Heilsan, þakkir, bænir og sálmur um Krist
Páll heilsar safnaðarfólkinu í Kólossu og þakkar Guði fyrir allt það góða, sem hann hefur af því fregnað. Hann biður Guð þess, að söfnuðurinn hviki í engu frá trúnni á Krist Jesú. 15. til 20. vers fyrsta kapítula bréfsins er sálmur úr frumkirkjunni. Þar er því lýst, hver Jesús er og í hverju hjálpræðisverk hans er fólgið.
* Kólossa: Kólossa var um 175 km. í austur frá Efesus, í svonefndum Lýkusárdal. Að borginni lágu fjölfarnar verslunarleiðir, bæði úr austri og vestri. Hún hafði verið mikill kaupstaður um fimm alda bil fyrir upphaf okkar tímatals, einkum fræg fyrir ullarvefnað. Á dögum Páls hafði Kólossa þó mátt lúta í lægra haldi fyrir nágrannaborgunum Híerapólis og Laódíkeu. Kólossa gjöreyðilagðist í jarðskjálfta einhvern tíma á árabilinu milli 60 og 64 e. Kr.
Af Kólossubréfinu að dæma hefur margskyns átrúnaður og ýmisleg lífsspeki þrifist í borginni og umhverfi hennar, og eitthvað af þessu hefur blandast saman. Sumir trúðu á stjörnurnar, „heimsvættirnar“ sem kallaðar voru (2.8), aðrir tilbáðu engla, og enn voru dulspekingar sem gengust upp við helgiathafnir launhelganna svonefndu og vildu fara að ströngum boðum þeirra og bönnum (2.16-23).
* Páll…Tímóteus: Páll gekk einnig undir hinu gyðingalega nafni sínu, Sál (Post 7.57-8.3; 9.1-30). Ungur var hann farísei, hlýðinn lögmáli Móse, og ofsótti kirkjuna (Fil 3.5,6). Hinn upprisni Kristur útvaldi hann postula sinn og fól honum að prédika fagnaðarerindið.(Post 9.1-19). Sjá „Páll (Sál) frá Tarsus„.
Tímóteus var „sonur trúaðrar konu af gyðingaætt, en faðir hans var grískur…Páll vildi hafa hann með sér og umskar hann sökum Gyðinga,“ segir í Post 16.1-3. Hann var samverkamaður Páls og nefndur á nafn í ýmsum bréfa hans (1Kor 4.17; 2Kor 1.1; 1Þess 1.1; Fílm 1).
1.1 postuli Krists Jesú: „Postuli“ þýðir sendimaður, hér sá sem Guð hefur valið til þess að breiða út fagnaðarerindið um Jesú Krist. „Kristur“ þýðir Hinn smurði, sem er á hebresku Messías (eða hinn útvaldi).
1.2 trúuð…helguð systkin í Kristi: Guðs börn eru víða í Nýja testamenti nefnd „hin heilögu“, þ.e. þau sem heyra til Guðs lýð.
1.3 Guði, föður Drottins vors Jesú: Jesús kallar Guð oft „föður“ (sjá t.d. Jóh 14). Hið sama gerir Páll í mörgum bréfa sinna ( Gal 1.2,3; 1Kor 1,3: Fil 1.2; Róm 1.7).
Þegar „Drottinn“ er haft um Jesú, vísar það til ríkis hans og máttar. Sjá „Drottinn„.
1.4 trú: Trú er að treysta Guðs syni, Jesú Kristi, sem fyrirgefur syndir (1.13,14). Sjá og „Trú„.
1.5 í himnunum: Orðið er haft um eilíft ríki Guðs. Hásæti hans er „á himnum“ og konungdómur hans drottnar yfir alheimi. Á himnum situr Kristur við hægri hönd Guðs, föður almáttugs (3.1).
1.5 í orði sannleikans, fagnaðarerindinu: „Orð sannleikans“ um Jesú Krist er það sem Epafras boðaði Kólossumönnum og hið sama og Páll prédikar. Það er líka nefnt „fagnaðarerindið“ og merkir þá bæði boðskapinn um Krist og kenningu Jesú um Guðs ríki. Páll kallar fagnaðarerindið líka „kraft Guðs sem frelsar hvern þann mann sem trúir“ (Róm 1.16).
1.7 Epafrasi: Epafras hét samverkamaður Páls. Hann boðaði Kólossumönnum fagnaðarerindið. Hann var líklega upprunninn í Litlu-Asíu (Kól 4.12) og mun hafa setið með Páli í fangelsi (Fílm 23,24). Það var Epafras, sem flutti Páli þau gleðitíðindi, að trú Kólossumanna á Krist hefði vaxið og dafnað og fagnaðarerindið borið ávöxt.
1.8 andinn: Heilagur andi, sem gefur Guðs lýð gjafir sínar, svo sem kærleika (1.8), speki og skilning (1.9). Sjá „Heilagur andi„.
1.10 eins og Guði líkar: Gríska orðið sem hér er þýtt með „Guði“ er „kýríos“, þ.e.Drottinn, og á við Krist Jesú. (Sjá athugagrein við 1.3).
1.12,13 arfleifð heilagra í ljósinu…ríki síns elskaða sonar: Víða í Biblíunni táknar ljósið Guð eða Guðs orð (1Jóh 1.5; Slm 119.105), en auk þess menn og málefni sem birta sannleika Guðs (Jes 49.6). Lærisveinar Jesú (söfnuðurinn) er nefndir „börn ljóssins“ (Jóh 12.35,36,46; Ef 5.8).
Veldi Guðs sonar (hins Smurða), eða Guðs ríkið, er konungdómurinn, sem drottnar yfir alheimi, bæði í þessu lífi og hinu komanda (sjá og Ef 5.5). Jesús ber sigurorð af Satan og öllum illum öflum,er standa í gegn Guði. Þeir sem treysta Kristi hljóta fyrirgefningu synda sinna og hafa þaðan í frá frelsi til þess að elska Guð og þjóna honum.
1.13 valdi myrkursins: Myrkrið táknar í Biblíunni þjáningu, eymd (Slm 107.10) og heimsku (Préd 2.14). Andstæðingar Guðs eru kallaðir „heimsdrottnar myrkursins“ (Ef 6.12) og þeim sem ekki gjöra vilja hans kann að verða „varpað í ystu myrkur“ (Matt 22.13). Nafnið „Satan“ þýðirandstæðingur Guðs.Satan er höfðingi hinna illu afla, sem standa í gegn Guði og vilja hans.
1.14 fyrirgefningu synda okkar: Synd er það, sem skilur okkur frá Guði og öðrum mönnum, enda óhlýðnast syndarinn boðorðum Drottins. Fyrirgefning gerir sektina að engu, gerir að engu skilrúmið á milli Guðs og manns. Í helgiritum Gyðinga (Gamla testamenti) gátu þeir sem brotið höfðu gegn vilja Guðs hlotið fyrirgefningu ef þeir létu af syndum sínum, sneru sér aftur til Drottins og færðu fórn samkvæmt fyrirmælum Móselaga (sjá athugagrein við 1.20). Jesús dó til þess að bera burt syndir heimsins (Róm 3.25,26; Ef 1.7,8). Sjá og „Synd„.
1.15,16 Hann er ímynd hins ósýnilega Guðs…Enda var allt skapað í honum: Þeir, sem sáu Jesú, sáu föðurinn á himnum. Jesús var í upphafi hjá Guði. Allt varð til fyrir hann (Jóh 1.1-3).
1.18 höfuð líkamans, kirkjunnar: Kristur er höfuð kirkjunnar, sem Páll nefndi tíðum „líkama Krists“ (Róm 12.5; 1Kor 12.17; Ef 1.22,23). Sjá og „Kirkjan„.
1.18 frumburðurinn frá hinum dauðu: Eftir á Jesús hafði verið líflátinn á krossi, reisti Guð hann upp frá dauðum (Matt 27.31-28.7; Post 2.22-24,32). Sjá og 1Kor 15.20,23 og „Upprisan„.
1.20 blóði sínu úthelltu á krossi: Jesús dó á krossi til þess að sigra dauðann og vera friðþæging fyrir syndir mannanna. Hér er skírskotað til fórnar prestanna í Musterinu á friðþægingardaginn (Jóm Kippúr) ár hvert. Prestarnir slátruðu fórnardýri og stökktu blóði þess á lok sáttmálsarkarinnar til þess að friðþægja fyrir syndir lýðsins (3Mós 16.14-16). En hér hefur sjálfur Guð fært fórnina. Sjá og Róm 3.25-26; Ef 1.7,8; Heb 9.15 og 1Kor 1.30.
1.23 þjónn þess: Gríska orðið, sem hér er þýtt með „þjónn“ er díakonos. Það er sama orðið og „djákni“ á íslensku.
1.25 Hennar þjónn: Páll hefur verið valinn þjónn kirkjunnar, boðberi fagnaðarerindis Jesú Krists.
1.26,27 leyndardóminn…leyndardómi: Leyndardómurinn er gleðitíðindin af því sem Jesús Kristur hefur gert til þess að frelsa mennina frá synd og dauða (Róm 16.25,26). Höfundur Efesusbréfsins lýsir þessum leyndardómi svo: „Með því að hlýða á fagnaðarerindið eru heiðingjarnir orðnir erfingjar með okkur,einn líkami með okkur, og eiga hlut í sama fyrirheiti og við“ (Ef 3.3-6).
1.27 heiðnar þjóðir: Fæstir íbúar Kólossu voru Gyðingar. Sjá „Heiðingjarnir„.