Kúgun og böl
1 Enn sá ég alla þá kúgun sem viðgengst undir sólinni: Þar streyma tár hinna undirokuðu en enginn huggar þá. Af hendi kúgara sinna sæta þeir ofbeldi en enginn huggar þá. 2 Þá taldi ég hina framliðnu sæla, þá sem löngu eru dánir, sælli en hina lifandi, þá sem enn eru uppi, 3 en þann sælli þeim báðum sem enn er ekki fæddur og ekki hefur litið ódæðin sem framin eru undir sólinni.
4 Ég sá að allt strit og öll elja er ekki annað en öfund eins manns við annan. Einnig það er hégómi og eftirsókn eftir vindi.
5 Heimskinginn leggur hendur í skaut og tærist upp.[
6 Betri er hnefafylli af ró en báðar hendur fullar af striti og eftirsókn eftir vindi.
Bágt er að vera einn
7 Enn sá ég hégóma undir sólinni:
8 Maður stendur einn og enginn annar með honum, hann á hvorki son né bróður og þó er enginn endir á öllu striti hans og auðurinn mettar ekki augu hans. Fyrir hvern er ég þá að stritast og fyrir hvern læt ég þá sjálfan mig fara góðs á mis? Einnig þetta er hégómi og leið þraut.
9 Betri eru tveir en einn því að þeir hafa betri laun fyrir strit sitt. 10 Falli annar þeirra getur hinn reist félaga sinn á fætur en vei einstæðingnum sem fellur og enginn er til að reisa á fætur.
11 Ef tveir sofa saman er þeim heitt en hvernig getur þeim hitnað sem er einn? 12 Ef einhver ræðst á þann sem er einn munu tveir geta staðist hann og þrefaldan þráð er torvelt að slíta.
Hverfult er heimslán
13 Betri er fátækur unglingur og vitur en gamall konungur, sé hann heimskur og taki ekki fortölum. 14 Því að hann gekk út úr dýflissunni og varð konungur þótt hann hefði fæðst snauður í ríki annars. 15 Ég sá alla lifandi menn undir sólinni vera á bandi unglingsins, hins annars, þess er koma átti í hins stað. 16 Enginn endir var á öllu því fólki, á öllum þeim sem hann stjórnaði. En afkomendur hans glöddust ekki yfir honum. Einnig það er hégómi og eftirsókn eftir vindi.
Hafðu gát á þér
17 Hafðu gát á þér þegar þú gengur í Guðs hús því að betra er að koma þangað til þess að hlusta heldur en að heimskingjar færi sláturfórn því að þeir vita ekkert og gera það sem illt er.