Um veikindi, læknisdóm og lyf
1Heiðra lækninn fyrir þjónustu hans,
Drottinn skapaði hann einnig.
2 Frá Hinum hæsta kemur honum lækningagáfa,
hann þiggur gjafir af konungum.
3 Mennt læknis gerir hann virtan,
hann nýtur aðdáunar valdhafa.
4 Drottinn lét jörðina gefa af sér lyf
og hygginn maður forsmáir þau ekki.
5 Gerði ei viðurinn vatnið sætt
svo að máttur Drottins yrði kunnur?
6 Drottinn veitti mönnum þekkingu
svo að hann yrði dásamaður af undraverkum sínum.
7 Með þeim hefur hann læknað og linað kvöl,
8 lyfsalinn nýtir þau til að blanda lyfin.
Drottinn lætur aldrei af verki sínu,
frá honum berst heilsa um gjörvalla jörð.
9 Barnið mitt, taktu eigi létt á veikindum
en bið til Drottins og hann mun lækna þig.
10 Haltu þig frá röngu og breyt um lifnað
og hreinsa hjartað af hverri synd.
11 Færðu reykelsis- og minningarfórn af mjöli,
smyr fórnina olíu eins og efni þín leyfa.
12 En leitaðu líka læknis, Drottinn skapaði hann einnig,
lát hann eigi vanta því að þú þarfnast hans.
13 Einatt er það á hans valdi að hjálpa
14 enda biðja læknar Drottin sjálfir um hjálp
að þeim auðnist að veita sjúkum fró
og lækning er veitir lífgjöf.
15 Sá sem syndgar gegn skapara sínum
hlýtur að lenda í höndum læknis.
Um að syrgja látna
16Barnið mitt, grát genginn mann,
hef upp harmakvein vegna mikils missis.
Bú þú um lík hans eins og vera ber
og vertu ekki hirðulaus um gröf hans.
17 Grát beisklega og kveina hátt,
haltu sorgarhátíð sem honum hæfir,
einn dag eða tvo svo að þú sért síður rægður,
en lát síðan huggast af harmi.
18 Harmur getur leitt til dauða,
sorgin lamar lífsþrótt.
19 Í hörmungum ríkir sorgin
og líf í fátækt er hjartanu böl.
20 Gef hjarta þitt eigi sorg á vald,
hrind henni frá þér og minnstu dauða þíns.
21 Gleym eigi þessu: Það verður ekki aftur snúið,
hinum látna hjálpar þú eigi en vinnur sjálfum þér mein.
22 Minnstu örlaga hans því að eins verða þín,
ég í gær, þú í dag.
23 Er látinn hvílist
skal og minning hans hvíla,
lát huggast þegar hann er skilinn við.
Fræðimennska og önnur iðja
24 Speki fræðimannsins krefst ríkulegra næðisstunda,
sá vex að vísdómi sem fá verk binda.
25 Hvernig fær sá vaxið að visku sem stýrir plógi
og stærir sig af broddstafnum,
rekur uxa og leggur sig allan fram
og á sér ekkert umræðuefni annað en kálfa?
26 Hann gefur sig allan að plægingu,
hugur hans snýst allur um eldi á kvígum.
27 Svo er og um byggingameistarann og smiðinn,
sem leggja nótt við dag,
og þá sem grafa á innsiglishringa
og eru eljusamir við gerð sundurleitra mynstra.
Þeir leggja sig fram um að ná sem nákvæmastri mynd,
hugurinn snýst um að ljúka verki.
28 Eins er um smiðinn við steðjann
sem fylgist grannt með járnsmíðinni.
Heitur reykur tærir hold hans,
hann berst við hita aflsins.
Hamarshögg deyfa [ eyru hans,
augun einblína á fyrirmyndina.
Hugur hans beinist allur að því að ljúka verki,
stendur allur til þess að reka smiðshöggið.
29 Eins er um leirkerasmiðinn er situr að verki
og snýr hjólinu með fótum sínum.
Hann hefur sífelldar áhyggjur af iðju sinni
og hve mörgum munum hann skili af hendi.
30 Með höndunum mótar hann leirinn
og hnoðar hann mjúkan undir fótum.
Hann kappkostar að fullkomna glerunginn
og er langt fram á nótt að hreinsa ofninn.
31 Allir treysta þeir höndum sínum
og sérhver þeirra er snjall í verki.
32 Án þeirra yrði engin borg byggð
og þar mundi hvorki neinn búa né þangað koma.
En þeir eru ekki kvaddir til ráðgjafar þjóðinni
33 né ber þá hátt á þjóðarsamkundu.
Þeir setjast aldrei í dómarasæti
enda lítt heima í réttarskipan.
Þeir kenna hvorki né dæma
og eru ekki handgengnir orðskviðum.
34 En þeir tryggja skipan hins skapaða heims
og bæn þeirra er að vera vel verki farnir.