Heilsun og bæn fyrir Fílemon

Páll heilsar Fílemon og öllum þeim öðrum, sem koma saman á heimili hans. Líkt og flestum bréfum sínum lætur hann svo fylgja postullega kveðju: Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.

Páll, bandingi: Ekki er vitað með vissu hvar það var, sem Páll sat í fangelsi þegar hann skrifaði Fílemon. Sjá athugagreinina hér næst að ofan.

2 Tímóteus…Fílemon: Tímóteus, samverkamaður Páls, er nefndur á nafn í mörgum bréfa hans (1Kor 4.17; 16.10; 2Kor 1.1,19; 1Þess 1.1). Sjá og Post 16.1-3. Sjá einnig innganginn að Fyrra bréfi Páls til Tímóteusar.

söfnuðinum sem kemur saman í húsi þínu: Gríska orðið, sem hér er þýtt á íslensku með orðinu „söfnuður“ er ekklesíaog merkir upprunalega sérhvern samsöfnuð manna. Á dögum Páls var alsiða, að hinir kristnu kæmu saman í heimahúsum. Þetta gátu verið samkvæmi af ýmsu tilefni. Heima hjá Fílemon hljótum við að álykta, að sálmar hafi verið sungnir, bænir fluttar, kvöldmáltíðarsakramentið haft um hönd, orðið prédikað og trúkennsla stunduð. Sjá og „Kirkja„.

Appíu…Arkippusi: Um þessi tvö er ekki fleira vitað en að þau voru meðal þeirra sem söfnuðust saman á heimili Fílemons. Arkippus er þó nefndur í Kól 4.17.

3 Guði föður vorum…Drottni Jesú Kristi: Jesús kallaði Guð „föður“ (Jóh 14). Páll gerir eins í mörgum bréfa sinna (1Kor 1.3; Gal 1.2,3; Fil 1.2).

„Drottinn“ er á grísku kyrios og samsvarar titlinum „herra.“ Þegar Jesús er kallaður „Drottinn“ er það viðurkenning á tign hans og valdi. Sjá „Drottinn (notað um Jesú)„. Nafnið Jesús var algengt á tímum Nýja testamentis. Það er grísk mynd hebreska nafnsins „Jósúa.“ „Kristur“ er dregið af gríska orðinu christos,en það er á hebresku „Messías“, sem þýðir „hinn smurði“ eða „hinn útvaldi.“

9 hann Páll gamli: Á grísku „Paulos presbýtes.“ Sumir fræðimenn telja, að hér hafi átt að standa „presbeutes“ þ.e. sendimaður, sendiherra.

10 Onesímus: Grískt nafn og merkir „hinn þarfi.“ Onesímus var í ánauð hjá Fílemon og mun hafa strokið (15). Hann hafnaði sig síðar hjá Páli, þar sem hann sat í dyflissu ellegar stofufangelsi. Í 18. versi er ekki annað að sjá en að Onesímus hafi tekið eitthvað frá Fílemon ófrjálsri hendi. Páll var í fangelsi, þegar hann kynntist Onesímusi, en ekki er vitað hvort Onesímus var samfangi hans. Páli er undur hlýtt til Onesímusar af því hann leiddi hann til trúar á Krist Jesú.

11 Hann var þér áður óþarfur: Hér bregður Páll fyrir sig orðaleik með nafn Onesímusar (hinn þarfi) og kveður hann hafa verið „óþarfan.“ „Óþarfur“ er á íslensku „sá, sem gerir ógagn.“ En nú segir Páll Onesímus vera þarfan bæði sér og Fílemon af því að hann hefur tekið trú og ekki að vita nema hann taki að prédika fagnaðarerindið.

13 fagnaðarerindisins: „Fagnaðarerindið“ merkir bæði boðskapinn um Krist og kenningu hans um Guðs ríki. Páll kallar fagnaðarerindið líka „kraft Guðs sem frelsar hvern þann mann sem trúir“ (Róm 1.16).

14 af fúsum vilja: Páll kaus heldur, að Fílemon tæki við Onesímusi með fúsu geði sem bróður í trúnni og lærisveini (16), heldur en einungis fyrir sín orð.

16 þræli: Þrælahald var mjög algengt í rómverska heimsveldinu á fyrstu öldinni eftir Krists burð. Sjá „Þrælar og þjónustufólk á dögum Jesú„.

19 þú ert jafnvel í skuld við mig um sjálfan þig: Þessi staðhæfing gæti þýtt, að Páll hafi orðið til þess fyrstur manna að ræða við Fílemon um fagnaðarerindið og kærleika Guðs. Fílemon öðlaðist nýtt líf í Kristi, þegar hann tók við boðskap Páls í trú.

22 hafðu líka til gestaherbergi handa mér: Páll hefur í hyggju að heimsækja Fílemon innan skamms. Það gæti benti til þess, að hann sitji ekki fanginn í Róm, heldur ef til vill í Efesus eða í einhverri annarri borg þar nær sem Fílemon átti heima.

Kveðjur og fyrirbæn

Páll lýkur bréfinu með því að bera kveðju frá nokkrum lærisveinum Drottins, sem eru samvistum við hann.

23 Epafras: Samverkamaður Páls, líka nefndur í Kól 1.7; 4.12.

24 Markús, Aristarkus, Demas og Lúkas: Þessir lærisveinar eru allir nefndir á nafn í Kól 4.10-14. Markús starfaði bæði með Páli og Barnabasi og er nokkrum sinnum nefndur í Postulasögunni (Post 12.12,25; 13.13; 15.36-39). Aristarkus frá Þessaloníku í Grikklandi var ferðafélagi Páls (Post 19.29; 20.4,5), líka í síðustu ferð hans til Rómar (Post 27.2). Demasar er getið í 2Tím 4.10 og hann sagður upp á heiminn, enda hafi hann fyrigefið Pál.

Minnst er áLúkas í Kól 4.14 og hann kallaður „læknirinn elskaði“; sömuleiðis í 2Tím 4.11. Þótt ekki sé vitað með vissu hver er höfundur Lúkasarguðspjalls og Postulasögunnar, þá er það þessi Lúkas sem bæði ritin hafa löngum verið við kennd (sjá innganginn að Lúkasarguðspjalli).

25 Drottins vors Jesú Krists: Sjá athugagrein við 3.