XLVI.

Svo segir Drottinn Drottinn: Það portið á því innsta fordyrinu sem er mót austrinu skal vera tillukt þá sex rúmhelga dagana en á þvottdögunum og tunglkomunum skal það opið vera. Og höfðinginn skal ganga utan til undir það lofthúsið á portinu og standa við stólpana á portinu. Og prestarnir skulu offra hans brennioffri og þakklætisoffri en hann skal tilbiðja á þröskuldi portsins og ganga síðan út aftur. En portið skal opið vera til kvelds. Og fólkið af landinu skal eins líka so tilbiðja fyrir Drottni í þeim sömu portdyrunum, á þvottdögunum og tunglkomuhátíðunum.

Það brennioffrið sem höfðinginn skal offra fyri Drottni á þvottdeginum skal vera sex lömb sem eru lastalaus og einn hrútur lastalaus og eitt efa mataroffurs til eins hrútsins og til mataroffursins en til lambanna so mikið sem hans hönd gefur til mataroffursins og eitt hín með oleum til eins efa.

En á þeim tunglkomunum skal hann offra einum uxa sem er lastalaus og sex lömbum og einum hrút lastalausum og einu efa til uxans og einu efa til hrútsins til mataroffursins en til lambanna so mikið sem honum sýnist og einu hín oleum til eins efa.

Og nær eð höfðinginn gengur inn þangað þá skal hann ganga inn að portinu lofthússins og ganga so þann sama veg út aftur. En það fólkið í landinu sem kemur fyrir Drottin á þeim stæstu hátíðunum að tilbiðja og gengur inn að portinu í mót norðrinu þá skal það ganga út aftur að því portinu mót suðrinu. Og hverjir sem innganga um það portið móti suðrinu þá skulu þeir útganga um það portið móti norðrinu. Og þeir skulu ekki út aftur ganga um það sama portið sem þeir eru inn gengnir heldur skulu þeir ganga rétt fram og so út. En höfðinginn skal ganga bæði inn og út með þeim.

En á helgum dögunum og þeim stæstu hátíðunum skal offrast til mataroffursins til eins uxa eitt efa og til hrútsins eitt efa og til lambanna eftir því sem hans hönd vill gefið hafa og eitt hín oleum til eins efa.

En nær eð höfðinginn vill fórnfæra Drottni eitt viljuglegt brennioffur eður þakklætisoffur so skal upplúkast fyrir honum það portið móti austrinu að hann megi so offra sínu brennioffri og þakklætisoffri líka so sem hann er vanur að offra á þvottdögunum. Og nær eð hann gengur út aftur þá skal portið látast aftur eftir honum.

Og daglegana þá skal hann fórnfæra Drottni eitt brennioffur, einkum sem er eitt ársgamalt lamb lastalaust því hann skal offra hvern morgun. Og hann skal hvern morgun leggja þar upp á einn séttung af einum efa til mataroffurs og einn þriðjung af einum hín oleum til að vökva með hveitimjölið Drottni til eins mataroffurs, það skal vera einn ævinlegur réttur um það hið daglega offrið. Og hvern morgun skulu þeir offra lambinu með mataroffrinu og oleum til eins daglegs brennioffurs.

So segir Drottinn Drottinn: Nær einn höfðingi gefur einhverjum af sínum sonum eina gáfu af sinni arfleifð, þeirri hinni sömu skulu hans synir bíhalda og að erfðum eignast. En gefi hann nokkrum af sínum sveinum eitthvað af sinni arfleifð það skulu þeir eingast til frelsunarársins. Þá skal það falla til höfðingjans aftur því að hans arfleifð skal alleinasta erfast af hans sonum. Og höfðinginn skal ekki neitt hafa frá fólkinu af þeirra arfleifð og ekki að drífa þá af þeirra eigin góssi heldur skal hann láta sitt eigið góss sínum börnum sjálfs til erfðar falla so það enginn af mínu fólki skuli í burt drífast af sinni eign og ættleifð.

Og hann leiddi mig undir innganginn hjá hliðinu á portinu í mót norðrinu hjá helgidómsins herbergi sem kennimönnunum tilheyrði og sjá þú, að þar var eitt rúm í einni hyrningunni mót vestrinu. Og hann sagði til mín: Þetta er sá staðurinn á hverjum prestarnir skulu sjóða sakaroffrið og syndaoffrið og baka það mataroffrið so að þeir þurfi ekki að bera það út um það hið yðsta portið til að helga fólkið.

Þar eftir á leiddi hann mig út til hins fordyrsins og bað mig að ganga í þau fjögur hornin á fordyrinu. Og sjá þú, að þar voru út í hverjum af þeim fjórum hornunum önnur smá fordyri til að veifa reykelsinu út í, fjörutígi álna löng og þrjátígi álna breið, öll fjögur með einum skammti. Og þar gekk einn lítill múr utan um kring hvert eitt af þeim fjórum. Þar voru og gjörðir eldsstaðir neðan til upp við múrinn. Og hann sagði til mín: Þetta er það matgjörðahúsið í hverju það þénarar hússins skulu matreiða það sem fólkið offrar.