Styrjöld Nebúkadnesars og Arpaksads

1 Á tólfta stjórnarári Nebúkadnesars, sem var konungur Assýríumanna í stórborginni Níníve, ríkti Arpaksad yfir Medum í Ekbatana. 2 Hann reisti múr af höggnum steini umhverfis Ekbatana. Steinarnir voru þriggja álna breiðir og sex álna langir. Hann hafði múrinn sjötíu álna háan og fimmtíu álna breiðan. 3 Við borgarhliðin reisti hann hundrað álna háa turna sem voru sextíu álna breiðir neðst. 4 Hliðin hafði hann sjötíu álna há og fjörutíu álnir á breidd. Herir hans gátu farið um þau til bardaga búnir og með fylktu fótgönguliði.
5 Um þær mundir hóf Nebúkadnesar konungur ófrið gegn Arpaksad konungi á sléttunni miklu, það er sléttunni við Rages. 6 Allir sem bjuggu til fjalla og allir íbúarnir við Efrat, Tígris og Hydaspesfljót gengu til liðs við hann. Einnig komu til liðs við hann þeir sem bjuggu á sléttu Aríoks, konungs Elamíta. Það voru því fjölmargar þjóðir sem veittu Kaldeum[ lið. 7 Síðan sendi Nebúkadnesar Assýríukonungur einnig boð til allra íbúa Persíu og þeirra sem búa í vestri, íbúa Kilíkíu, Damaskus, Líbanon og Antilíbanon, sem og allra sem búa úti við hafið. 8 Einnig sendi hann boð til þjóðanna í Karmel, Gíleað og Efri-Galíleu og á hinni miklu Esdrelonsléttu. 9 Enn fremur sendi hann boð til allra í Samaríu og borgunum þar og í héruðunum handan Jórdanar, Jerúsalem, Betaníu, Kellus, Kades og allt að Egyptalandsfljóti og til íbúa Tafne, Ramses og allra í Gósen. 10 Hann sendi boð allar götur suður fyrir Tanis og Memfis til allra íbúa Egyptalands uns boð hans barst alla leið að landamærum Eþíópíu. 11 En allir íbúar þessara landa virtu orð Nebúkadnesars Assýríukonungs að vettugi og gengu ekki til liðs við hann í hernaðinum. Þeir voru alls óhræddir við hann því að í augum þeirra var hann eins og hver annar maður. Þeir auðmýktu sendiboða hans og létu þá ganga bónleiða til búðar.
12 Þetta fyllti Nebúkadnesar slíkri heift gegn öllum þessum þjóðum að hann sór við hásæti sitt og konungstign að hefna sín á öllum héruðum Kilíkíu, Damaskus og Sýrlands. Sór hann að tortíma íbúum þeirra með sverði sínu, sem og íbúum Móabslands og Ammónítum, öllum í Júdeu og Egyptalandi allt þar til hann kæmi að tveggja vatna landinu.
13 Á sautjánda stjórnarári sínu réðst hann ásamt her sínum gegn Arpaksad konungi. Hafði hann sigur í orrustunni og rak allan her Arpaksads á flótta, alla riddara hans og stríðsvagna. 14 Hann lagði borgir hans undir sig og hélt allt til Ekbatana. Turnum borgarinnar náði hann á sitt vald, lét greipar sópa um stræti hennar og breytti fegurð borgarinnar í hryggðarmynd. 15 Hann greip Arpaksad konung á flótta í Ragesfjöllum og lagði hann í gegn með spjótum sínum. Þar með var Arpaksad úr sögunni. 16 Að því loknu sneri Nebúkadnesar aftur til síns heima. Fylgdi honum allur hans her, geysilegur fjöldi hermanna. Þar hélt hann kyrru fyrir ásamt her sínum í fjóra mánuði við veislufögnuð.