Og Drottinn talaði við Mósen og sagði: „Send þú menn út að skoða landið Kanaan hvört ég vil gefa Ísraelssonum, af sérhverri kynkvísl eirn sérlegan mann.“ Móses sendi þá af þeirri eyðimörku Paran eftir orðum Drottins, þeir eð allir voru sérlegir (yppustu menn) á millum Ísraelssona. Og þeir heita svo:
Samnúa son Sakúr af ætt Rúben, Safat son Hórí af ætt Símeon, Kaleb son Jefúnne af ætt Júda, Ígeal son Jósef af ætt Ísaskar, Hósea son Nún af ætt Efraím, Paltí son Rafú af ætt Benjamín, Gadíel son Sódí af ætt Sebúlon, Gaddí son Súsí af ætt Jósef og Manasse, Ammíel son Gemallí af ætt Dan, Setúr son Míkael af ætt Asser, Nahabí son Vapsí af ætt Neftalí, Gúel son Makí af ætt Gað. [ Þessi eru nöfn þeirra manna sem Móses útsendi að skoða landið. En Móses kallaði Hósea Nún son Jósúa.
Og sem Móses sendi þá nú út til að skoða Kanaansland sagði hann til þeirra: „Reisið upp í móti suðri og gangið á fjöllum uppi og lítið þaðan á landið, hvernin það er og það fólk sem landið byggir, hvort það er sterkt eður veykt, fátt eða margt, og hvað það er fyrir eitt land sem þeir byggja, hvort það er gott eða vont, og hvað fyrir borgir það eru sem þeir búa úti, hvort þeir búa í tjaldbúðum eða föstum stöðum, og hvað það er fyrir land, hvort það er feitt eða magurt, og hvort það er skógótt eða ekki. Verið hraustir og takið af ávexti landsins.“ Og þetta var á þeim tíma sem vínþrúgurnar voru fyrst fullvaxnar.
Þeir fóru af stað og rannsökuðu landið frá eyðimörku Sín og allt til Rehób, þá farið er til Hamat. Þeir gengu og upp í mót suðri og komu til Hebron. Þar voru þeir Ahíman, Sesaí og Talmaí, synir Enak. En Hebron var byggð sjö árum fyrr en Sóan í Egyptalandi. Og þeir komu til þess lækjar sem kallast Eskól og skáru þar upp einn vínvið með sínum vínberjum og létu tvo menn bera hann á eirni stöng þar til og so grantaepli og fíkjur. Sá staður kallast Eskólslækur sökum þeirrar vínþrúgu sem Ísraelssynir skáru þar af.
Og þeir komu aftur þá þeir höfðu rannsakað landið eftir fjörutygu daga, gengu þaðan og komu til Móse og Aron og alls almúgans Ísraelssona í eyðimörku Paran í Kades og sögðu þeim og öllum almúganum frá þeim tíðindum sem þeir séð höfðu. Og þeir sýndu þeim landsins ávöxtu og kunngjörðu þeim frá og sögðu: „Vér komum í landið það þér senduð oss til, hvört að flýtur í mjólk og hunangi, og þetta er landsins ávöxtur, utan það að það land byggir eitt sterkt fólk og það eru mjög stórar og sterkar borgir og vér sáum þar syni Enak. Amalek byggir landið að sunnanverðu, Hetei og Jebúsei og Amorei búa á fjallbyggðum, Kananei búa út með hafinu og hjá Jórdan.“
En Kaleb stöðvaði fólksins mögl í gegn Móse og sagði: „Látum oss fara upp þangað að eignast landið, því að vér fáum það vel unnið.“ En förunautar hans sögðu: „Eigi kunnum vér að fara mót því fólki, því það er sterkara en vér.“ Og þeir hallmæltu landinu fyrir Ísraelssonum sem það höfðu skoðað og sögðu: „Það land sem vér gengum í gegnum að skoða upp étur sína innbyggjara og allur sá lýður sem vér sáum þar inni er með risavexti. Vér sáum þar og risa, sonu Enak af risa ættum, og vér þóttunst vera líka sem [ locustae hjá þeim að sjá og so vorum vér fyrir þeirra augum.“