XII.
Og hinn sjöundi engill básúnaði og þar gjörðust miklar raddir á himnum. [ Þær sögðu: „Ríkin þessarar veraldar eru vorðin vors Drottins og hans Krists og hann mun ríkja um aldir og að eilífu.“ Og þeir fjórir og tuttugu öldungar sem sitja fyrir Guðs augliti á sínum stólum féllu fram á sínar ásjónur, tilbáðu Guð og sögðu: „Vér þökkum þér, Drottinn Guð almáttugur, sá þú ert og sá þú vart og sá þú tilkomandi ert, því að þú hefur meðtekið þinn mikla kraft og ríkir. Og hinar heiðnu þjóðir eru reiðar vorðnar og þín reiði er komin og tími framliðinna það þeir dæmist og laun að gefa þínum þjónum, spámönnum og heilögum og þeim er þitt nafn óttast, smáum og stórum, og að glata þeim sem jörðunni glatað hafa.“
Og musteri Guðs varð upplokið á himni og hans testamentsörk sástt í hans musteri. Og þar urðu eldingar og raddir og reiðarþrumur og jarðskjálftar og hagl mikið.
Og þar birtist teikn mikið á himni: Kona sólunni umskrýdd og tunglið undir hennar fótum og á hennar höfði kóróna af tólf stjörnum. Og hún var þunguð, kallaði og varð jóðsjúk og hafði miklar fæðingarhríðir.
Og þar birtist enn annað teikn á himni og sjá, að mikill dreki rauður, sá hafði sjö höfuð og tíu horn og á hans höfði sjö kórónur. Og hans hali dró þriðjung stjarnanna og fleygði þeim á jörð.
Og drekinn sté fram fyrir konuna þá sem fæða skyldi svo að nær hún hefði fætt að hann æti hennar barn. Og hún fæddi son, eitt sveinbarn, sá er stjórna skyldi öllum þjóðum meður járnvendi. Og hennar barni varð kippt til Guðs af hans stóli. Og konan flýði á eyðimörk hvar hún hafði fyrirbúinn stað af Guði og hún fæddist þar þúsund tvö hundruð og sextígi daga. [
Og þar gjörðist stríð mikið á himni. Míkael og hans englar börðust við drekann. [ Drekinn barðist og hans englar og yfirunnu ekki. Þeirra staður varð einnin eigi meir fudninn á himni. Og sá mikli dreki og hinn gamli höggormur, sá sem að heitir djöfull og andskoti, varð útsnaraður á jörðina og hans englar urðu og einnin útsnaraðir.
Og eg heyrði rödd mikla á himni segjandi: „Nú er heilsa og kraftur og ríki og máttur vors Guðs orðinn hans Krists með því hann er útsnaraður sem þá ásakaði dag og nótt fyrir Guði. Og þeir hafa hann yfirunnið fyrir lambsins blóð og fyrir orðið þeirra vitnisburðar og þeir hafa ei elskað sitt líf allt til dauðans. Þar fyrir gleðjist, þér himnar og þér sem þar inni byggið! Vei þeim á jörðu búa og á sjónum, því að djöfullinn stígur ofan til yðar, hafandi reiði mikla, og veit það hann hefur stuttan tíma.
Og sem drekinn sá það hann var útsnaraður á jörðina ofsótti hann þá konu sem sveininn hafði fætt. Og konunni urðu tveir vængir gefnir líka sem mikillar arnar svo það hún flygi á eyðimörk í sinn stað þar hún nærðist um einn tíma og um tvo tíma og um hálfan tíma frá augsýn drekans. Og drekinn gusaði eftir konunni úr sínum munni vatni, líka sem vatsflóði, svo að hún drekktist í flóðinu. [ En jörðin hjálpaði konunni og upplauk sinn munn og svelgdi flóðið er drekinn gusaði úr sínum munni. Og drekinn reiddist konunni og gekk burt að berjast við þá sem eftir voru af hennar sæði, þeir eð Guðs boðorð varðveita og hafa vitnisburð Jesú Christi.