IX.

En Jesús kallaði saman þá tólf er postular nefndust og gaf þeim kraft og mátt yfir alla djöfla og það þeir læknuðu sóttir, sendi þá og út að prédika Guðs ríki og að græða sjúka og sagði til þeirra: [ „Þér skuluð ekkert bera með yður á veg, hvorki staf né tösku, eigi brauð né peninga, og þér skuluð ei hafa tvo kyrtla. Og í hvert það hús sem þér inngangið þá blífið þar þangað til þér farið í burt þaðan. Og sá hver er meðtekur yður eigi þá gangið út úr borg þeirri og hristið duft af fótum yðar til vitnisburðar yfir þá.“ Þeir gengu út og ferðuðust í gegnum kauptún, boðandi Guðs ríki og læknandi alls staðar.

En er Heródes fjórðungshöfðingi heyrði það allt hvað er hann gjörði varð hann hræddur af því að af sumum sagðist það Jóhannes væri af dauða risinn en af sumum það Elías væri auglýstur en af öðrum það einn af gömlu spámönnunum væri upp aftur risinn. [ Heródes sagði: „Johannem lét eg afhöfða en hver er þessi af hverjum eg heyri þvílíkt?“ Og hann fýstist að sjá hann.

Postularnir komu aftur og skýrðu honum frá hvað mikla hluti eð þeir höfðu gjört. [ Og hann tók þá til sín og veik afvega í eyðimörk þeirrar borgar sem hét Betsaída. Og er fólkið var þess vart dró það eftir honum. Og hann meðtók það og talaði fyrir þeim af Guðs ríki, læknaði og þá sem þess þurftu. En er líða tók á daginn gengu þeir tólf til hans og sögðu honum: „Lát fólkið í frá þér að það gangi í þau þorp og kauptún er hér eru í kring að herbergja sig og leita sér að fæðu því að vær erum hér á eyðimörku.“ En hann sagði til þeirra: „Gefi þér þeim að eta.“ Þeir sögðu: „Vær höfum eigi meir en fimm brauð og tvo fiska nema vera megi að vær förum og kaupum fæðu þessu öllu fólki.“ En þar var nær fimm þúsund manns. Hann sagði þá til sinna lærisveina: „Látið þá setja sig í lag, fimmtigum saman.“ Þeir gjörðu og so, settu sig niður allir samt. Hann tók þá þau fimm brauð og tvo fiska, leit til himins, gjörði þakkir og braut sundur, fékk sínum lærisveinum að þeir legði fyrir fólkið. [ Þeir neyttu og urðu allir saddir. Það var og upptekið er þeim hafði afgengið af leifunum, tólf karfir fullar.

Það gjörðist og þá hann var einn og baðst fyrir og hans lærisveinar hjá honum að hann spurði þá að og sagði: [ „Hvern segir fólkið mig vera?“ Þeir svöruðu og sögðu: „Þeir segja þú sért Jóhannes baptista en aðrir Elías en sumir segja það einn af inum fyrri spámönnum sé upprisinn.“ Hann sagði til þeirra: „Hvern segi þér mig vera?“ Símon Petrus svaraði og sagði:„Þú ert Kristur Guðs.“ En hann hastaði á þá, bauð þeim að þeir segði það ei neinum og sagði það Mannsins syni bæri margt að líða og forsmáður að verða af öldungum, kennimannahöfðingjum og skriftlærðum og líflátinn verða og á þriðja degi upp að rísa. [

Hann sagði þá til allra: [ „Ef nokkur vill mér eftirfylgja hann afneiti sjálfum sér og taki á sig sinn kross hversdagslega og fylgi mér eftir. Því hver eð sínu lífi vill bjarga hann týnir því en hver sínu lífi týnir minna vegna hann gjörir það hólpið. Því hvað gagnar það manninum þó hann hreppi allan heim en glati sjálfum sér eður skaði sjálfan sig? Því hver hann feilar sér mín og minna orða þess mun Mannsins sonur feila sér þá hann kemur í dýrð sinni og föður síns og heilagra engla. En eg segi yður sannlega að nokkrir af þeim hér standa smakka eigi dauðann þangað til þeir sjá Guðs ríki.“

Það skeði og eftir þessa ræðu, nær átta dögum, að hann tók með sér Petrum, Jacobum og Johannem og gekk upp á fjallið að biðjast fyrir. [ Og þá er hann baðst fyrir varð hans andlitsmynd önnur og hans klæði hvít og skínandi. [ Og sjá, að tveir menn töluðu við hann hverjir eð voru Moyses og Elía sem sáust í birtunni og töluðu um hans útför hverja hann mundi fullkomna til Jerúsalem. En Pétur og þeir er voru með honum voru mjög svefnþunga. Og er þeir vöknuðu sáu þeir hans dýrð og þá tvo menn er hjá honum stóðu.

Það varð og þá er hinir voru frá honum viknir að Pétur sagði til Jesú: „Meistari, gott er oss hér að vera og gjörum hér upp þrjár tjaldbúði, þér eina, Moyse eina, Elie eina.“ Og hann vissi eigi hvað hann sagði. En þá hann talaði þetta kom ský og skuggði yfir þá. Og þeir óttuðust er skýið leið yfir þeim. Og rödd kom úr skýinu er sagði: „Þessi er sonur minn elskulegur, heyrið honum.“ Og í því er röddin varð fundu þeir Jesú einansaman. Og þeir þögðu og sögðu eigi neinum frá því á þeim dögum hvað þeir höfðu séð.

Það skeði og annars dags er þeir fóru ofan af fjallinu að margt fólk rann í móti honum. [ Og sjá, að maður í bland fólkið kallaði upp og sagði: „Meistari, eg beiði þig, sjá til sonar míns því að hann er minn einkason og sjá, að andinn grípur hann, þá emjar hann upp jafnsnart, hrífur hann með froðufalli og varla skilst við hann þá hann hefir slitið hann. Og eg bað þína lærisveina að þeir ræki hann út og þeir gátu eigi.“ Þá svaraði Jesús og sagði: [ „Ó þú hin fráhverfa og vantrúaða kynslóð! Hversu lengi þá skal eg hjá yður vera og líða yður? Fær þú hingað son þinn.“ Og þá hann kom til hans hreif djöfullinn hann og sleit. En Jesús straffaði hinn óhreina anda og læknaði piltinn og fékk hann föður sínum. En þeim ógnaði öllum við Guðs mikilvirki. En er allir þeir undruðust það allt hvað hann gjörði sagði hann til sinna lærisveina: [ „Setjið þessa ræðu í hjörtu yðar. Því að þar mun koma að Mannsins son mun seljast í manna hendur.“ En það orð undirstóðu þeir eigi og það var hulið fyrir þeim so að þeir skildu það eigi. Og þeir óttuðust að spyrja hann að því sama orði.

En sá þanki hófst þeirra á milli hver þeirra mundi mestur verða. [ Og þá er Jesús sá þeirra hjartans þanka þreif hann barn og setti það hjá sér og sagði til þeirra: „Hver helst er meðtekur þvílíkt barn í mínu nafni sá meðtekur mig og hver hann meðtekur mig sá meðtekur þann er mig sendi. En sá yðar sem minnstur er hann mun mikill verða.“

Jóhannes svaraði þá og sagði: „Meistari, vær sáum þann er rak djöfla út í þínu nafni og vær fyrirbuðum honum það því að fylgdi þér eigi eftir meður oss.“ Jesús sagði til hans: [ „Fyrirbjóðið honum það eigi því að hver hann er ei mót oss sá er með oss.“

En það skeði þá þeir dagar voru fullkomnaðir er hann skyldi uppnemast sneri hann sinni ásján að ganga til Jerúsalem. [ Og hann lét sendiboð fara fyhrir sinni augsýn. Þeir fóru og gengu inn í samverskan kaupstað að þeir reiddu þar til fyrir honum. En þeir eð þar voru tóku eigi við honum af því að hann hafði snúið sinni ásján að reisa upp til Jerúsalem. En er hans lærisveinar, Jacobus og Jóhannes, sáu það sögðu þeir: „Viltu, lávarður, þá viljum vér segja að eldur komi af himni og fortæri þeim líka sem að Elías gjörði.“ En Jesús sneri sér við, hastaði á þá og sagði: [ „Viti þér eigi hvers anda synir þér eruð? Því Mannsins sonur er eigi kominn til þess að fyrirfara sálum manna heldur þær að frelsa.“ Og þeir gengu burt í annað kauptún.

Það skeði og er þeir voru á veginum að nokkur sagði til hans: „Eg vil fylgja þér eftir hvert helst þú fer.“ Jesús sagði til hans: [ „Refar hafa holur og fuglar himins hreiður en Mannsins son hefir eigi hvar hann megi sínu höfði að halla.“ Hann sagði og til eins annars: „Fylg þú mér eftir.“ En sá sagði: „Herra, lofa mér fyrst að ganga og greftra föður minn.“ Jesús sagði til hans: [ „Lát þá dauðu grafa sína inu dauðu en þú, gakk og boða Guðs ríki.“

Og annar sagði: „Herra, eg vil þér eftirfylgja en lofa mér þó fyrst að segja þeim mína burtför sem eru í mínu húsi.“ Jesús sagði til hans: „Enginn er þrífur sinni hendi að arðrinum og lítur á bak sér aftur er hæfilegur Guðs ríkis.“