VII.

Þá að kóngurinn var nú kominn og Aman til gestaboðsins þess sem drottningin Ester hafði tilreitt þá sagði kóngurinn enn annan daginn aftur til Ester þá hann var gleðikenndur af víni: „Hvers beiðist þú, Ester drottning, að eg skuli veita þér og hver er bón þín? Þó þú biðjir um helming míns ríkis þá skal það ske.“ Ester drottning svaraði og sagði: „Hafi eg fundið náð fyrir þínu augliti, kóngur, og ef það líkar kónginum þá gef mér mitt líf fyrir skuld minnar bænar og svo mínu fólki vegna minnar beiðslu. Því að vér erum seldir, eg og mitt fólk, so vér skulum eyðileggjast, drepast og í hel slást. Og Guð gæfi að vér værum seldir til þræla og ambátta, so munda eg þegja um það, so mundi og óvinurinn öngvan skaða kónginum gjöra.“

Þá svaraði Assverus kóngur og sagði til Esterar drottningar: „Hver er sá eður hvar er hann hvers hjarta slíkt dirfðist að taka sér fyrir að gjöra?“ Ester svaraði: „Sá óvinur og mótstandari er þessi hinn vondi Aman!“ En Aman varð hræddur við kónginn og drottninguna. Og kóngurinn stóð upp frá gestaboðinu og frá víninu með reiðum hug og gekk í aldingarðinn hjá höllinni. Og Aman stóð upp og bað Ester drottningu um líf sitt því hann sá að honum var alla reiðu ólukka reiðubúin af kónginum.

Nú sem kóngurinn kom inn aftur úr aldingarðinum inn í salinn þar gestaboðið stóð þá lá Aman á bekknum þar sem Ester sat. Þá sagði kóngurinn: „Vill hann og svo slá drottninguna í hel hér í mínu húsi hjá mér?“ Jafnsnart sem kóngurinn talaði þetta þá byrgðu þeir Amans andlit. Og Harbóna, einn af herbergjasveinum kóngsins, sagði: [ „Sjáið, þar stendur eitt tré í Amans garði, fimmtígi álna hátt, hvert hann hefur tilbúið Mardoko sá sem gott talaði kóngsins vegna.“ Þá sagði kóngurinn: „Hengið hann sjálfan þar á.“ Og so hengdu þeir Aman í þeim gálga sem hann hafði tilbúið Mardoko. Og so stöðvaðist kóngsins reiði.