Nehemía fer til Jerúsalem
1 Í nísanmánuði, á tuttugasta stjórnarári Artaxerxesar konungs, þegar ég sá um vínföngin, tók ég vínið og rétti konungi. Konungur hafði ekki séð mig niðurdreginn áður 2 svo að hann spurði: „Hvers vegna ertu svona dapur í bragði? Þú ert þó ekki veikur? Eitthvað hlýtur að hvíla á þér.“[
Ég varð mjög hræddur 3 en svaraði konungi: „Konungur lifi ævinlega. Hvers vegna skyldi ekki liggja illa á mér? Borgin, sem geymir grafir feðra minna, er í rúst og hlið hennar hafa verið brennd í eldi.“
4 Konungur spurði: „Hvers beiðistu þá?“
Ég gerði bæn mína til Guðs himinsins 5 og svaraði því næst konungi: „Ef þú, konungur, telur það rétt, og ef þú telur þjón þinn færan um það, sendu mig þá til Júda, til borgarinnar sem geymir grafir feðra minna, svo að ég geti endurreist hana.“
6 Þá spurði konungur – en við hlið honum sat drottning: „Hve lengi verður þú fjarverandi? Hvenær kemurðu aftur?“
Konungi þóknaðist að senda mig þegar ég hafði tiltekið við hann ákveðinn tíma.
7 Því næst sagði ég við konung: „Telji konungur rétt ætti að fá mér bréf til landstjóranna í skattlandinu handan fljóts[ til þess að þeir leyfi mér að fara yfir lönd sín og ég komist alla leið til Júda. 8 Einnig ætti að fá mér bréf til Asafs, konunglegs skógarvarðar, til þess að hann fái mér við til að gera bjálka í hlið musterisvirkisins, borgarmúrana og húsið sem ég mun búa í.“
Konungur gerði þetta þar sem Guð hélt verndarhendi yfir mér.
9 Þegar ég kom til landstjóranna í skattlandinu handan fljóts afhenti ég þeim bréf konungs. Konungur hafði sent með mér liðsforingja og riddara. 10 Þegar Sanballat frá Hóron og Tobía, konungsþjónn frá Ammón, fréttu þetta þótti þeim mjög miður að kominn væri maður sem ætlaði að gæta hagsmuna Ísraelsmanna.
Nehemía skoðar múrana
11 Eftir að ég kom til Jerúsalem var ég um kyrrt í þrjá daga. 12 Þá fór ég á fætur að næturlagi ásamt fáeinum mönnum en skýrði ekki nokkrum manni frá því hverju Guð minn hafði blásið mér í brjóst að gera fyrir Jerúsalem.[ Engin skepna var með mér önnur en sú sem ég hafði til reiðar.
13 Ég fór út um Dalshliðið að næturlagi, fram hjá Drekalind og að Öskuhliðinu og athugaði á leiðinni múra Jerúsalemborgar en þeir höfðu verið rifnir niður og hlið hennar brennd í eldi. 14 Síðan fór ég yfir að Lindarhliðinu og Konungstjörninni en þá þrengdi svo að skepnunni sem ég reið að hún komst ekki lengra. 15 Ég gekk því upp dalinn um nóttina og hugaði að múrunum á leiðinni. Þá fór ég aftur um Dalshliðið og hélt heim.
16 Ráðamenn vissu hvorki hvert ég hafði farið né hvað ég hafði haft fyrir stafni. Fram að þessu hafði ég ekki sagt Gyðingunum neitt, hvorki prestum, höfðingjum, ráðamönnum né öðrum embættismönnum. 17 En nú sagði ég við þá: „Þið sjáið sjálfir þá eymd sem við búum við. Jerúsalem er í rúst og hlið hennar hafa verið brennd í eldi. Hefjumst nú handa. Við skulum endurreisa múra Jerúsalem, þá búum við ekki lengur við þessa niðurlægingu.“
18 Því næst skýrði ég þeim frá því með hvílíkri gæsku hönd Guðs míns hefði hvílt yfir mér og eins hverju konungur hefði heitið mér. Þá svöruðu þeir: „Hefjumst handa við að byggja.“ Síðan tóku þeir til við þetta góða verk.
19 Þegar Sanballat Hóroníti, Tobía frá Ammón, embættismaður konungs, og Gesem Arabi fréttu þetta hæddu þeir okkur og spurðu fyrirlitlega: „Hvað er þetta sem þið eruð að gera? Ætlið þið að gera uppreisn gegn konungi?“ 20 Ég svaraði þeim og sagði: „Guð himinsins mun láta okkur takast þetta. Við, þjónar hans, munum hefjast handa við endurreisnina. En þið eigið hvorki hlutdeild né rétt í Jerúsalem og enginn minnist ykkar þar.“