VI.

Hvernin dirfist nokkur af yður þótt hann hafi eitthvað kærumál í móti öðrum að láta dæma það hjá ranglátum og eigi heldur hjá heilögum? Viti þér ekki það heilagir munu heiminn dæma? Og fyrst heimurinn skal dæmast af yður eru þér þá eigi nógu vel fallnir til að dæma um það sem minniháttar er? Viti þér ei það vér munum yfir englunum dæma? Hversu miklu meir þá yfir stundlegum auðæfum? En þér nær þér hafið nokkur málaferli um stundlegan auð þá taki þér þá sem hjá söfnuðinum [ forsmáðir eru og setjið þá til yfirdómara. Yður til smánar segi eg þetta. Er þá þá með öllu enginn so vitur yðar á milli það dæma kynni millum bróðurs og bróðurs? Heldur deilir bróðir við bróður, þar ofan á fyrir vantrúuðum.

Það er sennilega fullkomlegt brot í bland yður það þér hafið lagadeilur yðvar á milli. Hvar fyrir líði þér ei miklu heldur órétt? Eða því láti þér ekki svíkja yður heldur? Þér gjörið heldur rangt og svíkið og þó við bræðurnar.

Viti þér ei það ranglátir munu eigi eignast Guðs ríki? Látið eigi villa yður: Hverki frillulífismenn né blótmenn skúrgoða, eigi hórdómsmenn né sælgætingar, eigi heldur þeir sem skömm drýgja með karlmönnum, eigi þjófar né ágirndarmenn, eigi ofdrykkjumenn, eigi hneykslarar né ræningjar munu Guðs ríki eignast. Og þvílíkir hafa forðum daga nokkrir út af yður verið. [ En þér eruð nú afþvegnir, þér eruð nú helgaðir, þér eruð nú réttlættir fyrir nafnið Drottins Jesú og fyrir anda Guðs vors.

Allt leyfist mér en eigi batar það mig allt. Eg hefi allra hluta vald en mig skal ekkert yfirbuga. Fæðslan maganum og maginn fæðslunni en Guð mun þetta og hitt afmá. Líkaminn að sönnu eigi frillulifnaðinum heldur Drottni og Drotitnn líkamanum. En Guð hefur uppvakið Drottin, og so mun hann oss uppvekja fyrir sinn kraft. Eða viti þér ekki það yðrir líkamir eru Krists limir? Skylda eg nú taka Krists lim og gjöra þar af skækjunnar lim? Það sé fjarri. Eða viti þér ekki að hver hann samlagar sig skækjunni að sá er einn líkami meður henni? „Því að þau munu“ segir hann „tvö í einu holdi vera.“ En hvað hann samtengir sig Drottni sá er einn andi með honum.

Flýið frillulifnaðinn. Því að allar syndir hverjar maðurinn drýgir eru utan hans líkama en hver eð frillulifnaðinn drýgir sá syndgar við sinn eigin líkama. Eða viti þér ekki að yðrir limir eru musteri þess heilags anda sem í yður er þann þér hafið af Guði? [ Þér eruð og eigi yðrir sjálfs því að þér eruð dýru verði keyptir. Þar fyrir vegsamið Guð í yðrum líkama og yðrum anda hverjir Guðs eru.