VI.

Þér börn, verið hlýðug yðrum foreldrum í Drottni því að það er réttvíslegt. [ „Heiðra þú föður þinn og móður“, það er hið fyrsta boðorð sem fyrirheit hefur: „So að þér vegni vel og þú sért langgæður á jörðu“ Og þér feður skuluð eigi eigna yðar börn til reiði heldur alið þau upp með aga og umvöndun til Drottins.

Þér þjónustumenn, verið hlýðugir yðrum líkamlegum drottnum með ótta og skjálfta, í einfaldleik yðvars hjarta, svo sem Christo, eigi alleinasta með þjónustu fyrir augum so sem mönnum til þóknunar heldur so sem þjónar Christi það þér gjörið þennan Guðs vilja af hjarta með góðum huga. [ Látið yður þykja svo sem þér þjónið Drottni og eigi mönnum og vitið að hvað sem hver einn gjörir gott það mun hann af Drottni meðtaka, hvert hann er þræll eður frelsingi. Og þér drottnarnir, gjörið einnin þetta hið sama við þá og látið af ógnunum. [ Og vitið einnin það yðvar Drottin er á himnum og það að hjá honum er ekkert mangreinaálit.

Að síðustu, mínir bræður, styrkist í Drottni og í mætti hans kraftar. [ Íklæðið yður Guðs herskrúða so að þér getið staðið í gegn umsátum djöfulsins. Því að vér höfum eigi við hold og blóð að berjast heldur við höfðingja og volduga, sem er við drottna veraldarinnar, þeir í myrkrum þessarar veraldar drottna, viður illskuandana undir himninum. Hvar fyrir þá höndlið Guðs harneskju so að þér getið í móti staðið á hinum vonda degi og verið í öllum hlutum reiðubúnir.

So standið nú umgyrtir yðrar lendar með sannleikanum og ískrýddir með brynju réttlætisins og um fæturna skófataðir so sem reiðubúnir að framfylgja evangelio friðarins upp á það þér séuð fyrirbúnir. [ En umfram alla hluti þá höndlið trúarinnar skjöld með hverjum þér kunnið út að slökkva öll eldleg skeyti hins prettvísa. Og grípið hjálm hjálpræðisins og sverð andans hvert að er Guðs orð. Og biðjið iðuglega í allri nauðþurft með bænum og beiðni í andanum og þar til vakið með öllu staðfesti og ákalli fyrir öllum heilögum og fyrir mér upp á það mér gefist það orð með driftugri opnan míns munns svo að eg mætta kunngjöra leyndan dóm evangelii, hvers sendiboði eg em í fjötrunum, svo að eg megi djarflega þar inni höndla og so að tala sem tilheyrilegt er.

En það að þér vitið einnin hversu háttað er um mig og hvað eg gjöri, það kann Tychicos, minn kæri bróðir og trúr þénari í Drottni að kunngjöra yður allt saman. [ Því að eg hefi sent hann til yðar vegna þess að þér vissuð hvernin oss vegnaði og það hann hugsvalaði yðrum hjörtum. Friður sé bræðrunum og kærleiki með trúnni af Guði föður og Drottni Jesú Christo. Náð sé með öllum þeim sem elska vorn Drottin Jesúm Christum hreinferðuglega. Amen.

Skipaður af Róm til þeirra í Epheso

Meður Tycchion