Fyrirheit um endurreisn Jerúsalem og Júda
1 Orð Drottins kom öðru sinni til Jeremía á meðan hann var enn í haldi í garði varðliðsins: 2 Svo segir Drottinn sem skapaði jörðina, mótaði hana og grundvallaði. Nafn hans er Drottinn: 3 Hrópaðu til mín! Ég mun bænheyra þig og ég mun kunngjöra þér mikla hluti og leyndardómsfulla sem þú hefur ekki áður þekkt. 4 Því að svo segir Drottinn, Guð Ísraels, um húsin í þessari borg og um hús Júdakonunga sem hafa verið rifin niður til að gera úr þeim varnargarð gegn árásarvirkjunum og sverðinu: 5 Kaldear ryðjast inn, gera árás til að fylla húsin með líkum þeirra sem ég felli í heift minni og reiði því að ég hef byrgt auglit mitt fyrir þessari borg vegna illsku íbúanna.
6 Ég græði sár þeirra og lækna þá. Ég geri þá heila og opinbera þeim mikla hagsæld og velgengni. 7 Ég mun snúa við hag Júda og Ísraels og endurreisa þá svo að þeir verði eins og áður.
8 Ég hreinsa þá af allri þeirri sekt sem þeir hafa bakað sér með því að syndga gegn mér. Ég fyrirgef þeim allar syndir þeirra gegn mér, sem þeir hafa drýgt með því að rísa gegn mér. 9 Þá verður Jerúsalem mér til gleði, lofs og dýrðar meðal allra þjóða jarðarinnar þegar þær frétta um allt það góða sem ég geri henni. Þær munu titra og skjálfa vegna alls hins góða og þeirrar velgengni sem ég veiti borginni.
10 Svo segir Drottinn:
Um þennan stað segið þér: „Hann er í rústum án fólks og fénaðar.“ En á þessum stað, í borgum í Júda og á götum Jerúsalem, mannauðum, án fólks og fénaðar, munu aftur kveða við 11 gleðihróp og fagnaðaróp, hróp brúðguma og brúðar, raddir þeirra sem færa þakkarfórn í húsi Drottins og segja: „Þakkið Drottni hersveitanna því að hann er góður, því að miskunn hans varir að eilífu.“ Ég mun snúa högum landsins, það skal verða eins og áður, segir Drottinn.
12 Svo segir Drottinn hersveitanna: Á þessum stað, sem er rústir einar, án fólks og fénaðar, og í öllum bæjunum umhverfis verður aftur haglendi fyrir hirða til að hvíla hjarðir sínar. 13 Í fjalllendinu, í borgunum á láglendinu, í borgunum í Suðurlandinu, í landi Benjamíns, í héruðunum umhverfis Jerúsalem og í borgunum í Júda mun féð að nýju renna fram hjá þeim sem telur það, segir Drottinn.
Fyrirheit Drottins rætist
14 Þeir dagar koma, segir Drottinn, þegar ég læt hið góða fyrirheit rætast sem ég gaf Ísraelsmönnum og Júdamönnum. 15 Á þeim dögum og þeim tíma mun ég láta réttlátan kvist vaxa af ætt Davíðs. Hann mun framfylgja rétti og réttlæti í landinu. 16 Á þeim dögum mun Júda bjargað og Jerúsalem verða óhult. Þetta nafn verður henni gefið: Drottinn er réttlæti vort. 17 Því að svo segir Drottinn: Niðjar Davíðs skulu ætíð sitja í hásæti Ísraels. 18 Og aldrei skal skorta Levítapresta til þess að ganga fram fyrir auglit mitt og færa brennifórn, brenna kornfórn og bera fram sláturfórn dag hvern.
19 Orð Drottins kom til Jeremía:
20 Svo segir Drottinn: Ef unnt er að rjúfa sáttmála minn við daginn og sáttmála minn við nóttina svo að dagur hætti að taka við af nótt á réttum tíma 21 er unnt að rjúfa sáttmála minn við Davíð, þjón minn, svo að enginn niðja hans taki sæti sem konungur í hásæti hans, þá fyrst verður unnt að rjúfa sáttmála minn við Levítaprestana sem þjóna mér. 22 Ég mun fjölga niðjum Davíðs, þjóns míns, og Levítunum sem þjóna mér svo að þeir verði jafnmargir og himinsins her sem enginn getur talið og sjávarsandurinn sem ekki verður mældur.
23 Orð Drottins kom til Jeremía: 24 Hefurðu ekki tekið eftir því sem þetta fólk segir: Drottinn hefur hafnað báðum ættbálkunum sem hann útvaldi. Þeir hæðast að lýð mínum og telja hann ekki lengur neina þjóð. 25 Svo segir Drottinn: Svo sannarlega sem ég hef gert sáttmála við dag og nótt og sett himni og jörð reglur 26 mun ég hvorki hafna niðjum Jakobs né Davíðs, þjóns míns. Ég mun velja menn af niðjum hans til að ríkja yfir ætt Abrahams, Ísaks og Jakobs því að ég mun snúa við högum þeirra og miskunna þeim.