Bönnuð samskipti við heiðnar þjóðir
1 Þegar Drottinn, Guð þinn, hefur leitt þig inn í landið sem þú heldur nú inn í til að taka það til eignar, mun hann ryðja mörgum þjóðum úr vegi fyrir þér, Hetítum, Gírgasítum, Amorítum, Kanverjum, Peresítum, Hevítum og Jebúsítum, þeim sjö þjóðum sem eru fjölmennari og voldugri en þú. 2 Þegar Drottinn, Guð þinn, hefur gefið þér þær á vald og þú hefur sigrað þær skaltu helga þær banni. Þú mátt ekki gera við þær sáttmála, ekki hlífa þeim 3 og ekki mægjast við þær. Þú skalt hvorki gefa dætur þínar sonum þeirra né taka dætur þeirra til handa sonum þínum.
4 Það mundi snúa sonum þínum frá fylgd við mig svo að þeir færu að þjóna öðrum guðum. Þá mundi reiði Drottins blossa upp gegn ykkur og eyða þér þegar í stað. 5 En þannig skuluð þið fara með þær: Þið skuluð rífa niður ölturu þeirra, brjóta merkisteina þeirra, höggva niður Asérustólpa og brenna skurðgoð þeirra í eldi. 6 Því að þú ert heilög þjóð fyrir Drottni Guði þínum. Drottinn valdi þig til að verða eignarlýður hans meðal allra þjóða sem búa á yfirborði jarðar.
7 Ekki var það vegna þess að þið væruð fjölmennari en allar aðrar þjóðir að Drottinn fékk ást á ykkur og valdi ykkur því að þið eruð fámennari en allar aðrar þjóðir. 8 En sökum þess að Drottinn elskaði ykkur og hélt eiðinn sem hann sór feðrum ykkar leiddi hann ykkur út úr þrælahúsinu með sterkri hendi og keypti ykkur frjálsa úr hendi faraós Egyptalandskonungs. 9 Vita skaltu: Drottinn, Guð þinn, hann einn er Guð, hinn trúfasti Guð sem heldur sáttmálann og veitir þeim heill í þúsund ættliði sem elska hann og halda boðorð hans. 10 En hann endurgeldur þeim umsvifalaust sem hatar hann og afmáir hann. Hann hikar ekki heldur endurgeldur þeim umsvifalaust sem hatar hann. 11 Þess vegna skaltu halda fyrirmælin, lögin og ákvæðin, sem ég set þér nú í dag, og framfylgja þeim.
Fyrirheit um blessun Guðs
12 Ef þið hlýðið á þessi ákvæði og haldið þau af kostgæfni mun Drottinn halda sáttmálann við þig og veita þér þá heill sem hann hét feðrum þínum. 13 Hann mun elska þig, blessa þig og fjölga þér. Hann mun blessa ávöxt kviðar þíns og ávöxt lands þíns, korn þitt, vín, olíu, kálfa þína og lömb í landinu sem hann hét feðrum þínum að gefa þér. 14 Þú munt hljóta meiri blessun en allar aðrar þjóðir. Meðal þín verður hvorki ófrjór karl né kona og ekkert af búfénaði þínum gelt. 15 Drottinn mun bægja frá þér öllum sjúkdómum. Hann mun ekki leggja á þig neina af hinum þungbæru sóttum Egyptalands sem þú þekkir heldur mun hann leggja þær á fjandmenn þína. 16 Þú skalt eyða öllum þjóðum sem Drottinn, Guð þinn, gefur þér á vald. Hafðu enga samúð með þeim. Þú skalt ekki þjóna guðum þeirra því að þá gengur þú í gildru.
17 Þú kynnir að hugsa: „Þessar þjóðir eru fjölmennari en ég, hvernig á ég að geta hrakið þær burt?“ 18 En þú þarft ekki að óttast þær. Hafðu heldur hugfast hvernig Drottinn fór með faraó og alla Egypta. 19 Þú sást með eigin augum hin voldugu máttarverk, tákn og undur og hvernig Drottinn, Guð þinn, leiddi þig út með sterkri hendi og útréttum armi. Eins mun Drottinn, Guð þinn, fara með allar þjóðirnar sem þú hræðist. 20 Auk þess mun Drottinn, Guð þinn, láta örvæntingu koma yfir þær uns jafnvel þeim hefur verið tortímt sem af komast og fela sig fyrir þér.
21 Þú skalt ekki hræðast þær því að Drottinn, Guð þinn, er mitt á meðal ykkar, máttugur og ógnvekjandi Guð. 22 Drottinn, Guð þinn, mun smám saman ryðja þessum þjóðum úr vegi fyrir þér. Þú munt ekki geta tortímt þeim í einni svipan svo að villidýrunum fjölgi ekki þér til skaða. 23 En Drottinn, Guð þinn, mun gefa þessar þjóðir þér á vald. Hann mun gera þær frávita þar til þeim hefur verið gereytt. 24 Hann mun gefa konunga þeirra þér á vald og þú munt afmá nöfn þeirra undir himninum. Enginn maður mun geta staðið gegn þér uns þú hefur gereytt þeim.
25 Skurðgoð þeirra skuluð þið brenna í eldi. Þú skalt ekki girnast silfrið eða gullið sem þau eru lögð og ekki halda því, ella verður það þér gildra því að það er Drottni þínum viðurstyggð. 26 Þú mátt ekki flytja neina viðurstyggð í hús þitt því að þá verður þú helgaður banni eins og hún. Þú átt að hafa andstyggð og viðbjóð á henni því að hún er helguð banni.