III.

Þá sendu kóngarnir og höfðingjarnir af Syria, Mesopotamia, Syria Sóbal, Lybia og Cilicia þeirra boðskap úr öllum stöðum og löndum, þeir komu til Holofernes og sögðu: „Snú þinni reiði frá oss því það er betra að vér þjónum þeim mikla kóngi Nabogodonosor og séu þér hlýðnir og höldum lífinu heldur en að vér skulum deyja og vinna þó ekkert á. Allar vorar borgir, auðæfi, fjöll, hálsar, akrar, uxar, sauðir, geitfé, hestar, úlfaldar og hvað vér höfum, þar með vort þjónustufólk, það er allt saman þitt. Gjör þú af því hvað þér líkar. Já, einnin vér sjálfir og vor börn erum þínir þénarar. Kom til vor og ver oss náðigur, herra, og þigg vora þjónustu svo sem þér líkar.“

Þá dró Holofernes ofan af fjallinu með allt sitt herlið og inn tók þær sterku borgir og allt landið. Og hann útvaldi sér þénara af því besta fólki sem hann fann á meðal þeirra. Af þessu skelfdust öll lönd svo mjög að stjórnararnir og þeir helstu úr öllum borgum með fólkinu gengu út á móti honum og meðtókku hann með krönsum, blysum, dansi, bumbum og hljóðpípum og kunnu þó með slíkri æru öngva náð að finna því að hann braut niður þeirra borgir og upphjó þeirra lundi. Því að Nabogodonosor kóngur hafði honum svo skipað að hann skyldi afmá öll skúrgoð í þeim löndum svo að allar þjóðir sem Holofernes ynni prísuðu hann fyrir guð alleina.

Og þá hann hafði nú reist í gegnum Syria Sóbal, Apameam og Mesopotamiam kom hann til þeirra Edómíta í land Gaba og vann þeirra borgir og var þar í þrjátígi daga á meðan hann kallaði allt sitt stríðsfólk til samans.