Ok Babýlonar
1 Í upphafi stjórnar Jójakíms Jósíasonar Júdakonungs kom þetta orð frá Drottni til Jeremía:
2 Svo sagði Drottinn við mig: Taktu reipi og ok og leggðu á háls þér. 3 Sendu síðan boð til konungsins í Edóm, konungsins í Móab, konungs Ammóníta, konungsins í Týrus og konungsins í Sídon með sendimönnunum sem komnir eru til Jerúsalem, til Sedekía Júdakonungs. 4 Feldu þeim að flytja húsbændum sínum þessi boð: Svo segir Drottinn hersveitanna, Guð Ísraels: Segið húsbændum yðar: 5 Ég er sá sem skapaði heiminn, mennina og dýrin á jörðinni. Ég gerði það með mínum mikla mætti og útréttum armi og gef það þeim sem mér þóknast. 6 Nú sel ég öll þessi lönd þjóni mínum, Nebúkadnesari Babýloníukonungi, í hendur. Ég fæ honum jafnvel dýr merkurinnar til þess að þau þjóni honum. 7 Allar þjóðir skulu þjóna honum, syni hans og sonarsyni þar til sá tími kemur yfir landið að voldugar þjóðir og miklir konungar gera það sér undirgefið. 8 En vilji einhver þjóð eða konungsríki ekki þjóna Nebúkadnesari konungi í Babýlon og ekki beygja háls sinn undir ok hans mun ég refsa þeirri þjóð með sverði, hungursneyð og drepsótt, segir Drottinn, þar til ég hef tortímt henni með hendi hans.
9 En hlustið ekki á spámenn yðar, spásagnamenn, þá sem drauma dreymir, þá sem skýra fyrirboða eða galdramenn þegar þeir segja við yður: „Þér verðið ekki þjónar konungsins í Babýlon.“ 10 Því að þeir boða yður lygar og hrekja yður með því frá föðurlandi yðar. Ég rek yður í burtu svo að þér farist. 11 En þá þjóð sem beygir háls sinn undir ok konungsins í Babýlon og þjónar honum læt ég vera óáreitta í landi sínu. Hún skal búa í því og yrkja það, segir Drottinn.
12 Sedekía Júdakonungi flutti ég þennan sama boðskap. Ég sagði: Beygið hálsinn undir ok konungsins í Babýlon. Þjónið honum og þjóð hans svo að þér haldið lífi. 13 Hvers vegna viltu falla ásamt þjóð þinni fyrir sverði, hungursneyð og drepsótt sem Drottinn hefur hótað þeirri þjóð sem ekki vill þjóna konunginum í Babýlon? 14 Hlustið ekki á ræður spámannanna sem segja við yður: „Þér verðið ekki þjónar konungsins í Babýlon.“ Því að þeir boða yður lygar. 15 Ég hef ekki sent þá, segir Drottinn, þeir boða lygar í mínu nafni. Það verður til þess að ég hrek yður brott svo að þér farist ásamt spámönnunum sem flytja yður boðskap.
16 En við prestana og allt þetta fólk sagði ég: Svo segir Drottinn: Hlustið ekki á ræður spámannanna sem flytja yður boðskap og segja: „Kerin úr húsi Drottins verða fljótlega flutt hingað aftur frá Babýlon.“ Þeir boða yður lygar. 17 Hlustið ekki á þá! Gerist þjónar konungsins í Babýlon svo að þér haldið lífi. Hvers vegna á þessi borg að verða að rúst? 18 Ef þeir eru spámenn og orð Drottins er hjá þeim hljóta þeir að biðja Drottin hersveitanna um að kerin, sem enn eru eftir í húsi Drottins og í höll Júdakonungs og í Jerúsalem, fari ekki til Babýlonar. 19 Því að svo segir Drottinn hersveitanna um súlurnar, hafið, vagngrindurnar og aðra gripi sem urðu eftir í þessari borg 20 og Nebúkadnesar konungur í Babýlon tók ekki með sér þegar hann flutti Jekonja Jójakímsson Júdakonung í útlegð frá Jerúsalem til Babýlonar ásamt öllum hefðarmönnunum í Júda og Jerúsalem. 21 Já, svo segir Drottinn hersveitanna, Guð Ísraels, um kerin sem voru eftir í húsi Drottins og höll Júdakonungs og í Jerúsalem: 22 Þau verða flutt til Babýlonar og þar verða þau þar til ég tek þau í mína vörslu, segir Drottinn, og flyt þau aftur til þessa staðar.