1 Besalel, Oholíab og allir aðrir hagleiksmenn, sem Drottinn gaf hugvit og kunnáttu svo að þeir bera skynbragð á alls konar verk sem vinna þarf vegna helgidómsins, eiga að gera allt sem Drottinn hefur boðið.“
Gjöld til helgidómsins
2 Móse kallaði nú fyrir sig Besalel og Oholíab og alla aðra hagleiksmenn sem Drottinn hafði veitt þekkingu, alla sem fúsir voru til að hefja verkið og vinna það. 3 Þeir tóku við öllum gjöfunum af Móse sem Ísraelsmenn höfðu komið með svo að hægt væri að vinna allt verkið við helgidóminn. En Ísraelsmenn komu sjálfviljugir með gjöld sín, hvern morgun. 4 Þá komu allir hagleiksmennirnir sem voru að vinna allt sem þurfti vegna helgidómsins, hver frá því verki sem hann var að vinna, 5 og sögðu við Móse: „Fólkið kemur með meira en nauðsynlegt er vegna verksins sem Drottinn bauð að vinna.“ 6 Móse skipaði þá að þessi boð yrðu kunngjörð í búðunum: „Hér eftir skulu hvorki karlar né konur hafa fyrir því að koma með gjafir til helgidómsins.“ Þá hætti fólkið að koma með afgjöldin 7 því að nóg var komið, meira að segja meira en nóg, til að vinna allt verkið.
Tjaldbúðin
8 Hagleiksmennirnir á meðal þeirra, sem verkið unnu, gerðu tjaldbúðina úr tíu tjalddúkum úr tvinnuðu, fínu líni, bláum purpura, rauðum purpura og skarlati. Þeir glitófu kerúba í dúkana. 9 Hver dúkur var tuttugu og átta álna langur og fjögurra álna breiður. Allir dúkarnir voru jafnstórir. 10 Hann festi fimm tjalddúka hvern við annan og hina fimm tjalddúkana festi hann einnig hvern við annan. 11 Síðan gerði hann lykkjur úr bláum purpura á jaðar annars tjalddúksins á samfellunni og eins á jaðar endadúksins á hinni samfellunni. 12 Hann gerði fimmtíu lykkjur á annan tjalddúkinn og fimmtíu lykkjur á jaðar endadúksins í hinni samfellunni. Lykkjurnar stóðust á. 13 Síðan gerði hann fimmtíu króka úr gulli og krækti dúkana saman með krókunum svo að tjaldbúðin varð ein og óskipt.
14 Hann gerði tjalddúka úr geitahári til að tjalda með yfir tjaldbúðina, ellefu tjalddúka. 15 Hver dúkur var þrjátíu álna langur og fjögurra álna breiður. Þessir ellefu tjalddúkar voru jafnstórir. 16 Hann festi saman fimm dúka sér og sex dúka sér. 17 Hann gerði fimmtíu lykkjur á jaðar endadúksins í samfellunni og fimmtíu lykkjur á jaðar dúksins í hinni samfellunni. 18 Hann gerði fimmtíu króka úr eir til að krækja tjaldbúðina saman svo að hún yrði ein heild. 19 Hann gerði þak yfir tjaldið úr rauðlituðum hrútsskinnum og annað þak úr höfrungaskinnum yfir það.
20 Hann gerði þiljuborð í tjaldbúðina, borð úr akasíuviði sem stóðu upp á endann. 21 Hvert borð var tíu álna langt og hálf önnur alin á breidd. 22 Á hverju borði voru tveir tappar til að festa þau. Þannig gerði hann öll borðin fyrir tjaldbúðina. 23 Hann gerði borð fyrir tjaldbúðina: tuttugu borð fyrir suðurhliðina 24 og fjörutíu sökkla úr silfri undir þessi tuttugu borð, tvo sökkla undir hvert borð, sinn fyrir hvorn tappa. 25 Fyrir hina hlið tjaldbúðarinnar, norðurhliðina, gerði hann tuttugu borð 26 og fjörutíu sökkla úr silfri, tvo sökkla fyrir hvert borð. 27 Hann gerði sex borð fyrir afturgafl tjaldbúðarinnar sem snýr í vestur 28 og hann gerði tvö borð fyrir horn búðarinnar á bakhliðinni. 29 Þau voru tvöföld að neðan og eins að ofan til fyrsta hrings. Þannig gerði hann þau bæði, í báðum hornunum. 30 Þetta voru átta borð ásamt sökklum úr silfri, sextán sökklum, tveimur undir hverju borði.
31 Hann gerði þverslár úr akasíuviði, fimm fyrir þiljuborðin á annarri hlið tjaldbúðarinnar 32 og fimm fyrir þiljuborðin á hinni hlið hennar og fimm þverslár fyrir þiljuborðin á bakhliðinni gegnt vestri. 33 Hann gerði miðslána þannig að hún var á miðjum borðunum, endanna á milli. 34 Hann lagði borðin gulli og gerði hringi úr gulli á þau til að halda þverslánum uppi. Hann lagði einnig slárnar gulli.
35 Hann gerði fortjaldið úr bláum purpura, rauðum purpura og skarlati ásamt tvinnuðu, fínu líni. Hann óf í það kerúba með myndvefnaði. 36 Hann gerði fjórar súlur úr akasíuviði og lagði þær gulli. Í þeim voru naglar úr gulli og hann steypti undir þær fjóra sökkla úr silfri. 37 Hann gerði forhengi fyrir inngang tjaldsins úr bláum purpura, rauðum purpura og skarlati ásamt tvinnuðu, fínu líni, listilega gerðu. 38 Hann gerði fimm súlur úr akasíuviði með nöglum fyrir forhengið. Hann lagði súlnahöfuðin og þverslárnar gulli en sökklar þeirra voru úr eir.