XXI.

Israelismenn höfðu svarið einn eið í Mispa og sagt svo: „Þar skal enginn gefa þeim Benjamitis sína dóttir til eignarkvinnu.“ Og fólkið kom til Guðs húss og var þar fyrir Guði allt til kvelds. Og þeir upphófu sínar raddir og grétu beisklega og sögðu: „Drottinn, Guð af Ísrael! Því mun þvílíkt hafa skeð í Ísrael að á þessum degi er fallin ein kynkvísl af Ísrael?“ Annars dags tók fólkið sig árla upp og byggði þar eitt altari og offröðu brennifórnum og þakklætisoffri.

Og Ísraelssynir sögðu: „Hvar er sá nokkur staðar af Israelis kynkvíslum sem ekki er kominn hingað upp með almúganum til Drottins?“ Því þar var gjörður einn stór eiður að hver sem ekki kæmi upp til Drottins í Mispa sá skyldi sannlega deyja. En Ísraelssynir iðruðust vegna Benjamíns síns bróðurs og sögðu: „Í dag er ein kynkvísl úr fallin í Ísrael. Hvernin skulu vér bera oss að með þá sem eftir eru að þeir megi giftast? Því vér höfum svarið Drottni að vér skulum ekki gefa þeim kvinnur af vorum dætrum.“

Og þeir sögðu: „Hvar eru nokkurs staðar af Israelisætt þeir sem ekki hafa uppkomið til Drottins í Mispa?“ Og, sjá, að þar var enginn á meðal almúgans af Jabes í Gíleað. Því að þeir töldu fólkið og sjá, þá var þar enginn borgari af Jabes í Gíleað. Þá sendi almúginn tólf þúsund manns þangað af stríðsmönnum, buðu þeim og sögðu: „Farið og sláið með sverðseggjum Jabes borgara í Gíleað, jafnt konur og börn. Þó skuluð þér svo gjöra: Allt það sem er kallkyns og allar þær kvinnur sem menn hafa kennt skulu þér foreyða.“ Og þeir fundu hjá þeim borgurum í Jabes í Gíleað fjögur hundruð píkur sem voru hreinar meyjar og ekki höfðu legið hjá mönnum. Þær höfðu þeir til herbúða í Síló sem liggur í landi Kanaan. [

Síðan sendi allur almúginn og lét tala við Benjamín sem voru á því bjargi Rimmón og kölluðu þá með friði. Svo komu synir Benjamín aftur á þeim tíma. Og þeir gáfu þeim kvinnur af Jabes kvinnum í Gíleað sem þar voru eftir og ekki fundu þeir fleiri. Þá iðraðist fólkið yfir Benjamín að Drottinn hafði gjört eitt skarð í Ísraels kynkvíslir.

En þeir öldungar fyrir almúganum sögðu: „Hvað viljum vér til gjöra svo að þeir sem eftir eru megi og fá sér eiginkonur? Því að allar kvinnur í Benjamín eru afmáðar.“ Og þeir sögðu: „Þeir sem eftir eru af Benjamín mega þó halda sínum arfi að ein kynkvísl verði ekki með öllu afmáð í Ísrael. En vér megum ekki gefa þeim vorar dætur til eiginkvenna því Ísraelssynir hafa svarið og sagt: Bölvaður sé sá sem gefur þeim Benjamitis eiginkonur.“

Og þeir sögðu: „Sjá, þar er Drottins árleg hátíð í Síló sem liggur norður frá Betel mót austri á þeim vegi sem liggur upp frá Betel til Síkem í suðurátt mót Libóna.“ Og þeir buðu Benjamínsonum og sögðu: „Farið og liggið í leyndum í víngörðunum. Og þá þér sjáið að þær dætur af Síló ganga út hver eftir annarri í dans þá hlaupið sem snarast úr vínviðargörðunum og taki hver sér eiginkvinnu af Sílódætrum og farið svo aftur í Benjamínland. En þá þeirra feður eða bræður koma og og klaga þetta fyrir oss þá viljum vér segja til þeirra: Verið þeim náðug því að ekki hafa þeir tekið þær með stríði. [ En þér vilduð ekki gefa þeim þær þá þeir báðu. Því er það nú yðar skuld.“ Synir Benjamín gjörðu eins líka svo og tóku sér kvinnurnar eftir manntali af dansinum og gripu þær og ferðuðust þaðan og bjuggu í sínum arfi, byggðu borgir og bjuggu í þeim. So tóku Ísraelssynir sig upp, fóru þaðan á þeim tíma hver til sinnar kynkvíslar og ættar. Og þeir ferðuðust þar frá hver til sinnar arfleifðar. Á þeim tíma var enginn kóngur í Ísrael og gjörði hver það sem honum þótti rétt vera.

Endir á Dómarabókinni