Friðarumleitanir við Hólofernes
1 Þeir sendu þess vegna sendiboða til Hólofernesar til að friðmælast við hann með þessum orðum: 2 „Við, þrælar stórkonungsins Nebúkadnesars, föllum að fótum þér. Farðu með okkur svo sem þér líst. 3 Öll býli okkar og hagar, hveitiakrar, hjarðir fjár og nautgripa og öll fjárbyrgin við tjaldbúðir okkar eru til þinnar ráðstöfunar. Gerðu það sem þér þóknast við það allt. 4 Einnig eru borgir okkar þín eign og þeir sem í þeim búa eru þrælar þínir. Komdu og farðu með þá svo sem þér sýnist best.“
5 Mennirnir komu til Hólofernesar og fluttu honum þessi boð. 6 Hann hélt þá með allan her sinn ofan til strandar, kom varðmönnum fyrir í víggirtu borgunum og kvaddi þaðan valda menn í her sinn. 7 Bæði borgarbúar og íbúar úr nágrenninu tóku á móti Hólofernesi með blómsveigum, dansi og bumbuslætti.
8 En hann eyddi allt land þeirra og hjó niður helga lundi þeirra því að honum hafði verið skipað að afmá alla guði jarðar svo að allar þjóðir tækju að dýrka Nebúkadnesar einan og allar þjóðtungur og ættkvíslir að ákalla hann sem guð. 9 Síðan hélt hann að Esdrelonsléttu í nánd við Dótan sem liggur að hinni voldugu Júdeuhásléttu. 10 Hann sló upp herbúðum sínum milli Geba og Skýtópólis og hélt þar kyrru fyrir í mánuð til þess að safna vistum fyrir her sinn.