þá sem hrasa með hófsemi og vandar um við þá sem verður á með áminningum svo að þeir hverfi frá vonskunni og trúi á þig, Drottinn. 3 Þú hataðir hina fornu íbúa þíns heilaga lands 4 sakir viðurstyggilegra verka þeirra. Þeir iðkuðu forneskju og særingar, 5 miskunnarlaus barnamorð og neyttu mannakjöts, innyfla og blóðs í blótveislum. 6 Þessum foreldrum, sem myrtu hjálparlaus börn sín, ákvaðst þú að tortíma með hendi feðra vorra 7 til þess að landið, sem er þér dýrmætast alls, byggðist maklegum landnemum, börnum Guðs. 8 En þú þyrmdir jafnvel þessum af því að þeir voru menn. Þú sendir geitunga á undan her þínum svo að þeir eyddu þeim smám saman.
9 Þér hefði ekki verið örðugt að láta hina guðlausu falla fyrir vopnum réttlátra eða láta skelfileg villidýr tortíma þeim í einni svipan eða eyða þeim með vægðarlausu orði. 10 En þú refsaðir þeim smátt og smátt og veittir þeim þannig færi á að iðrast þó að þér væri ekki ókunnugt um að þeir voru gjörspilltir frá fæðingu, illska þeim í blóð borin og að þeir tækju ekki sinnaskiptum að eilífu. 11 Frá upphafi hvíldi bölvun yfir kyni þeirra.
Það var ekki af hræðslu við neinn að þú lést þeim óhegnt fyrir syndir þeirra. 12 Hver getur sagt við þig: „Hvað hefur þú gert?“ eða hver getur andmælt dómi þínum? Hver getur ásakað þig fyrir að eyða þjóðum sem þú sjálfur skapaðir? Gæti nokkur risið gegn þér til varnar ranglátum mönnum? 13 Enginn guð er til annar en þú sem annast allt, enginn sem þú þyrftir að gera reikningsskap um rétta dóma. 14 Ekki neinn konungur eða einvaldur getur andmælt þér vegna þeirra er þú hefur refsað.
15 Þú ert réttlátur og stjórnar öllu réttvíslega. Þú telur ekki sæma mætti þínum að dæma saklausum refsingu. 16 Máttur þinn er grundvöllur réttlætis þíns. Af því að þú ríkir yfir öllum þyrmir þú öllum. 17 Efi einhver að máttur þinn sé fullkominn þá sýnir þú honum styrk þinn og þeim sem þekkja hann og ofmetnast refsar þú. 18 Þótt þú drottnir yfir öllu dæmir þú mildilega og stjórnar oss með mikilli vægð en þér er frjálst að sýna mátt þinn þegar þú vilt.
19 Með slíku kenndir þú lýð þínum að hinn réttláti á að vera kærleiksríkur og vaktir þjónum þínum þá vissu von að þú unnir þeim afturhvarfs, hafi þeir syndgað. 20 Fyrst þú refsaðir með slíkri nærgætni og vægð óvinum þjóna þinna, sem áttu dauða skilið, og gafst þeim tíma og tóm til að hverfa frá vonskunni, 21 með hvílíkri alúð hlýtur þú þá að dæma börn þín. En þú gafst feðrum þeirra góð fyrirheit og staðfestir þau með eiðum og sáttmála.
22 Þú agar oss en hirtir óvini vora stórlega til þess að vér minnumst gæsku þinnar er vér dæmum en væntum miskunnar fyrir dómi. 23 Þá ranglátu, sem ólu aldur sinn fávíslega, píndir þú með þeirra eigin viðurstyggð. 24 Þeir voru komnir á slíkar villigötur að þeir töldu, eins og fávís börn, guði vera kvikindi sem jafnvel önnur dýr hefðu andstyggð á. 25 Þess vegna hirtir þú þá eins og fákæn börn með refsingu sem gerði þá að athlægi. 26 En þeir sem létu sér ekki segjast við þessa hræðilegu umvöndun hlutu máttugan dóm Guðs. 27 Þeir þjáðust og fengu óbeit á dýrunum sem þeir höfðu talið vera guði. Þegar þeim varð ljóst að þau voru refsing sáu þeir að sá er sannur Guð sem þeir áður höfðu ekki viljað kannast við. Þess vegna gekk þyngsta refsing yfir þá.