Á þriðja mánaði eftir það sem Ísraelssynir voru útgengnir af Egyptalandi þá komu þeir á þeim degi í eyðimörku Sínaí. [ Því þeir ferðuðust af Rafídím og vildu til eyðimerkur Sínaí og þeir settu sínar herbúðir í þeim sama stað í eyðimörkinni gegnt fjallinu. En Móses gekk upp til Guðs. Og Drottinn kallaði hann af fjallinu og sagði: „So skalt þú segja til Jakobs húss og kunngjöra Ísraelssonum: Þér hafið séð hvað ég gjörða þeim egypsku og hvernin ég hefi borið yður á arnarvængjum og tekið yður til mín. Ef þér viljið hlýða minni röddu og halda minn sáttmála þá skulu þér vera mín eigin eign af öllu fólki, því öll jörðin er mín, og þér skuluð vera mér eitt kennimannlegt konungsríki og eitt heilagt fólk. Þessi eru þau orð sem þú skalt segja Ísraelssonum.“
Móses kom og kallaði saman öldunga lýðsins og lagði fram fyrir þá öll þessi orð sem Drottinn hafði boðið. Þá svaraði allur lýðurinn undireins og sagði: „Allt það sem Drottinn hefur sagt það viljum vér gjöra.“ Og Móses sagði Drottni aftur orð fólksins. Þá sagði Drottinn til Móse: „Sjá, ég vil koma til þín í einu þykku skýi uppá það að fólkið megi heyra mín orð þau sem ég tala við þig og trúi þér ævinlega síðan.“ Og Móses sagði Drottni frá orðum lýðsins.
Og Drottinn mælti við Mósen: „Far til fólksins og helgaðu það í dag og á morgun, að þeir þvoi sín klæði og sé búnir á þriðja degi. [ Því að á þeim þriðja degi mun Drottinn ofanstíga yfir Sínaífjall fyrir öllu fólki. Settu fólkinu eitt takmark umhverfis fjallið og seg þú til þeirra: Varið yður að þér gangið ekki uppá fjallið og komið ekki heldur við það neðsta á því, því hver sem kemur við fjallið hann skal dauða deyja. Engin mannshönd skal snerta hann heldur skal hann með grjóti lemjast eða með skotum í hel skjótast, hvort það er heldur maður eður kvikindi þá skal það ekki lifa. En þegar blásið er í básúnið þá skulu þeir fara til fjallsins.“ Og Móses gekk ofan af fjallinu til fólksins og helgaði það og þeir þvoðu sín klæði. Hann sagði til þeirra: „Verið búnir á þeim þriðja degi og komið ekki í nánd yðrum kvinnum.“
Og þegar sá þriðji dagur kom og ljóst var orðið þá tóku að heyrast reiðarþrumur og eldingar að sjást og eitt þykkt ský huldi fjallið og lúðursins hljóð varð ákaflega sterkt so að allt fólkið varð hrætt það sem var í herbúðunum. [ Og Móses leiddi fólkið út af herbúðunum í móts við Guð og það stóð undir fjallinu. En allt Sínaífjall rauk því að Drottinn fór ofan yfir fjallið með eldi og eirn reykur gekk upp af því, so sem reykur af ofni, og allt fjallið skalf ógurlega. [ Og lúðursins hljóð varð stærra og stærra. Móses talaði og Guð svaraði honum hátt.
Og sem Drottinn var ofan kominn yfir fjallið Sínaí á efsta hvirfil fjallsins þá kallaði hann Mósen efst uppá fjallið. Og Móses gekk upp. Þá sagði Drottinn til hans: „Far þú ofan og vitna fyrir fólkinu að það brjótist ekki hingað til Drottins að sjá hann so að ei falli fjöldi af þeim. En prestarnir sem ganga til Drottins, þeir skulu helga sig so að Drottinn ljósti þá ekki.“
Og Móses sagði til Drottins: „Fólkið má ekki stíga uppá Sínaífjallið því að þú vottaðir fyrir oss og sagðir: Settu eitt takmark umhverfis fjallið og helga það.“ Drottinn sagði til hans: „Far og stíg ofan, þú og Aron með þér skuluð stíga upp. En kennimennirnir og fólkið skulu ekki yfir takmarkið stíga til Drottins svo hann ekki slái þá í hel.“ Og Móses gekk ofan til fólksins og boðaði því þetta.