12.1 umkringd slíkum fjölda votta: Átt er við þau sem hafa verið trú allt frá örófi alda, þar á meðal fólkið, sem talið er upp í 11. kapítula Hebreabréfsins. Myndin, sem höfundur bregður hér upp, minnir á mannmergðina á áhorfendapöllum íþróttavalla.

12.1 synd og þreytum þolgóð það skeið: Sjá athugagrein við 1.3 (hreinsaði okkur af syndum okkar). Páll postuli líkir lífi í trú við kapphlaup. Endimörk hlaupabrautarinnar og sigurlaunin eru lífið með Kristi og í honum, upprisan frá dauðum. Það eru verðlaunin himnesku, sem kristnum manni hlotnast (Fil 3.12-16). Til þess að svo megi verða, þarf hann að “beina sjónum sínum til Jesú, höfundar og fullkomnara trúarinnar.”

12.2 til hægri handar: Sjá athugagrein við 1.3 (til hægri handar).

12.4 kostað ykkur lífið: Eða “skaðað ykkur.”

12.9 himnesks föður: Guðs.

12.10 verðum heilög: “Tekin frá” handa Guði eða “útvalin” til þess að þjóna honum.

12.16 Esaú…lét af hendi frumburðarrétt sinn: Þar eð Esaú, sonur Ísaks, fæddist á undan Jakobi bróður sínum, bar honum svonefndur “frumburðarréttur.” Þennan rétt seldi hann Jakobi, bróður sínum, fyrir eina máltíð (1Mós 25.27-34). Höfundur Hebreabréfsins heldur því fram, að þeir sem lifa óguðlega fyrirgeri rétti sínum sem börn Guðs, á sama hátt og Esaú frumburðarréttinum.

12.18 fjalls sem á verður þreifað: Hér er vísað til þess er Drottinn talaði til lýðsins af Sínaífjalli (2Mós 19.16-25).

12.22 Síonfjalls og borgar Guðs lifanda, hinnar himnesku Jerúsalem: Davíð konungur hertók borg Jebúsíta, Jerúsalem, að meðtöldu klettavirkinu Síon eða “Síonfjalli” (2Sam 5.6-10; 1Kro 11.4-9). Virkið var nefnt “borg Davíðs.” Sonur Davíðs, Salómon konungur, reisti þar síðar musteri (1Kon 6-8).

Um “hina himnesku Jerúsalem” sjá athugagrein við 11.10. Í Opinberunarbók Jóhannesar ræðir um nýjan himin og nýja jörð, og “borgina helgu, nýja Jerúsalem,” sem stígur niður af himni frá Guði búin eins og brúður sem skartar fyrir manni sínum (Opb 21.1,2).

12.23 safnaðar frumgetinna: Allra elskaðra Guðs barna (sjá athugagrein við 1.6).

12.24 Jesú, meðalgangara nýs sáttmála: Sjá athugagreinar við 7.22 og 8.6.

12.24 blóð Abels: Sjá “Trúmenn, sem nefndir eru í 11. kapítula Hebreabréfsins“. Sjá og 1Mós 4.1-16.

12.25 þeir…komust ekki undan: Lýður Guðs sneri oft baki við honum og óhlýðnaðist lögmálinu, sem Guð fól Móse á Sínaífjalli (2Mós 20.22). En jafnvel Guðs útvalda þjóð komst ekki hjá hirtingu, þegar hún hafði að engu boðorð hans.

12.28 ríki, sem ekki getur bifast: Þetta er ríki Guðs á himnum, sem aldrei getur á grunn gengið, af því að það er fullkomið og mun vara að eilífu (Heb 7.22-8.13; 9.15).

12.29 okkar Guð er eyðandi eldur: Sjá athugagrein við 10.27. Sjá og 5Mós 4.24.